Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Síða 84
84 TMM 2008 · 1
J ó n Yn g v i J ó h a n n s s o n
Það eru tíu ár síðan fyrsta glæpasaga Arnaldar Indriðasonar kom út.
Á þessum tíu árum hefur komið fram á sjónarsviðið álitlegur hópur
glæpasagnahöfunda og á hverju ári eru gefnar út fjölmargar vel fram-
bærilegar íslenskar glæpasögur. Það er þannig alveg komin ástæða til
þess að tala um „íslenska glæpasagnahefð“.
En hefð er margrætt hugtak og ber í sér hugmynd um stöðnun. Og
það var fátt sem kom á óvart í þeim glæpasögum ársins sem mest bar á.
Dauði trúðsins eftir Árna Þórarinsson, Aska Yrsu Sigurðardóttur og
Englar dauðans eftir Þráin Bertelsson geta ásamt Harðskafa Arnaldar
Indriðasonar staðið sem fulltrúar þeirrar hefðar sem hér hefur verið
minnst á, fátt kemur á óvart í þessum bókum, ég dæmdi sumar þeirra
nokkuð hart fyrir jólin og mun ekki endurtaka það hér.
Ég hef grun um – og raunar styður reynslan þennan grun – að stór
hluti íslenskra lesenda bíði fyrst og fremst eftir einni bók ár hvert, hinni
árlegu glæpasögu Arnaldar Indriðasonar. Ég held líka að nokkuð stór
hluti aðdáenda Arnaldar hafi ansi mótaðar skoðanir á því hvernig
bækur hans eigi að vera og þær sem ekki fjalla um Erlend lögreglufor-
ingja og aðstoðarfólk hans og aðstandendur verða þessum hópi oftar en
ekki vonbrigði.
En í haust gátu tryggir aðdáendur Erlendar tekið gleði sína. Í Harð-
skafa birtist Erlendur í aðalhlutverki einu sinni enn. Raunar er hann í
enn meira aðalhlutverki en venjulega, hann er því sem næst einn á svið-
inu og aðstoðarfólkið vart sjáanlegt. Hann er meira utangarðs en áður,
fer sínar eigin leiðir, jafnvel á svig við reglugerðir og venjur embættisins
sem hann gegnir. Helsti gallinn við bókina er raunar sá að sjálf gátan
sem lesendur glíma við með Erlendi er býsna fyrirsjáanleg. Hún er ekki
beinlínis einföld en lesendur fá það miklar upplýsingar snemma í sög-
unni að þeir geta séð málalokin fyrir í stórum dráttum.
Annars skiptir rannsókn glæpa sífellt minna máli í verkum Arnaldar
og meiri áhersla er lögð á persónusköpun. Arnaldur verður líka sífellt
leiknari í ýmsum brögðum frásagnarlistarinnar, bækurnar eru að verða
„skáldsögulegri“ ef þannig má taka til orða, hið táknræna og óræða fær
meira pláss á kostnað ráðgátunnar. Gott dæmi um þetta eru tengslin á
milli þeirra dauðdaga sem Erlendur rannsakar í Harðskafa og reynslu
hans sjálfs sem barns þegar hann týndist á heiðum uppi ásamt bróður
sínum og varð næstum úti. Þessari reynslu er lýst betur í Harðskafa en
nokkru sinni áður í bókunum um Erlend, kuldinn og snertingin við
dauðann sem hann þekkir sjálfur endurspeglast á áhrifamikinn hátt í
dauða fórnarlambanna í Harðskafa.
Óvæntasta og langgleðilegasta glæpasaga ársins er Kalt er annars blóð