Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Qupperneq 110
110 TMM 2008 · 1
L e i k l i s t
settu upp sínar hefðbundnu, stóru barnasýningar og var hægt að gleðjast yfir
þeim báðum. Að vísu áttu Skilaboðaskjóða Þjóðleikhússins og Gosi LR það
sameiginlegt að vera dálítið „Disney-vædd.“ Skilaboðaskjóðan er þó mun
kjötmeira stykki en Gosi og liggur þar allmikill munur í tónlistinni, sem var
furðubragðdauf í Gosa, en lögin úr Skilaboðaskjóðunni eru til þess fallin að
vera stöðugt rifjuð upp í gegnum gjörvalla barnæskuna. Það voru líka gleðitíð-
indi fyrir æskulýðinn að Þjóðleikhúsið skyldi helga nýtt svið algjörlega barna-
sýningum. Fyrsta sýningin í Kúlunni, Góða nótt, er einkar hugljúf; prýðileg
leið til þess að kynna leikhúsgaldur fyrir ungu fólki, þó að ekki sé á það að
treysta að söguþráðurinn haldi öllum í fjölskyldunni yfir sig spenntum. Af
barnaleikritum sjálfstæðu leikhópanna verður að nefna Abbababb Dr. Gunna,
sem Á senunni setti upp í Hafnarfirði – en því miður er sú sýning á listanum
yfir þær sem undirrituð iðrast þess beisklega að hafa misst af.
Fjöldi góðra gesta sótti landið heim í ár og er tilefni til þess að gleðjast yfir
því að erlendir listamenn sjái ástæðu til þess að færa Reykvíkingum glaðninga
yfir hafið. Sá gestur sem flestir landsmenn brostu við árið 2007 var eflaust ris-
essan geðþekka sem Royal De Luxe leikhópurinn færði á Listahátíð. Veglegt og
skemmtilegt verkefni sem bæði Listahátíð og Royal De Luxe mega vera stolt af.
Reykjavík iðaði af lífi í sumar og það var gaman að spássera um miðbæinn í leit
að ummerkjum eftir risann geðvonda. Raunar var sérstaklega gleðilegt hvað
leikhúsviðburðir áttu stóran sess á Listahátíð 2007.
Árinu lauk með jólasýningum stóru leikhúsanna tveggja eins og vera ber.
Jólahátíðinni var fagnað með krossfestingu í Borgarleikhúsinu, í bland við
boðskap sem einhverjir gætu kallað guðlast. Það er eflaust einhver yfirlýsing
fólgin í þessu, þó að ekki sé algjörlega ljóst hver hún er. Fyrir utan góða tónlist
er það sem hefur laðað fólk að Jesus Christ Superstar í gegnum tíðina að þar er
boðið upp á nýja túlkun á sögu sem allir þekkja. Þegar Þjóðkirkjan talar um
mikilvægi þess að grunnskólabörn skilji það kristilega samfélag sem þau eru
sprottin úr, meinar hún að þau geti horft á Jesus Christ Superstar á tveimur
plönum. Vandinn við þessa uppfærslu var sá að það var eiginlega vitavonlaust
að hafa samúð með Jesúsi eða Júdasi. Biblíukunnáttan gat haldið áhorfendum
á floti þannig að þeir báru kennsl á helstu atburði, en tvíræðnin týndist algjör-
lega í uppfærslunni. Rokkið var samt flott!
Ívanov í Þjóðleikhúsinu fékk með ólíkindum blendin viðbrögð. Annaðhvort
var fólk rasandi yfir því hvað þetta væri leiðinleg og asnaleg sýning, eða það
taldi sýninguna tímamót í íslenskri leiklistarsögu, djúpan sannleik í bland við
stórkostlegt skop. Þrátt fyrir nokkrar tilraunir hefur undirritaðri ekki tekist að
draga neina línu í sandinn um það hvað það er sem skiptir áhorfendum í þessi
tvö horn. Sú sem hér stýrir penna var heldur í fyrri hópnum – hló ekki að
bröndurunum og lét sér stundum leiðast meðan barlómurinn á sviðinu var
sem mestur. Samt er það einhvern veginn svo að gallagripurinn Ívanov situr í
manni og það er tilhlökkunarefni að sjá Brúðgumann, kvikmyndina sem sami
hópur hefur unnið upp úr verkinu.
Erfitt er að ljúka yfirlitsgrein á borð við þessa án þess að nefna þær deilur