Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Page 65
TMM 2008 · 1 65
S v o n a e r b l e s s u ð á s t i n
Þórbergur hefði lagt sig niður við svo ómerkilega kvensnift sem Sól-
rúnu, og spurði hvort ég héldi að hann hefði nokkurntíma elskað hana.
Ég sagði sem var um það.
Stundum gerði hún samanburð á sér og Sólrúnu – og reyndar flestu
því fólki sem Þórbergur hafði verið með áður en hún kom til sögunnar,
og hún samnefndi „ykkur“ þegar hún talaði yfir mér. Þá kom í ljós að
lítið hafði kveðið að því sem hann skrifaði áður en hann kynntist henni,
en sem betur fór kom andinn þá yfir hann.
Þá spurði hún hvernig ég héldi að það hefði verið fyrir Þórberg að eiga
konu sem kynni ekki að umgangast menntaða menn. Ég vona að henni
hafi skilist að ég var of menntunarsnauð til að geta svarað því.
Hún sagði að ráðdeild sín hefði bjargað Þórbergi úr eymd og ráðleysi.
Þegar ég svaraði engu bætti hún því við að ég vissi vel að þetta væri satt,
þó ég vildi ekki viðurkenna það. Ég sagðist trúa því sem hún segði um
þetta, en að ég efaðist um að Þórbergur hefði lent í klandri fyrir húsnæð-
isokur ef Sólrún hefði verið kona hans.
Í eitt skiptið hryllti hana alla upp af að hugsa til þess að Þórbergur
hefði fengið Svan Steindórsson fyrir stjúpson ef hann hefði kvænst Sól-
rúnu. Ekki hefur hún þá verið óánægð með stjúpsoninn sem hún færði
honum.
En eins og viðlag í öllu þessu ragi frú Margrétar var spurningin hvort
Sólrún hefði sagt mér að Þórbergur væri faðir Guðbjargar. Hún reyndi
með margvíslegu móti að fá mig til að segja sér það. Einu sinni kom hún
snemma morguns með tvær portvínsflöskur og bað um tæki til að opna
aðra. Hina kvaðst hún ætla að gefa! Þegar ég vildi ekki nema þykjast
drekka með henni spurði hún ómjúklega hvort ég héldi að hún tímdi
ekki að gefa mér þetta. Ég sagðist hugsa að henni líkaði því betur sem ég
drykki meira.
Svo birtist Þórbergur einn dag, og við tókum mikið tal. Hann sagði
mér af Guðbjörgu sem hann var mjög hrifinn af, og sagði hann að sér
þætti vænt um að hún hefði komið til sín, því sér hefði oft liðið illa
vegna þess að svo fór sem fór áður fyrr. Ég hlustaði á þetta mjög alvarleg
og samúðarfull, en það rann skyndilega af mér þegar hann spurði allt í
einu: Sagði Sólrún þér nokkurntíma að ég ætti hana? Ég sagði að þetta
þýddi ekkert, kona hans væri búin að fullreyna að draga þetta upp úr
mér. Hann gerði sig þá „heiðarlegan í andliti“ – svo að notað sé orðtak
hans – og sagði að „eins og guð er uppi yfir mér“ þá veit hún ekki að ég
spyr þig um þetta, og ég segi engum það sem þú segir mér. Ég sagði að
það yrði auðvelt, því ég segði honum ekkert. En þó að hann spyrði mig
um þetta var ég viss um að hann taldi Guðbjörgu dóttur sína.