Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Síða 114
114 TMM 2008 · 1
B ó k m e n n t i r
stækka persónurnar og samskipti þeirra og því mætti allt eins lýsa sem svo að
karnivalið og melódramað væru þau módel sem hún tæki mið af. Hvort tveggja
er vandmeðfarið en Kristín Marja hefur góð tök á þessum frásagnarstíl og fer
beinlínis á kostum þegar hún lýsir samskiptum kvennanna. Átakamikið
kvennasambýlið tekur sinn toll af orku Karitasar um leið og það er henni inn-
blástur við listsköpunina, eða kannski væri réttara að segja að hún notaði
listina til útrásar þegar kvennafansinn lætur sem hæst. Lýsingin á verki Kari-
tasar „Skrækir“ frá 1964 hefst þannig:
Gargandi hænur á priki er síðasta myndin í röð ádeiluverka um hlutskipti kvenna
og örlög sem Karitas vann á sjöunda áratugnum. Á prikunum sem eru skökk og
skæld í lausu lofti og vísa skáhallt hvert á annað sitja hænur saman í hópum, sumar
hauslausar, aðrar með mikla brúska á hausnum sem í hanga hárrúllur. Á þeim
hauslausu hanga rúllurnar í fjöðrum vængjanna. Mikil ólga ríkir í búinu, hænurnar
gogga hver í aðra og þær hauslausu nota vængina til að berja á þeirri sem næst situr.
Sumar eru því að falli komnar. Fyrir neðan prikin er litríkur hani sem étur allt
fóðrið í makindum (348).
Hinir ýktu drættir sem Kristín Marja notar í persónulýsingum sínum og gefa
mörgum kvenpersónum hennar sterk einkenni virka reyndar ekki eins vel
þegar hún lýsir karlmönnum. Ástæðan er sú að mynd þeirra er einsleitari, hún
nostrar ekki við karllýsingar á sama hátt og hún nostrar við kvenlýsingarnar.
Þetta gerir karlmennina í lífi Karitasar að dálítið óljósum og svarthvítum
verum. Þeir eru allir ótrúlega hávaxnir, fjallmyndarlegir og hafa sterk áhrif á
konur en nokkuð skortir á dýptina í lýsingum á þeim. Síðastnefnda atriðið
teygir þá, að mínu mati, fulllangt í átt til melódramatískra ástarsagna sem
bækurnar um Karitas eiga að öðru leyti fátt sameiginlegt með. Einnig verður
að nefna að Kristín Marja fer fulllangt með persónu Bjarghildar, systur Kari-
tasar, sem í fyrri bókinni var bráðskemmtilegur kvenskörungur og frekja en er
hreinlega illa innrætt og einhliða í þeirri síðari.
Annar hluti Óreiðu á striga endar á áhrifamiklu risi, líkt og sá fyrsti. Frá-
sögnin af atburðunum sem því tengjast er með myrkari þáttum bókarinnar og
fer höfundur vel með það efni. Þriðji hlutinn gerist í Róm í upphafi áttunda
áratugarins. Þangað er Karitas komin í fylgd Hermu vinkonu sinnar og Bjarg-
hildar systur sinnar sem er í pílagrímsför og vill fá fyrirgefningu páfans fyrir
allar sínar syndir – þó ekki sé hún kaþólsk. Þær systur, sem báðar eru komnar
yfir sjötugt, upplifa borgina á mjög ólíkan máta og gefur það höfundi tilefni til
margra kómískra kafla. Karitas reynist sjálf eiga persónulegt erindi að rækja í
Róm því hún vill kynna sér ávexti af framhjáhaldi eiginmannsins sem þar búa.
Karitas hefur hvorki viljað búa með Sigmari né skilja við hann og hann aldrei
sóst eftir skilnaði, þvert á móti dúkkar hann upp með vissu millibili og óskar
eftir því að þau búi saman. Þó Karitas gefi upp þá ástæðu að hún vilji ekki skilja
við hann vegna þess að þá fái hún helming eigna hans, sem hún kæri sig ekki
um, og vilji ekki búa með honum því þá lendi hún óhjákvæmilega í þjónustu-