Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Síða 67
TMM 2008 · 1 67
S v o n a e r b l e s s u ð á s t i n
Og enn átti hún erindi hingað. Nú til þess að fræða mig og „leiðrétta“
það sem ég hafði sagt, eða ekki sagt, um Sólrúnu.
Einu sinni kom hún mjög roggin og sagði að nú væri búið að bæta
Guðbjörgu það sem „þér segið“ að Þórbergur hafi vanrækt að greiða
með henni áður fyrr. Ég spurði hvernig það væri gert. Hún sagðist hafa
fært henni tvöþúsund krónur. Ég spurði enn hvort hún héldi að þessir
peningar sem Guðbjörg hefði nú enga þörf fyrir gætu bætt það sem
vangert var þegar þær höfðu brýna þörf fyrir þá. Hún horfði á mig alveg
grallaralaus.
Ég vissi að Guðbjörg kærði sig ekki um að fá þessa peninga, en hún
tók við þeim til að spilla ekki samkomulagi við þau.
Fljótt eftir að friður var saminn tóku þau Margrét og Þórbergur að
steðja með Guðbjörgu til ættingja sinna og kunningja og kynna hana
sem dóttur Þórbergs. Hjá Erlu og Ólafi Geirssyni lækni á Vífilsstöðum
lét hún þau hafa sig til að skrifa sig Þórbergsdóttur í gestabók þeirra.
Þórbergur varð sífellt hrifnari af henni, þótti hún góð og „vel greind“.
Á meðan þetta blíðalogn stóð mjakaðist faðernismálið áfram. Blóð-
rannsókn gerð á Guðbjörgu og Þórbergi sannaði ekki né afsannaði
skyldleika þeirra. Ég veit ekki hvort Sólrún lét rannsaka blóð sitt, en hún
vildi helst ekki koma nálægt þessu. Niðurstaða þessa máls var sú að
ósannað væri að Guðbjörg væri Þórbergsdóttir.
Ekki man ég hvort málinu var lokið þegar þau Margrét og Þórbergur
fóru til útlanda, en ég hygg að þau hafi þá vitað um árangur blóðrann-
sóknanna. Þá var samt allt í elskuvinsemd við Guðbjörgu og Ívar, og
Þórbergur bað hana að skrifa sér meðan hann væri erlendis.
Frú Margrét kom heim loftleiðis nokkrum dögum fyrr en Þórbergur
sem kom með skipi. Það var þá sem Vilmundur spurði Hallbjörn hvort
tollsvikarinn væri kominn. Menn álitu að frú Margrét léti hann ferðast
með skipi af því að þar er hægt að hafa meiri farangur en í flugvél. En
þá var févænlegt að kaupa ýmsa hluti erlendis og selja þá hér. Þeim sem
þekktu frúna þótti ekki líklegt að hún léti slíkt tækifæri ónotað.
Þegar frú Margrét kom heim skipti hún sér ekkert af Guðbjörgu en
æddi um og lýsti það lygi að hún væri dóttir Þórbergs. Þau höfðu útbreitt
það svo ötullega að ekki mátti draga af sér þegar átti að kveða það niður.
Þeim mæðgum, og þó sérstaklega Sólrúnu, valdi hún þau grófustu orð
sem höfð eru um lauslátar konur. – En frú Margrét hefur aldrei dregið
dul á að allt þessháttar er henni viðurstyggð. – Annars sagði hún að
þetta væri allt helvítinu honum Ívari að kenna, honum hefði ekki þótt
nóg að vera móðurbróðir Auðar Laxness, heldur vildi hann líka vera
tengdasonur Þórbergs.