Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Page 54
54 TMM 2008 · 1
K a t r í n J a k o b s d ó t t i r
V. Ýkjur og skarpskyggni
Hinn ferkantaði skóli er allt of lítill fyrir Línu sem sprengir hann utan
af sér með orðum og hugsunum. Og hluti af málnotkun Línu eru lygar
og ýkjur sem hún er sjálf oft meðvituð um. Þetta kemur til dæmis fram
þegar Lína kaupir sér handlegg af gínu og fer í framhaldinu að segja
Tomma og Önnu sögur af borg þar sem allir höfðu þrjá handleggi. Hún
sér svo að sér og segir sakbitin: „Allt í einu vellur upp úr mér óstöðvandi
lygi án þess að ég geti nokkuð að því gert. Í sannleika sagt hafði fólkið í
þessari borg ekki þrjá handleggi. Það hafði bara tvo“ (Lína Langsokkur
ætlar til sjós, 124). Nema svo heldur Lína áfram í hina áttina og fer að
tala um að margir í borginni hafi aðeins haft einn handlegg og sumir
engan og klykkir út með þessu:
Ef satt skal segja hef ég hvergi nokkurs staðar séð jafn fáa handleggi og einmitt
í þessari borg. En svona er ég. Ég er alltaf að slá um mig með monti og merki-
legheitum og halda því fram að fólk hafi fleiri handleggi en það hefur (Lína
Langsokkur ætlar til sjós, 124).
Í stuttu máli ýkir Lína í allar áttir og getur ekki hætt þótt hún viti af því.
Enda lítur hún ekki á sannleikann sem heilaga stærð, villimaður eins og
hún hefur það sem skemmtilegra reynist og jafnvel sannara á einhvern
allt annan hátt en hefðbundið er. Því að þótt lesandi efist kannski um
fjölda einhentra og óhentra í téðri borg þá fær hann óskaplega sanna
mynd af Línu og orðræðuaðferð hennar. Í heimi þar sem lygar barna
þóttu stórsynd var hins vegar ekki skrýtið að viðtökur gagnrýnenda og
lesenda Línu væru blendnar, þarna var hetja sem hikaði ekki við að ljúga
og ýkja daginn út og inn – og það var hreint ekkert mál!
En mitt í öllum ýkjunum á Lína það til að sýna merkilega skarp-
skyggni – t.d. þegar hún refsar herra Rósinkrans fyrir að fara illa með
dýrin sín. Þetta gerist í skólaferð sem Lína hefur fengið að fljóta með í.
Hún kastar honum upp í loft og brýtur svipuna hans en ber hestana
hans heim og dregur kerruna hans líka. Kennslukonan er ánægð með
hana og segir: „Til þess erum við hingað komin, að vera góð og vin-
gjarnleg við annað fólk.“ Lína svarar um hæl: „Haha. Til hvers hefur þá
annað fólk komið hingað?“ (Lína Langsokkur ætlar til sjós, 149)