Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Page 89
TMM 2008 · 1 89
G ö m u l g á t a
Í stuttu máli fjallar gátan um að finna þrjátíu fugla sem reikna má til 30
álna. Fuglarnir eru af þrennu tagi, endur, álftir og tittlingar. Verð
fuglanna er mismunandi. Öndin reiknast til hálfrar alinar, fjórar endur
jafngilda einni álft og kostar álftin þá tvær álnir, en tíu tittlingar fást
fyrir eina alin svo að hver tittlingur er virði 1/10 úr alin.
Finna skal fjölda þriggja fugla en aðeins tvennar upplýsingar eru
gefnar, heildarfjöldi fuglanna og verð hvers og eins. Allajafna ætti slíkt
dæmi að hafa óendanlegan fjölda lausna, en í dæminu leynast fleiri upp-
lýsingar. Ekki þýðir að bera fram lausn sem felur í sér brot úr fugli eða
engan fugl af einhverju tagi. Lausnirnar verða að vera þrjár heilar
jákvæðar tölur.
Björn Gunnlaugsson
Björn Gunnlaugsson var mesti stærðfræðingur á Íslandi á nítjándu öld.
Saga hans er sagan af fátæka bóndasyninum sem braust til mennta og
lauk ævi sinni hlaðinn virðingartáknum; hann varð riddari af Danne-
brog og dönsku heiðursfylkingunni. Aldrei komst hann þó í lærðan
skóla. Þegar hann reyndi fyrst fyrir sér um skólavist veturinn 1804–1805
var enginn skóli í landinu. Hólavallarskóla hafði verið lokað og Bessa-
staðaskóli var ekki stofnaður. Síðar kom umsókn hans of seint og að
lokum var hann orðinn of gamall. Björn lauk stúdentsprófi hjá Geir
biskupi Vídalín árið 1808 og hlaut mikið lof fyrir kunnáttu sína í stærð-
fræðilegum efnum.
Ekki lá þó enn fyrir Birni að halda strax áfram námi. Til Kaup-
mannahafnar komst hann árið 1817 og var þá orðinn of seinn til að hefja
nám við háskólann þá um haustið. Á meðan hann beið stytti hann sér
stundir við að leysa verðlaunaþraut og hlaut fyrir lausnina gullverðlaun
háskólans.
Árið 1822 gerðist hann kennari í stærðfræði við Bessastaðaskóla.
Hann starfaði við Lærða skólann næstu fjóra áratugi uns hann lét af
störfum árið 1862, 74 ára að aldri. Auk kennslunnar hafði Björn unnið
það þrekvirki að mæla upp Ísland á 12 sumrum, árin 1831–1843, að
sumrinu 1836 frátöldu. Kortið, sem gert var eftir mælingum hans, var
grunnur að Íslandskortum fram á tuttugustu öld.
Að lokinni langri starfsævi reit Björn Gunnlaugsson bókina Tölvísi,
allmikið rit, sem Hið íslenska bókmenntafélag kostaði og gaf út. Bók-
inni lýkur í miðjum kafla um keðjubrot eftir 25 prentaðar arkir, alls 400
blaðsíður. Vafalaust hefur ætlunin verið að halda útgáfunni áfram en úr