Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Blaðsíða 121
TMM 2008 · 1 121
B ó k m e n n t i r
Það sem heppnast allra best eru glimrandi lýsingar á umhverfi og ýmiss
konar skynjun en skilningarvitin leika stórt hlutverk í sögunni, m.a. í tengslum
við allan matinn sem sagt er frá. Þótt bragðskynið komi kannski fyrst upp í
hugann í því samhengi er réttilega bent á að matur höfði til allra skynfæra
(258) og þau eru sannarlega virkjuð í lýsingum bókarinnar á mat og matargerð.
Við lesturinn rifjast upp að þótt Feimnismál séu fyrsta skáldsaga Sigrúnar
Davíðsdóttur fyrir fullorðna hefur hún skrifað ýmislegt annað, þar á meðal
matreiðslubækur. Þótt þær séu reyndar komnar nokkuð til ára sinna njóta
hæfileikar Sigrúnar til að skrifa um mat sín vel í Feimnismálum.
Sjónin er svo auðvitað aðalatriðið alls staðar þar sem fjallað er um ljósmynd-
ir og þau skrif eru oft heillandi. Tilvera ljósmyndarans Jóns byggist á sjóninni
og hún verður jafnvel milliliður fyrir hin skilningarvitin, t.d. getur sýn hans
gegnum myndavélina jafnast á við snertingu eins og í eftirminnilegri senu þar
sem teygt er á augnablikinu þegar hann sér Eddu í fyrsta skipti; gægjuhvötin
sem má lesa úr henni vekur reyndar nokkurn óróa og óþægileg hugrenninga-
tengsl geta vaknað við femínískar kenningar um konur í sjónmáli karla en það
er jafnframt nautn að lesa hana:
Hann renndi sér upp nakta öxlina, dvaldi við hálsinn og fór hægt upp í hárið en
fann svo aftur hendur hennar innan um girnilega litina. Gullin húðin strekktist yfir
hnúana sem héldu um hnífinn og þrýstu honum hægt í tómatinn: hýðið strekktist,
veitti viðnám eitt andartak áður en breitt hnífsblaðið rann inn í ávöxtinn. Hýðið
reyndist örþunnt svo glær safinn með rauðu aldinkjöti og grængulum hlaupkennd-
um fræjum flæddi út. Hann hikaði, ýtti á takkann … (32)
Sjónin kemur jafnvel í staðinn fyrir tungumál hjá Jóni; að hans mati eru orð
ekki eins máttug og myndir (sjá t.d. s. 43). Það að Jón er ekki maður orðsins er
oft undirstrikað með því að hafa orðfæri hans einfalt, jafnvel flatneskjulegt.
Eddu finnst orð hins vegar skipta öllu máli. Samhengi tungumáls og persónu-
leika, afstaða Eddu til tungumáls og möguleikarnir sem tungumál opna eða
skorður sem þau setja verða reglulega umtalsefni:
Alveg frá því hún flutti fyrst til útlanda hafði það heillað hana að lifa lífinu á öðrum
málum. Franskan hafði verið eins og glæsileg föt, en kannski einmitt ögn of glæsileg
til hvunndagsbrúks. Enskan var svo fjarska notadrjúg, þrengdi hvergi að og hún
fann alltaf eitthvað nýtt í henni. Smám saman tóku borgin og mál hennar yfir huga
hennar, líka þegar hún skrifaði sjálfri sér í dagbókinni sinni.
Ítalskan opinberaði henni líkamlega merkingu tungumálsins. (168)
Lengst af forðast Edda að tala íslensku og hún skýrir það með orðunum: „að
tala íslensku er eins og að fara aftur í föt sem ég er vaxin upp úr: of þröng. Ég
get ekki alveg verið ég sjálf.“ (160) Samt lítur hún á tungumálið sem