Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Page 52
52 TMM 2008 · 1
K a t r í n J a k o b s d ó t t i r
bráðnytsama dunk á hausnum hefði hún stórslasast og varfærnislegar
ábendingar Önnu um að ef hún hefði ekki verið með dunkinn á hausn-
um hefði hún alls ekki dottið til að byrja með lætur hún sem vind um
eyru þjóta. En nákvæmlega þetta: Að horfa á gamlan ryðgaðan dunk og
endurskilgreina hann, nýta hann á nýjan hátt, þetta er það sem hefur
Línu upp yfir þennan hefðbundna heim. Hún er laus undan klafa sið-
menningar, laus við hinn kassalaga hugsunarhátt hins vestræna heims.
Þannig sér hún eitthvað allt annað úr ryðguðu drasli en Tommi og
Anna.
Lína beitir tungumálinu oft á óvæntan hátt. Hún getur verið kald-
hæðin eins og sést þegar hún bjargar Villa litla undan fimm strákum
sem eru að berja á honum. Þá munar hana ekki um að pakka strákunum
fimm saman og skammar þá svo fyrir að ráðast fimm saman á einn
strák og bætir við: „Og byrjið svo að hrinda lítilli, varnarlausri stelpu.
Svei, það er ljótt!“ (Lína Langsokkur, 23) Ég er ekki viss um að strákarn-
ir sem liggja allir óvígir uppi í tré hafi áttað sig á því að þarna á Lína við
sjálfa sig og bregður þá óvæntu ljósi á þá staðreynd að auðvitað virðist
hún vera lítil og varnarlaus stelpa og það er ljótt að ráðast á minnimátt-
ar.
Lína er í stanslausri uppreisn með endursköpun sinni á veruleikan-
um. Hrekkjusvínin liggja eftir óvíg, ryðgaður dunkur verður hámerki-
legt fyrirbæri og svo mætti lengi telja. En fulltrúum siðmenningarinnar
líkar sumum hverjum ekkert sérstaklega við þessa sífelldu endursköpun
á veruleikanum sem allir eru búnir að koma sér saman um hvernig á að
vera.
IV. Siðmenning og villibarn mætast
Um þetta snúast bækurnar um Línu. Stöðugt reynir siðmenningin að ná
tökum á villibarninu. Sama hvort það er karlveldið í líki Adólfs sterka
eða hrekkjusvínanna fimm. Eða þá skólakerfið sem reynir að temja Línu
eða þá lögregluþjónarnir sem reyna að draga Línu á heimili fyrir mun-
aðarlaus börn. Svo ekki sé minnst á hina skelfilegu fröken Rósu sem
mætir í skólann og spyr börnin spjörunum úr og gefur þeim gjafir sem
standa sig best í utanbókarlærdómi. Allt eru þetta fulltrúar siðmenning-
arinnar og alltaf skýtur villibarnið þeim ref fyrir rass.
Ekki gefst tóm hér til að rifja upp öll þessi átök (þó að öll séu þau vel
þess virði). Lesendur Línu muna örugglega langflestir eftir því þegar
Lína fór í eltingarleik við lögregluþjónana tvo sem ætluðu að fara með
hana á munaðarleysingjahæli. Leikurinn barst upp á þakið á Sjónarhóli