Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Qupperneq 79
TMM 2008 · 1 79
Í f r á s ö g u r fæ r a n d i
Stefánsson. Hún er líka gott dæmi um þetta einkenni á nýlegum íslensk-
um skáldsögum, þar segir á einum stað:
En til hvers að segja þér þessar sögur?
Hvaða ógnaröfl, önnur en örvæntingin, þeyta okkur yfir hið ónefnanlega til þess
að segja þér sögur af slokknuðum lífum?
Orðin okkar eru ráðvilltar björgunarsveitir með ónýt landakort og fuglasöng í
stað áttavita. Ráðvilltar og rammlega villtar, en þær eiga samt að bjarga heiminum,
bjarga slokknuðum lífum, bjarga þér og svo vonandi okkur líka. En bíðum með frek-
ari vangaveltur og þungar spurningar því nú skulum við halda aftur inn í nóttina
og óveðrið, leita strákinn uppi og reyna að bjarga honum í tíma undan svefni og
dauða. (Bls. 97–8)
Örvænting, hið ónefnanlega, dauðinn og Lífið með stórum staf eru hlut-
ir sem ræddir eru óhikað í sögu Jóns Kalmans og það á við um fleiri
skáldsögur ársins.
Jón Kalman heldur svipaðri frásagnaraðferð og í síðustu bók, verð-
launabókinni Sumarljós og svo kemur nóttin. Sagt er frá í 1. persónu
fleirtölu og þessi „við“ sem hafa orðið eru löngu látnir íbúar Plássins
sem eigra um eftir dauðann og komast hvergi. Sögudraugarnir rifja upp
gamla tíma og velta fyrir sér aðstæðum fólks sem býr í nánu samneyti
við hafið og óblíð náttúruöfl. Þetta er vandmeðfarið efni og stutt í klisj-
urnar en Jón Kalman dansar þann línudans af ótrúlegri fimi, tekst að
magna upp tilfinningu án þess að missa jafnvægið.
Á síðasta ári var Aðventa Gunnars Gunnarssonar endurútgefin með
formála Jóns Kalmans og hann hefur raunar aldrei farið leynt með
aðdáun sína á þeirri bók. Það má auðveldlega lesa vísanir til Aðventu út
úr einum af magnaðri köflum Himnaríkis og helvítis þar sem lýst er
göngu aðalsöguhetjunnar í vetrarbyl yfir vestfirsk fjöll. En hliðstæðum
við verk Gunnars Gunnarssonar lýkur ekki þar. Rétt eins og Gunnar í
mörgum skáldsögum sínum gerir Jón Kalman hér tilraun til að fjalla í
skáldsögu um líf og dauða, tilgang og efa. Þá er ótalinn sá þráður sög-
unnar sem er hvað merkastur en það er þáttur skáldskaparins.
Í fyrri hluta sögunnar er lýst vináttu tveggja manna sem sækja sjó á
sexæringi. Þessir tveir eru nokkuð sér á parti í samfélagi sjómannanna,
vinátta þeirra er heit og sterk og þeir eiga sameiginlegan drauminn um
betra líf og ást á skáldskap. Lýst er aðdraganda róðurs eftir langa land-
legu vegna veðurs og þessi róður verður örlagaríkur fyrir vinina tvo,
Bárð og þann sem einungis er kallaður „strákurinn“.
Áður en haldið er í róðurinn er Bárður svo upptekinn við að leggja á
minnið línur úr Paradísarheimtarþýðingu Jóns Þorlákssonar að hann