Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Qupperneq 81
TMM 2008 · 1 81
Í f r á s ö g u r fæ r a n d i
þiggjandi og mesta athygli vekja konseptlistaverk hennar sem eru langt
á undan sinni samtíð.
Breytingin á frásagnaraðferð endurspeglar þróun Karitasar. Í þessari
nýju bók hefur hún tekið líf sitt í eigin hendur og vekur töluverða athygli
sem listamaður. Sagan hefst þar sem hún starfar sem teiknikennari á
Eyrarbakka, fylgir henni svo til Reykjavíkur, Parísar, aftur til Reykjavík-
ur, New York, Rómar og loks út í íslenska sveit og á æskuslóðirnar vest-
ur á Ísafirði. Þetta er mikil skáldsaga og mikil örlagasaga. Karitas þarf
sífellt að berjast fyrir sjálfstæði sínu sem kona og sem listamaður. Við
sögu hennar koma ótal persónur, börn og barnabörn, systkini, elskhug-
ar og eiginmaðurinn Sigmar sem skýtur upp kollinum reglulega. Hann
er með ríkustu mönnum landsins en stolt Karitasar kemur í veg fyrir að
hún noti sér það ríkidæmi til að auðvelda sér lífsbaráttuna.
Óreiða á striga er fyrst og fremst mikil atburðasaga sem gefur lesand-
anum færi á að lifa sig inn í stórbrotnar persónur og mikil átök þeirra á
milli. Persónur sögunnar eru allar stórar í sniðum, bæði í kostum sínum
og göllum og átökin á milli þeirra sömuleiðis. Hér er systkinarígur, morð,
sjálfsmorð, kynferðisleg misnotkun, framhjáhald að ógleymdri kynjabar-
áttunni sem liggur eins og rauður þráður í gegnum söguna alla. Persóna
Karitasar er auðvitað burðarásinn í sögunni og hún stendur algerlega
undir þeim tæplega þúsund síðum sem Kristín Marja hefur helgað henni.
Aðrar persónur eru nokkuð einfaldari í sniðum og jafnvel keimlíkar.
Langflestir karlmennirnir í sögunni eru t.d. svo kynþokkafullir að allt
kvenkyns liggur flatt í kílómetraradíus þegar þeir mæta á sviðið. Þetta
jaðrar stundum við öfgar og kemur niður á trúverðugleika persónanna.
Nýliðinn Valur Gunnarsson gefur eldri höfundum ekkert eftir þegar
kemur að dramatík og tilfinningalegu hlæði. Konungur Norðursins, af
ævintýrum Ilkka Hampurilainen I er hvorki meira né minna en endur-
túlkun á uppruna norrænna goðsagna hrærð saman við ofurtýpíska
frásögn af þunglyndum og drykkfelldum finnskum karlmanni sem er
eins og hann hafi stokkið út úr Kaurismakimynd eða skáldsögu eftir
Arto Paasilinna. Þótt það liggi alls ekki í augum uppi lengi vel þá tengj-
ast þessar sögur nánum böndum og örlög Ilkka og fornmannanna eru
nátengd. Það gerast óvæntir hlutir undir lok sögunnar, en fléttan gengur
fullkomlega upp þótt maður efist kannski um að það sé mögulegt á
tímabili. Þessi skáldsaga er metnaðarfull frumraun. Hún er furðulegur
kokteill, það má sjá hér áhrif úr ólíkum áttum, allt frá módernistum eins
og Svövu Jakobsdóttur yfir í fantasíuhöfunda eins og Philip Pullman.
Og sagan virkar algerlega í stórum dráttum, þótt finna megi að ýmsu í
stíl og áherslum eins og fara gerir um byrjendaverk.