Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Qupperneq 120
120 TMM 2008 · 1
B ó k m e n n t i r
hlutanum, hugsunum hans og viðhorfum er lýst en hugmyndir Eddu koma
eingöngu fram í samtölum við Jón.
Í þriðja hluta er sagt frá ferðalagi Jóns og Eddu um Ísland. Jón vinnur að
myndaröð fyrir sýningu og hefur beðið Eddu að ferðast um landið með sér og
skrifa texta fyrir sýningarskrána. Hver kafli gerist á einum degi og sex þeir
fyrstu byggjast á þemum sem ákveðin höfðu verið fyrir sýninguna: ljósi,
himni, landi, tíma, sjó og aðdráttarafli. Þessi hluti bókarinnar ber yfirskriftina
„Ísland: landslag – orðalag“ og í samræmi við það eru vangaveltur um tungu-
málið og íslenska náttúru áberandi, en náttúran tekur einnig völdin í öðrum
skilningi þar sem samband Jóns og Eddu verður líkamlegt. Því er lýst í mörg-
um löngum kynlífssenum. Þótt sennilega sé ágætt að gera lýðum ljóst að mið-
aldra konur séu líka kynverur verða þessar senur nokkuð þreytandi til lengdar.
Blessunarlega eru þær þó vel skrifaðar, eins og reyndar bókin öll.
Sjónarhornið er Jóns, líkt og áður, fyrir utan að köflunum lýkur á texta eftir
Eddu um viðkomandi þema, og sá sjöundi og síðasti endar á kveðjubréfi Eddu til
Jóns eftir að hún hefur bundið enda á samband þeirra. Skrif Eddu brjóta upp
frásögnina en skapa því miður enga spennu í hana vegna þess að þau birta ekki
nýjar hliðar á Eddu heldur ítreka einungis það sem kemur fram annars staðar.
Ein af ástæðunum fyrir því að þriðji hlutinn er síðri en fyrri hlutarnir tveir er
raunar að persónusköpunin rennur eiginlega út í sandinn. Þótt örlað hafi á því
að Jón eigi til að vera óþægilega nærgöngull og hvatvís, þá er hann viðkunnan-
legur í fyrri hlutunum, þar tekst a.m.k. ágætlega að gera lesendur að þátttakend-
um í forvitni hans. En í þriðja hlutanum reynist Jón allt í einu frekur, skilnings-
sljór og óttalega pirrandi. Kannski hefur beinlínis verið ætlunin að láta lesendur
skipta um skoðun á persónu sem þeir hafa staðið nærri en þá eru umskiptin of
einföld og ekki nógu vel undirbyggð til að verða spennandi. Persónusköpun
Eddu fjarar líka út. Hún er að mörgu leyti áhugaverð persóna framan af en reyn-
ist svo óþarflega fullkomin, næstum klisja um konu sem kann að njóta lífsins frá
fyrstu tíð, og kemur sjaldan eða aldrei á óvart. Þeir kaflar fyrsta hlutans sem
hverfast um hana og textar hennar í þriðja hlutanum bjóða upp á ýmis tækifæri
til að birta fleiri víddir í persónuleika hennar en Jón sér, en þessi tækifæri eru
vannýtt. Að hluta til má lesa þroskasögu hennar út úr bókinni en sá þáttur sög-
unnar er veikur, einfaldlega vegna þess hversu einhliða persónan er.
Fjórði og síðasti hluti er stuttur eftirmáli þar sem sagt er frá framhaldinu,
þar á meðal fundi Jóns og Eddu þar sem samband þeirra er krufið en einnig er
skotið inn vangaveltum söguhöfundar um persónurnar og eðli frásagnarinnar.
Þótt þessi hluti sé að ýmsu leyti skemmtilega skrifaður hefði gjarnan mátt
sleppa megninu af honum, sérstaklega niðurlaginu, rúmlega hálfri síðu með
umfjöllun um eðli frásagnar og blekkingu „happí end“. Slíkar hugrenningar
eru ekki sérlega frumlegar og sem lokahnykkur fletja þær söguna út í staðinn
fyrir að víkka hana eins og þeim er væntanlega ætlað. Eftirbragðið verður því
síðra en efni standa til, og þar hjálpar þriðji hlutinn ekki heldur til. Síðustu
kaflarnir eru jafnvel álíka antíklímax og slappt kaffi á eftir góðum mat sem er
mikil synd því að margt í bókinni er vel heppnað.