Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Page 59
TMM 2008 · 1 59
S v o n a e r b l e s s u ð á s t i n
þeirra í þeim efnum. En raunar var tilgangurinn allt eins að veita honum
færi á að sjá Sólrúnu, sem – eins og áður er sagt – var mjög lagleg, og
eins og Þórbergur sagði á eftir, „koketteraði með öllum líkamanum“.
Hann brann líka allur í skinninu, þegar hann sagði mér frá þessu dag-
inn eftir.
Brátt kom hann svo með Sólrúnu heim til okkar, því ég átti að sjá
hvernig henni litist á hann. Ekki man ég nú hvað mér sýndist þá, en áður
en langt leið mátti ekki greina hvort þeirra var ástfangnara. Og enn í dag
finnst mér þau áfjáðustu elskendur sem ég hef þekkt.
Ýmsar hindranir voru samt á leið þeirra. Fyrst og fremst sú að Sólrún
var þá trúlofuð öðrum manni. Hann hét Steindór Pálsson og var sjó-
maður. – Systkini hans voru Guðni Pálsson prentari og togaraskipstjóri
og Gíslína „spákona“, sem nú býr með Jakobi Guðmundssyni. Munu
margir kannast við þau.
Önnur hindrun var að þær mæðgur voru aðventistar. Steindór var að
vísu ekki í söfnuðinum, en hafði heitið að ganga í hann þegar hann væri
kvæntur Sólrúnu, og gerðu þær sig ánægðar með það. En af Þórbergi fór
trúleysisorð, eða það sem ekki var betra, villutrúarorð. Hann hafði líka
sýnt sig í að vera ekki alveg „á línunni“ þegar hann var heima hjá þeim
með Tryggva, og grunaði þá ekki að síðar yrði hvert léttúðarorð hans
dregið fram honum til dómsáfellis.
Í þriðja lagi var Þórbergur bláfátækur, og hafði þá lélega og stopula
atvinnu, og alls ekki af því tagi sem Guðbjörg kallaði vinnu. En Steindór
var boldangssjómaður og hafði víst sæmilegar tekjur, eftir því sem þá
gerðist. Var og allt hans æði Guðbjörgu meira að skapi.
Þessu var samt ekki haldið mjög á lofti heldur snerist brátt allt um trú
eða trúleysi Þórbergs. Þá bjó O.J. Olsen leiðtogi aðventista í Hafnarfirði,
og var nú leitað til hans að kippa þessu í lag. Hann talaði við Sólrúnu, og
hann talaði við Þórberg, og gekk svo um tíma að árangur var enginn.
Eitt sinn fékk Þórbergur Hallbjörn með sér til Olsens. Á eftir lét Olsen
sem hann hefði síður skipt sér af þessu máli ef það væri Hallbjörn sem
Sólrún elskaði.
Á meðan stóð í þessu stappi reyndu elskendurnir að hittast þegar færi
gafst. „Hvíldardag“ einn stalst Sólrún til Þórbergs og hitti svo á að hann
var í bólinu. Hann hafði þá þann sið að hátta um miðja daga ef honum
sýndist svo, og máske hefur blessuð ástin lagt hann í rúmið í þetta sinn
því ekki átti hann von á sinni elskuðu. Hún settist hjá Þórbergi, og áður
en langt leið tók hún Biblíuna og hóf að boða honum rétta trú.
Allt í einu var hurðinni hrundið upp og Guðbjörg snaraðist inn
heldur gustmikil. Sólrún hentist á dyr – og heim til mín – en Guðbjörg