Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Page 112
112 TMM 2008 · 1
B ó k m e n n t i r
Soffía Auður Birgisdóttir
Stórróman um listakonu
Kristín Marja Baldursdóttir. Óreiða á striga. Mál og menning 2007.
Saga listakonunnar Karitasar sem átti í óblíðum átökum við þær systur skyldu
og sköpunarþrá og sögð er í skáldsögu Kristínar Marju Baldursdóttur Karitas
án titils (Mál og menning 2004) vakti bæði aðdáun og samúð lesenda, jafnt
innlendra sem erlendra. Bókin var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norð-
urlandaráðs árið 2006 og hlaut mikið lof í fjölmiðlum á Norðurlöndum auk
þess sem hún hefur fengið afar góðar viðtökur í Þýskalandi. Óhætt er að segja
að margir hafi beðið spenntir eftir framhaldinu sem Kristín Marja sendi frá sér
síðastliðið haust og kallast Óreiða á striga.
Óreiða á striga er mikil bók, bæði að vöxtum og efni. Verkið telur 541 síðu
og samanlagt eru bækurnar tvær tæpar þúsund síður. Enda er verkefni höf-
undar metnaðarfullt. Kristín Marja segir hér ekki bara sögu einnar íslenskrar
listakonu heldur má segja að í bókunum bregði hún upp sögu íslenskra kvenna
á tuttugustu öld. Aðalpersónan lifir líka öldina alla, er fædd í aldarbyrjun og
deyr í aldarlok. Karlpersónur koma að sjálfsögðu einnig við sögu en það er líf
kvenfólksins sem er viðfangsefnið og konur eru ætíð í miðju frásagnarinnar.
Þetta stórvirki Kristínar Marju er mjög vel heppnað; hér er um að ræða
breiða epíska skáldsögu eins og þær gerast bestar, en um leið leikur höfundur
sér að forminu á nýstárlegan hátt, til að mynda með lýsingum á listaverkum
Karitasar. Eins og vænta má koma fjölmargar persónur við sögu og frásögnin
berst víða um heim. Sagan logar af frásagnargleði og húmor um leið og tekist
er á við alvarleg vandamál sem konur hafa þurft – og þurfa enn – að glíma við
í karlmiðjuðu samfélagi.
Þótt Óreiða á striga sé framhald af Karitas án titils hefur hvor bók sín sér-
kenni og Kristín Marja virðist meðvituð um að ljá bókunum hvorri sinn kar-
akter. Þannig breytir hún frá þriðju persónu frásögn fyrri bókarinnar til fyrstu
persónu frásagnar í síðari bókinni sem hefur mikið að segja fyrir upplifun les-
andans. Í stað þess að sjá Karitas utan frá sjáum við nú heiminn með hennar
augum og erum beintengd við tilfinningar hennar. Þetta er henni ekki alltaf í
hag, samúð lesandans getur minnkað þegar persónueinkenni sem túlka má
sem óbilgirni, eigingirni og þvermóðsku koma fram frá „fyrstu hendi“. En
aðferðin færir aðalpersónuna að sjálfsögðu nær lesandanum; við kynnumst