Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Blaðsíða 139
TMM 2008 · 1 139
U m r æ ð u r
Einar Kárason
Fúlmennska í Höfða
Á dögunum var athygli mín vakin á því að í nýrri bók um Elías Mar eftir
Hjálmar Sveinsson væri frásögn höfð eftir Elíasi af fólskulegri framkomu und-
irritaðs í veisluhúsinu Höfða fyrir mörgum árum. Á ég að hafa hent með valdi
út úr móttöku þar gömlu ljóðskáldi, Jónasi Svafár nánar tiltekið, og einum
sjúkum manni í kjölfar hans. Og samkvæmt frásögninni á ég að hafa tekið
uppá þessu hjá sjálfum mér.
Þótt maður reyni að láta ýmislegt sem vind um eyru þjóta er heldur leitt að
þurfa að sitja undir tilhæfulausum ásökunum um yfirgang og ruddaskap.
Það var á vormánuðum 1990 að haldinn var aðalfundur Rithöfundasam-
bandsins en þar hafði ég gegnt formennsku í tvö ár. Í tengslum við fundinn var
haldið Rithöfundaþing eins og kveðið var á um í lögum sambandsins; það var
haldið á laugardegi í Norræna húsinu með miklu fjölmenni. Um kvöldið fóru
margir út í gleðskap en samt var vel mætt á aðalfundinn sem haldinn var á sama
stað daginn eftir; ég gaf kost á mér til endurkjörs í tvö ár enn og fékk þorra
atkvæða, nema hvað fjögur eða fimm skiptust á milli Dags Sigurðarsonar og
Davíðs Oddssonar. Að loknum fundi hélt svo þingheimur upp í Höfða þar sem
Davíð, einn af félagsmönnum en jafnframt borgarstjóri, bauð til móttöku. Menn
voru hinir kátustu; Davíð hafði frétt af atkvæðunum sem hann fékk í formanns-
kjörinu og spaugaði með þau í ávarpi, sagði að hann hefðu örugglega kosið menn
sem væru bara að reyna að losna við sig úr því embætti sem hann þá gegndi.
Flestir gestanna komu beint af aðalfundinum en nokkrir utan úr bæ. Þar á
meðal einn sem kom utan af landi til að sitja rithöfundaþingið á laugardeg-
inum og hann sagði mér að hann hefði því miður ekki mætt á aðalfundinn, en
að það hefði verið þess virði því að hann hefði drukkið alla nóttina með Jónasi
Svafár, einu af sínum uppáhaldsskáldum til áratuga og legendarískum drykkju-
manni. Jónas var með honum í för og þeir voru að koma beint úr sínu sumbli.
Höfundurinn sem bjó úti á landi var maður á besta aldri og bar langdrykkjuna
sæmilega. En það verður ekki sagt um Jónas gamla, hann var hroðalega til
reika; eins og Elías getur um í samtalinu hafði hann verið hálfgerður útigangs-
maður í fjölda ára og mest haldið til á drykkjumannahælum. Enda kom einn
af gestgjöfunum til mín og sagði: „Mann í svona ástandi getum við ekki haft
hér í húsi; annaðhvort verður honum komið í burtu eða veitingum verður hætt
og veislunni slitið.“