Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Síða 66
66 TMM 2008 · 1
K r i s t í n G u ð m u n d a r d ó t t i r
Nokkrum dögum síðar hringdi hann hingað og sagði mér að ég yrði
kölluð fyrir rétt til að vitna í faðernismáli Guðbjargar, „og nú verður þú
að segja það sem þú veist.“ Ég svaraði illu til.
Síðar þennan sama dag kom frú Margrét, ákaflega uppveðruð. Hún
sagði meðal annars: „Það verður gaman að sjá framburð yðar.“ Ég spurði
hvernig hún ætlaði að fara að því, en hún sagði með sigurbros á vör, að
auðvitað léti hann Logi sig sjá allt sem snerti þetta mál. „Annaðhvort
væri.“
Ég hafði hugsað mér að segja ekki of mikið í yfirheyrslunni, og sú
ákvörðun breyttist ekki við komu frú Margrétar.
Þetta fór svo að ég svaraði því sem ég var spurð, nema því hvort Sól-
rún hefði sagt mér að Þórbergur væri faðir Guðbjargar. Því neitaði ég að
svara nema Sólrún óskaði þess. Áminning beit ekki á þverúð mína. Og
þegar ég var spurð hvort Þórbergur hefði nokkurntíma sagt mér að þau
Sólrún hefðu samfarir, svaraði ég með því að spyrja hvort sæmilega sið-
aðir menn þegðu ekki um slíkt. Mér fannst frú Margrét þá vera farin að
spyrja mig. Þessi síðasta spurning var ekki bókuð. Logi Einarsson sagði
að lítið gagn væri að framburði mínum. Það hryggði mig ekki.
Þarna hitti ég Salóme sem líka var stefnt þangað til að vitna. Við
fórum svo heim til hennar og ræddum um allan þennan bægslagang
sem við – með réttu eða röngu – kenndum frú Margréti. Við álitum að
– auk þess að láta bera á sér – væri henni ósárt að Sólrún hefði skapraun
af þessu snagi í gömlum atburðum sem hún vildi helst að gleymdust.
Þegar Guðbjörg fór til Þórbergs í fyrsta sinn lá við að frú Margrét
trylltist. Um leið og hún sá Guðbjörgu jós hún úr sér mikilli illyrða-
stroku, aðallega um Sólrúnu. Loks gat Guðbjörg látið heyra til sín og
sagðist ekki vera komin til að ræða um móður sína, en hún ætti erindi
við Þórberg. Hann fór þá með hana inn í herbergi sitt og lokaði hurð-
inni. Þetta var seint um kvöld, og þegar hún fór fylgdi Þórbergur henni.
Þegar þau komu út á götuna var frú Margrét komin með höfuðið út
um glugga – þau búa á fjórðu hæð – og öskraði ókvæðisorð á eftir
þeim.
Síðar tókst góðviljaðri konu – frú Jóhönnu Árnadóttur – sem þekkti
alla málsaðila, að setja niður mesta ofsann í henni og telja hana á að taka
þessu mannlega. Og eftir það sótti frú Margrét smám saman í sig vel-
vildarveðrið og tók að heimsækja Guðbjörgu. Þar með komst hún í færi
til að hnýsast í margt er snerti Sólrúnu. Þeim mæðgum hafði ekki samið
vel – eins og stundum verður – og þrátt fyrir viðtökur Margrétar áður
var Guðbjörg ekki nægilega hyggin til að vara sig á þessu eða skilja til-
ganginn með blíðskapnum.