Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Side 137
TMM 2008 · 1 137
B ó k m e n n t i r
anum glittir í söguvitund sem er svo ánægð með eigin sniðugheit að það jaðrar
bókstaflega við að vera fráhrindandi. Þó má kannski spyrja hvort hin sjálfs-
örugga framsetning sem einkennir bókina reynist ekki einstaka sinnum smita
örlítið út frá sér – sjálfsánægja er jú ákveðin tegund af ánægju og höfundar
reyna einmitt gjarnan að skapa slíka tilfinningu í brjósti lesanda. Svarið við
þessari spurningu er blendið, enda er lestrarupplifunin köflótt. Bókin er mis-
vond frekar en misgóð.
Þrátt fyrir friðsemdina og möntrustemninguna eru sögurnar nefnilega
stundum uppáþrengjandi, eins og farþeginn í sætinu við hliðina. Þessi tilfinn-
ing á að hluta rætur að rekja til áðurnefndra „sniðugheita“, sem oftast birtast
sem lítt dulbúnar klisjur um sérkennilegt framferði kynlegra kvista. Hitt skipt-
ir líka máli, að sögurnar eru eins og áður gat keimlíkar, svo mjög reyndar að
lesandinn fær jafnvel á tilfinninguna að verið sé að skrifa sömu söguna aftur
og aftur. Vitanlega þarf ákveðin tegund af endurtekningu ekki að vera galli,
hér er ekki gefið í skyn að tilbrigði við stef og reglubundin endurkoma í ákveð-
inn hugmyndaheim séu ekki fullgild viðfangsefni höfunda, og megi reyndar
telja einn helsta kost ýmissa merkra skálda. En í þessu tilviki er um tilbreyting-
arleysi að ræða, vitnisburð um hugmyndaskort frekar en kraftmikið ímynd-
unarafl sem kýs að rannsaka í þaula afmarkað svið.
Er sagnasafnið þá alveg á vonarvöl? Svo langt vil ég ekki ganga, og þó ég ætli
nú ekki að vinda kvæði mínu í kross er rétt að viðurkenna að einstöku bros
gerði vissulega vart við sig. Dæmi um að höfundi takist ágætlega til er fyrsta
sagan „Viltu að ég tali hærra“, fyndnasta saga bókarinnar og dæmi um hæfi-
leika Óskars til að fanga róm, takt og sérkenni lifandi samræðu. Samræðan er
að vísu einræða í þessu tilviki, mónólóg sem fer fram í skiptiklefa á líkams-
ræktarstöð og vindur fram, ef svo má að orði komast, á nokkuð löngu tímabili.
Andsvörin, viðbrögð viðmælanda birtast ekki nema óbeint. Í lipurð sinni og
einfaldleika fangar sagan ólíka hluti: breytingar í lífi þess sem mælir, sorg hans
og eftirsjá, persónuleika og sjálfhverfu, auk þess sem hún er launfyndin á allt
að því kvikindislegan hátt.
Brosið er að sumu leyti þreytubros en tengist því að maðurinn við hliðina
kann svo sem að segja frá skondnum atvikum. Hann getur sagt frá þannig að
áheyrandi hafi gaman af, getur viðhaldið ákveðinni stemningu, og einstöku
sinnum næst jafnvel að sauma saman eins konar strúktúr eða formgerð þar
sem endalokin eru annað hvort hnyttin eða varpa dálitlu ljósi á það sem áður
kom. En góðir sprettir gera alltof sjaldan vart við sig.
Ein saga sker sig úr safninu og markar sér sérstöðu sökum efnisvals og
söguúrvinnslu; það er sakamálasagan „Þú átt rétt á að þegja“, en titillinn er,
eins og flestum verður um leið ljóst, stirðbusaleg þýðing á algengum frasa úr
bandarískum lögguþáttum. Söguþráðurinn er líka hálfbrengluð þýðing úr
erlendum lögguþáttum. Maður hverfur, er álitinn myrtur, en ekkert lík finnst.
Samstarfsmaður er handtekinn grunaður um glæpinn, og réttað er yfir honum.
Þessu er lýst í grófum dráttum. Snarpur lögfræðingur og þrjóska hins grunaða
(hann neitar að tjá sig um málið: sjá sögutitil) leiða til sýknunar, enda þótt