Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Blaðsíða 132
132 TMM 2008 · 1
B ó k m e n n t i r
f. Kr. og þekkt eru mjög gömul ævintýri frá Indlandi. Auk þess er mögulegt að
rekja ýmis ævintýraminni aftur um aldir, svo sem til Forn-Grikkja, en ekki er
alltaf hægt að fullyrða um hvers konar sögum þau hafi tilheyrt. Þau geta verið
komin úr gömlum trúarsögum, hetjusögum eða goðsögum og sá möguleiki
hlýtur að hafa verið fyrir hendi að minnin hafi getað ferðast á milli sagna og
sagnagreina án þess að gegna alls staðar sama hlutverki.
Elstu vísbendingu um tilvist ævintýra hér á landi er að finna í tveimur
sögum frá 12. öld, Sögu Ólafs Tryggvasonar eftir Odd munk og Sverris sögu
Karls ábóta, þar sem getið er um stjúpmæðrasögur. Í þeirri síðarnefndu segir
um ferð Sverris konungs til Vermalands: „… í þeirri ferð fékk hann mikið vos
og erfiði. Var því líkast sem í fornum sögum er sagt að verið hefði þá er kon-
ungabörn urðu fyrir stjúpmæðra sköpum.“ Þetta bendir vissulega til þess að
ævintýri af því tagi sem við þekkjum enn þann dag í dag hafi verið þekkt og
sögð hér frá öndverðu og Jón Árnason telur líklegt að þau séu „elst allra munn-
mælasagna hér á landi ... jafngömul landnámi og byggð landsins.“ (II, 305).
Fornaldarsögur sem farið var að festa á skinn á 13. öld eru náskyldar ævin-
týrum og mörg minni eru sameiginleg þeim og ævintýrum síðari alda, ekki síst
stjúpuminnið. Við höfum þó ekki heimildir um ævintýri sem sérstaka skráða
grein sagna hér á landi fyrr en snemma á 18. öld, þegar Árni Magnússon lét
skrifa upp nokkrar slíkar sögur. Þessi söfnun Árna hafði ekkert fordæmisgildi
og ekki voru þessi ævintýri prentuð fyrr en í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar
meira en 150 árum seinna.
Þegar samanburðarrannsóknir náðu fóstfestu sem aðalrannsóknaraðferð
þjóðsagnafræðinga í Vestur-Evrópu á fyrstu árum 20. aldar kom fljótt í ljós að
nauðsynlegt væri að skipa hlutunum niður í einhvers konar kerfi. Það varð til
þess að tilraun var gerð til að koma þjóðsögum allra landa inn í eitt sameigin-
legt flokkunarkerfi og til varð skrá sem kennd er við þjóðsagnafræðingana
Antti Aarne og Stith Thompson, The Types of the Folktale. (2. útg. endursk.
1961). Í flokkunarkerfinu er sögunum deilt niður í fimm höfuðflokka en innan
þeirra finnast samtals u.þ.b. 2500 þekktar gerðir (types) sem hver fær sitt
númer. Við hvert númer er síðan vísað til skráa og þjóðsagnasafna ýmissa
landa, hópa og svæða. Þetta kerfi hefur verið lagt til grundvallar við flokkun á
ævintýrum margra landa síðan Antti Aarne gaf út sína fyrstu skrá árið 1910.
Skrá Einars Ól. Sveinssonar, Verzeichnis isländischer Märchenvarianten, frá
1929 er gott dæmi þar um, en þar kemur fram að nokkuð margar séríslenskar
sagnagerðir er að finna sem verður að gefa ný númer.
Það er athyglisvert að Konrad Maurer og Jón Árnason safna sögum úr
munnlegri geymd sem eru sömu gerðar og Árni Magnússon skrifaði upp á
sínum tíma. Þessar sömu sagnagerðir nýtir Eiríkur Laxdal einnig meðal ann-
arra í Ólandssögu sinni sem flestir telja að hann hafi skrifað upp úr 1777. Sem
efnivið í söguna notar Eiríkur aðallega ævintýri sem hann fléttar saman af
mikilli leikni, en sækir einnig nokkuð í fornaldarsögur. Bæði Jón Árnason og
seinna Einar Ól. Sveinsson höfðu mestan áhuga á ævintýrunum sem slíkum og
litu á sögur Eiríks Laxdals sem þjóðsagnasöfn, sem væru þó ónothæf sem slík,