Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Síða 50
50 TMM 2008 · 1
K a t r í n J a k o b s d ó t t i r
Það tekur Línu ekki langan tíma að kýla Adolf greyið í gólfið – einum
þrisvar sinnum – og lýkur bardaganum með orðum Línu: „Nú nenni ég
þessu ekki lengur, litli minn“ (Lína Langsokkur, 70). Lína storkar sið-
menningunni og regluverki hennar stanslaust með hegðun sinni og
framkomu og fulltrúar siðmenningarinnar, hvort sem það eru fullorðna
fólkið almennt, karlmenn eða lögregluþjónar, standa ráðalausir gagn-
vart villibarninu.
III. Lína og tungumálið
Ekki eru það þó endilega aflraunaafrek Línu – sem þó eru mörg og
mikil – sem mestu skipta í sögunni. Sá sem er sterkastur er ekki endilega
sigurvegari ef ekki fylgir með greind og hugvit. Og hugvitið er í raun
sterkasta vopn Línu. Öll hegðun hennar lýsir því að hún tekur ekkert
sem gefið og snýr öllu á hvolf ef það hentar henni. Hún sefur með fæt-
urna á koddanum, þeytir pönnukökudeigið með baðburstanum, bakar
á gólfinu og skúrar með því að renna sér fótskriðu á skrúbbunum. Og
hugvitið sést ekki síst á notkun hennar á tungumálinu sem hún teygir
og togar á alla kanta og snýr því öfugt þannig að það verður vopn henn-
ar í uppreisninni gegn siðmenningunni. Öllum spurningum snýr hún á
hvolf og beinir orðræðunni í nýjar áttir.4 Þegar Lína vill kaupa píanó
spyr Tommi hvort hún kunni nokkuð á píanó. Hún svarar um hæl: „Ég
hef aldrei átt píanó til að prófa það. Og það get ég sagt þér, Tommi, að
það spilar enginn á píanó píanólaust nema hafa æft sig ofboðslega mikið
áður“ (Lína Langsokkur ætlar til sjós, 120–121).
Skyndilega eru allar hefðbundnar hugmyndir um tónlistarnám í upp-
námi. Er hægt að spila á píanó píanólaust og þarf maður þá að hafa átt
píanó áður til að æfa sig? Allt í einu sér lesandinn fyrir sér píanóspilandi
krakka með ekkert píanó fyrir framan sig. Sama má segja um samskipti
Línu og Tomma þegar þau eru ásamt Önnu föst á eyðieyju og Lína vill
senda flöskuskeyti um að þau hafi verið neftóbakslaus í tvo daga. Þegar
Tommi andmælir stendur ekki á svörum: „Heyrðu mig nú, Tommi!
Viltu segja mér eitt! Hvorir heldurðu að séu oftar neftóbakslausir, þeir
sem nota neftóbak eða þeir sem ekki nota það?“ (Lína Langsokkur ætlar
til sjós, 183)
Lína beitir nýstárlegum röksemdafærslum og sama má segja um
notkun hennar á tungumálinu. Þetta sést t.d. í skilgreiningum Línu á
veruleikanum en öll notum við tungumálið til að skilgreina allt sem í
kringum okkur er. Lína gerir það líka en notkun hennar á tungumálinu
sýnir skapandi skynjun á veruleikanum. Þannig er athyglisvert að fylgj-