Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Blaðsíða 88
88 TMM 2008 · 1
Kristín Bjarnadóttir
Gömul gáta
Í gömlu handriti í Þjóðarbókhlöðu, Lbs. 2397, 4to, er þessa gátu að
finna:
Vinnumaðurinn vildi fá
verkalaunin bónda hjá,
eg sá fljúga fugla þrjá,
flýtum oss að veiða þá.
Andir fyrir alin tvær,
álptin jöfn við fjórar þær.
Titlingana tíu nær,
tók ég fyrir alin í gjær.
Af fuglakyni þessu þá,
til þrjátíu álna reikna má,
þó vil eg ekki fleiri fá,
en fugl og alin standist á.
Gátunni fylgir lausn í bundnu máli og er hún birt aftast í þessari grein.
Handritið er af framhaldi bókarinnar Tölvísi, sem gefin var út 1865 og
var eftir Björn Gunnlaugsson (1788–1876). Gátan er neðanmáls í hand-
ritinu. Þar segir Björn:
Þetta dæmi stóð sem gáta í gömlu stafrófskveri, er kallaðist Gunnarskver, en
höfundur þess, Gunnar Pálsson, Skólameistari á Hólum en síðar Prófastur í
Dalasýslu kallaði það Stöfunarbarn. Þetta stafrófskver var merkilegt fyrir mér,
því móðir mín sæla, Ólöf Björnsdóttir lét mig stafa á það, þegar jeg var stöf-
unarbarn (Lbs. 2397, 4to., 1375).