Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Qupperneq 134
134 TMM 2008 · 1
B ó k m e n n t i r
kafla til að tengja þættina saman og nýtir sér þá einnig ýmis minni sem þekkt
eru bæði úr ævintýrum og fornaldarsögum. Margar persónur sögunnar bera
kunnugleg nöfn, kóngsbörnin heita Sigurður og Ingibjörg, kolbíturinn Þor-
steinn, karlsdóttirin Helga og ráðgjafinn Rauður. Jafnvel þegar ráðgjafinn ber
annað nafn tekur höfundurinn fram að sumir hafi kallað hann Rauð og kemur
jafnvel fyrir að gert er grín að þessari staðalímynd ráðgjafans (bls. 194). Marg-
ar aðrar persónur taka síðan nöfn eftir útliti sínu eða persónueiginleikum.
Hinar fallegu og dyggðum prýddu kóngsdætur heita björtum nöfnum eins og
Svanlaug, Svanbjört, Hugborg, Sólborg og Sigrjóð á meðan skessurnar heita til
dæmis Harðgreip, Járnviðja, Bakrauf og Gnepja. Eins og í hefðbundnum
ævintýrum eru ekki mikil blæbrigði í persónusköpun, fólk er annað hvort vont
eða gott, en stundum kemur höfundurinn á óvart með því að láta skessu eða
hálfjötun brjóta gegn eðli sínu og koma fram af göfuglyndi og góðvild.
Sá fræðimaður sem mest hefur rannsakað ævintýrin hér á landi er Einar Ól.
Sveinsson og hann myndaði sér að sjálfsögðu skoðun á því hvað einkenndi
íslensk ævintýri:
Meðal þeirra ævintýra, sem framar öðrum sýnast hafa fengið á sig íslenskan brag, er
flokkur, þar sem orðalag er með meira móti fast, og stundum eru þar vísur. Þetta eru
kotasögur, sem lýsa yfirleitt frumstæðu lífi, og yfir þessu öllu er lítill rómantískur
ljómi. Allt er hér skýrt og greinilegt og hlutrænt, margt gróft og kámugt. Hér skipta
tröllin ekki um ham eins og í stjúpmæðrasögunum, tæla ekki með flærð og hygg-
indum; þau eru ljót og afkáraleg, heimsk og trúgjörn og oft prettuð. Þau búa hér ekki
nema góða bæjarleið frá kotinu, alveg eins og í tröllasögunum, og eru yfirleitt líkari
tröllum þjóðtrúarinnar en vant er í ævintýrum. (Um íslenzkar þjóðsögur, 228.)
Ólensku ævintýrin sem Eiríkur Laxdal segir falla alls ekki að þessari lýsingu,
þrátt fyrir að eiga sér samsvörun í mörgum séríslenskum sagnagerðum, enda
eiga þau sér skýrt sögusvið utan Íslands. Þar eru haldnar dýrindis veislur og
sögupersónurnar lifa oftast í miklu ríkidæmi. Tröllin eru alls ekki heimsk, þó
að þau séu illgjörn, því þau stunda ýmsar vísindarannsóknir sem mennirnir
hafa enn ekki vit á. Talað er frjálslega um kynferðismál og í anda upplýsingar-
innar gerir höfundurinn lítið úr yfirnáttúrlegum hlutum og útskýrir jafnvel
tæknina sem býr að baki töfrunum sem stundum er beitt. Sögurnar eiga að
gerast í heiðnum sið, en allar bestu persónurnar eru jafnframt að vakna til vit-
undar um skapara allra hluta. Kristinn hugmyndaheim má einnig greina í
áherslunni á að bestu kostir manneskjunnar séu dyggðin og lítillætið, en það á
sagan um leið sameiginlegt með þeim hefðbundnu ævintýrum sem notuð eru
sem byggingarefni í hana. Það fer ekki á milli mála að í sögunum birtast bæði
skoðanir höfundarins og ýmsar myndir sem hann sækir í sinn í eigin reynslu-
heim.
Útgefendur Ólandssögu eiga þakkir skildar fyrir það framtak að gefa út
sögur Eiríks Laxdal og gera þær þannig aðgengilegri til frekari athugunar og
rannsókna. Formáli fylgir útgáfu Ólandssögu þar sem hvorki eru tilvísanir né