Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Síða 64
64 TMM 2008 · 1
K r i s t í n G u ð m u n d a r d ó t t i r
hann kvæntist, svo Salóme teldi að það væri henni að kenna. Við þetta
varð Margrét æf. Ekki af því að Salóme kenndi henni um þetta, heldur
af því að hún taldi að þau hefðu efni til að greiða barnsmeðlag. Um þetta
reifst hún lengi bæði hátt og heimskt, en ég þagði og reyndi að festa mér
í minni það sem ég vildi svara. En þegar hún sagði að Þórbergur hefði
ekki treyst sér til að eiga Sólrúnu vegna þess að hún væri svo illa lynt,
hætti ég við að segja meira, því mér fannst fara vel á því að þessi kona,
sem helst var að heyra að Þórbergur hefði valið sér vegna geðprýði
hennar, fengi að hafa síðasta orðið á þennan hátt.
Þó að Þórbergur vissi vel að ég var kunnug þessum málum kom hann
rétt eftir heimsókn frú Margrétar og sagði mér með næstum sömu
orðum og hún viðhafði að Salóme væri mjög reið við hana vegna þess að
hún væri gift honum. Mér var víst ætlað að trúa þessum boðskap heldur
af því að Þórbergur flutti hann. En til þess var markið of glöggt.
Í þetta sinn var greinilega illt í meistaranum, þó að hann reyndi að
láta ekki bera á því, og mér datt þá í hug að honum hefði verið sagt að
ég ætti upptökin að samtali okkar frú Margrétar um barneign hans. En
þó að þessi illska væri nokkuð lengi í honum vildi ég samt ekki spyrja
hann neins.
Mörgum árum síðar, þegar Guðbjörg var fulltíða kona og gift Ívari
Jónssyni frá Skálmarnesmúla, fór hún til Þórbergs og spurði hann um
faðerni sitt. Hann tók henni vel og lét sem hún gæti verið sín dóttir. Þá
kom hann til mín til að ræða um þessa gömlu atburði. Hann spurði þá
hvort ég héldi að hann væri faðir Guðbjargar. Ég sagði að frá því að ég
sá hana nýfædda hefði ég verið viss um að hann ætti hana. „Já, og þú
fórst að segja Margréti frá þessu,“ sagði hann þá. Ég hafði ekki skap til
að þegja við því en sagði eins og var, og að mig hefði alltaf grunað að
hann héldi þetta. Hann varð hálfvandræðalegur en hefur líklega trúað
mér, því skömmu eftir að hann fór héðan hringdi frú Margrét og bað
afsökunar á þessari frásögn sinni sem hún sagði að hefði stafað af mis-
minni! Ég var víst sein til svars því hún endurtók að sig hefði misminnt
þetta. Ég sagði: Ég heyri hvað þér segið. Lengra varð það samtal
ekki.
Eftir þetta reið hún húsum hér í tíma og ótíma. Stundum var „erindi“
hennar að gefa mér kaffimiða – en þar var ég veik fyrir, því mér dugði
ekki kaffiskammtur okkar! – Sjálfsagt hefur henni fundist ég launa
þetta illa, því ég hafði aldrei neitt misjafnt að segja um Sólrúnu. Þó
hættu þessar gjafir ekki af þverrandi örlæti hennar heldur af því að ég
afþakkaði þær.
Vesalings Margrét gat ekki varist gráti þegar hún hugsaði um að