Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Blaðsíða 74
74 TMM 2008 · 1
J ó n Yn g v i J ó h a n n s s o n
Skáldaðar ævisögur og ævisögulegar skáldsögur
En það er ekki markmið þessarar greinar að fjalla um ljóðaútgáfu ársins.
Ekki heldur um hitt að á síðasta ári var ekki mikið um alþýðleg fræðirit,
ævisögur eða rit af því tagi sem oft hafa tekið mikið rúm í umræðu um
jólabókaflóðið. Á hinn bóginn komu út á árinu nokkrar bækur sem
liggja einhversstaðar á mörkum bókmenntagreinanna ævisögu, sjálfs-
ævisögu og skáldsögu. Bók Vigdísar Grímsdóttur Bíbí, þar sem sögð er
lífssaga Bíbíar Ólafsdóttur, er dæmi um þetta. Bókin er unnin eftir
þekktri aðferð viðtalsbókanna, þar sem Bíbí hefur orðið í fyrstu per-
sónu. En þetta er engin venjuleg viðtalsbók. Vigdís er ófeimin við að
beita kunnáttu sinni sem skáldsagnahöfundur við jafnt persónusköpun
og samfélags- og umhverfislýsingar.
Önnur bók sem liggur einhversstaðar á mörkum skáldskapar og
sagnfræði er Minnisbók Sigurðar Pálssonar þar sem hann rifjar upp leið
sína til skáldskapar í París á sjöunda og áttunda áratugnum Hér er sagt
frá kynnum af bókmenntum og höfundum, spennandi námi í leikhús-
fræðum og sjálfsnámi í bókmenntum og skrifum. Minnisbókin er því
ekki hvað síst saga af lesandi manni, manni sem mótar sjálfan sig með
lestri og annarri listreynslu; tónlist, kvikmyndum og tónlist. Sú sjálfsleit
og menntun sem lýst er í bókinni stefnir öll að þessu marki og stöku
sinnum fá lesendur að sjá hvernig skáldið unga mjakast nær takmarki
sínu þegar Sigurður lýsir tilurð nokkurra ljóða sinna.
Sigurður segir af sjálfum sér sögur sem sumar eru orðnar að þjóðsög-
um, en hann afneitar raunar nokkrum slíkum líka og afhjúpar þær.
Hann lýsir líka andrúmsloftinu í París vorið 1968 og eftirköstum 68
byltingarinnar. Um þá daga hefur náttúrulega margt verið sagt, bæði af
þátttakendum og gagnrýnendum. Sigurður horfir á þessa tíma af
raunsæi sem er sjaldgæft. Hann sér þá ekki í rósrauðum bjarma, en ólíkt
t.d. Einari Má Jónssyni í Bréfi til Maríu fellur Sigurður ekki í þá gryfju
að fordæma allt sem húmbúkk og yfirborðsmennsku. Sigurður kemst í
kynni við mótmæli og aktívisma af ýmsu tagi en verður snemma gagn-
rýninn á byltingarsinna og teóríuhesta meðal stúdenta. Sjálfur velur
hann sér hugsuði til að kafa í, meðan hann rétt hnusar af öðrum. Menn
eins og Roland Barthes hafa mikil áhrif á hugsun hans, en líka leikrita-
skáld eins og Arrabal og sígildir risar eins og Dostojevskíj.
Titill bókarinnar er ekki einræður. Hún fjallar vissulega um liðna
tíma og líklega er þar ekkert skáldað í merkingunni „ósatt“, en hún
fjallar líka um minnið og hvernig það framleiðir og viðheldur minn-
ingum. Öll upprifjun á liðnum tíma er í einhverjum mæli skáldskapur,