Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Qupperneq 49
TMM 2008 · 1 49
Vi l l t a b a r n i ð o g s i ð m e n n i n g i n
Það er ekki tilviljun að Astrid Lindgren skrifar fyrstu bókina í lok
seinna stríðs. Lína Langsokkur er í fullkominni andstöðu við fasisma-
bylgjuna sem hafði riðið yfir heiminn allt frá því í byrjun fjórða áratug-
ar 20. aldar. Lína hafnar regluverki samfélagsins, stekkur inn í það eins
og óskrifað blað og heldur sjálfstæði og frumleika á lofti. Hún hafnar
aga skólans, reglum um hegðun í kökuboðum eða hvaða regluverki sem
er. Þegar hún mætir í kökuboð til móður Tomma og Önnu er hún eins
og skrumskæling á fínni frú – með eldrauðir varir og svartar augabrún-
ir sem hún hefur litað með sóti. Hegðunin er ýkt eins og útlitið; eftir að
hafa fengið sér ríkulega af kökum endar hún á að stinga andlitinu ofan
í rjómatertu og er því orðin eins og trúður í sirkus – sem hún er kannski
einmitt því með hegðun sinni sýnir hún fram á hvílíkur sirkus kaffiboð
fínna frúa eru. Lína efast alltaf, spyr alltaf gagnrýninna spurninga og
skekur þannig grundvallarstoðir siðmenningarinnar. Þó að Lína sé
aðeins lítið barn í litlum bæ í Svíþjóð hefur saga hennar miklu meira
gildi en aðeins á þessum litla stað. Hún snýst um baráttu frumleika við
hefð, einstaklingshyggju við hjarðeðli, barna við fullorðna, villimennsku
við siðmenningu.
En hvernig fer lítið barn að því að skekja þessar stoðir? Jú, áður hefur
verið nefnt að Lína er vel efnum búin, á sitt eigið hús og sekk fullan af
gullpeningum. En tvennt annað skiptir máli. Lína er gríðarlega sterk.
Hún á hest sem hún getur lyft ein og sjálf. Hún ræður við tvo lögreglu-
menn eins og ekkert sé. Og þegar það kemur sirkus í bæinn hikar Lína
ekki við að glíma við manninn sem sagður er sá sterkasti í heimi og ber
nafnið Adolf sterki. Þetta gerir hún þó að fulltrúar siðmenningarinnar
– þ.e. Tommi og Anna – letji hana mjög til dáða. Í senunni er sirkusstjóri
sem er með talgalla og getur ekki sagt err. Hann skorar á áhorfendur að
glíma við Adolf sterka og vinna þar með 100 krónur.
Hvað var hann að segja, spurði Lína. Og af hverju talar hann arabísku?
Hann sagði að sá sem gæti kýlt stóra karlinn niður fengi hundrað krónur, sagði
Tommi.
Það get ég, sagði Lína. En mér finnst nú hálfljótt að kýla hann niður því hann
er svo góðlegur á svipinn.
Nei þú getur það áreiðanlega ekki, sagði Anna. Því þetta er sterkasti maður í
heimi!
Maður já, sagði Lína. En ég er sterkasta stelpa í heimi, mundu það! (Lína Lang-
sokkur, 68)
Og þar með ræðst Lína á eitt af meginnormum vestrænnar siðmenn-
ingar sem er að karlmenn séu alltaf sterkari en konur og snýr því á hvolf.