Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Síða 76
76 TMM 2008 · 1
J ó n Yn g v i J ó h a n n s s o n
konar dagbókarfærslna þar, og ég fæ ekki betur séð en verið sé að byggja
Hversdagshöllina sjálfa um það leyti sem Þórbergur giftir sig og flytur
af Stýrimannastíg á Hallveigarstíg.
Þótt aðferð Péturs sé skáldlegri en flestra þeirra sem skrifa ævisögur
skálda sver hún sig í ættina að öðru leyti. Áhugi skrásetjarans beinist
fyrst og fremst að persónu Þórbergs og einkalífi hans. Það er nokkuð
fjallað um helstu verk Þórbergs frá þessu tímabili, en nýjungarnar eru
allar á einkasviðinu. Fátt nýstárlegt er sagt um skáldverkin og hvergi er
fjallað um það sem fyrri fræðimenn hafa sagt um Þórberg, Stefán Ein-
arsson, Sigfús Daðason, Helgi M. Sigurðsson, Ástráður Eysteinsson og
Soffía Auður Birgisdóttir svo nokkrir séu nefndir. Þrír þeir fyrstnefndu
eru að vísu nefndir í bókinni en skoðanir þeirra eru ekki til umræðu.
Þetta veikir heildarmyndina, sagan sem Pétur segir af Þórbergi hefði
orðið fróðlegri ef hann hefði borið hana saman við fyrri skrif um per-
sónu hans og verk. Það er raunar umhugsunarefni í hversu litlum mæli
íslenskar ævisögur eru vettvangur fyrir nýjungar í söguskoðun eða
bókmenntasögu. Formið býður sannarlega upp á að þar sé tekist á við
skáldverk ekki síður en einkamál. Um þetta má sjá dæmi í nýrri bók
Hjálmars Sveinssonar um Elías Mar, Nýr penni í nýju lýðveldi sem ég
geri að umtalsefni í annarri grein í þessu hefti.
Mörkunum milli endurminninga og ævisagna annars vegar og skáld-
sagna hins vegar er líka ögrað hinum megin frá, á síðasta ári komu út að
minnsta kosti þrjár skáldsögur sem á einn eða annan hátt vinna með
ævi eða minningar höfundanna þó á mjög ólíkan hátt sé.
Í skáldsögum sínum hefur Einar Már Guðmundsson síðasta áratug-
inn eða svo rannsakað samspil veruleika og skáldskapar á margvíslegan
hátt. Sjálfur hefur hann oft bent á þann ávana Íslendinga að lesa skáld-
sögur með símaskrána við höndina til að geta flett upp á fyrirmyndum.
(Ætli sé ekki orðið einfaldara að nota google og Íslendingabók til þess
núorðið?) Þessi „íslenski lesháttur“ sem Sigfús Daðason kallaði svo hefur
löngum þótt heldur ómerkilegur í bókmenntaheiminum, en snilld-
arbragð Einars Más í skáldsögum eins og Fótsporum á himnum, Draum-
um á jörðu og Nafnlausum vegum fólst í því að taka hann á orðinu,
skrifa sögur af sínu fólki undir formerkjum skáldskaparins án þess að
draga nokkra dul á hverjar fyrirmyndirnar væru. Í skáldsögunum
þremur og sagnaþáttasafninu Kannski er pósturinn svangur leikur hann
á ýmsan hátt með samfléttun minninga, heimilda og skáldskapar, en
þótt söguhetjurnar eigi sér allar fyrirmyndir er ekki þar með sagt að allt
sé þar sannleikanum samkvæmt.
Frásagnaraðferð þessara sagna er á hinn bóginn langt frá þeim sagna-