Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Page 111
TMM 2008 · 1 111
L e i k l i s t
sem kviknuðu undir árslok um gagnrýni. Þær hófust í kjölfar þess að Borgar-
leikhússtjóri varpaði einum gagnrýnanda út í ystu myrkur – þ.e. af frumsýn-
ingarboðslistanum. Nú má liggja milli hluta hversu smekkleg orð umrædds
gagnrýnanda um bæði leikhúsið og leikhússtjórann voru, engu að síður voru
viðbrögðin í besta falli hjákátleg, í versta falli skilaboð um vilja til ritskoðunar.
Í kjölfarið hófust nokkrar umræður um boðsgesti almennt og froðufelldi
margur Moggabloggarinn þegar rætt var um menningarelítuna með boðsmið-
ana. Þetta var sérkennileg umræða, sér í lagi vegna þess að það er fjöldi manns
á boðslistum leikhúsanna sem á þar minna erindi en leikhúsgagnrýnendur.
Ekkert gott getur hlotist af því að hætta að bjóða listgagnrýnendum á leiksýn-
ingar, það mun aðeins valda því að gagnrýni verður minni og þær sýningar
sem veljast til gagnrýni verða einsleitari. Jafnframt er það hvimleið hugsana-
villa að leikhúsgagnrýni sé þjónusta við leikhúsin og listamennina – gagnrýni
í dagblöðum, útvarpi og sjónvarpi er fyrst og fremst þjónusta fjölmiðla við
áhorfendur. Það er þjónusta sem leikhúsin ættu að unna gestum sínum.
Það er eflaust bæði barnalegt og gamaldags, en geðvondi gagnrýnandinn
getur ekki annað en leyft sér að hlýna um hjartaræturnar þegar hann horfir til
baka yfir árið 2007. Hann getur ekki annað en glaðst yfir því hversu margt var
í boði, hversu margt var vel gert og af hve miklum metnaði. Hann varð fyrir
vonbrigðum með fjölmargar sýningar, það má setja spurningarmerki við list-
ræna stefnu einstakra stofnana, honum þykja ýmsir listamenn ýmist van- eða
ofmetnir eftir atvikum – en eftir stendur að það er lúxus að vera listunnandi í
Reykjavík á fyrsta áratug 21. aldarinnar. Hér getur allt gerst.