Læknablaðið - 01.03.2016, Blaðsíða 26
134 LÆKNAblaðið 2016/102
R A N N S Ó K N
orsökum hjá almenningi er heldur ekki með fullu þekkt en í einni
rannsókn fékkst nýgengið 20/100.000 einstaklinga á ári.24 Í henni
var þó meðalaldurinn mun hærri en í okkar rannsókn og orsök
rákvöðvarofs ekki tilgreind.
Konur voru þriðjungur rannsóknarþýðis, sem er hærra hlutfall
en í öðrum rannsóknum þar sem karlmenn eru mikill meirihluti
þýðis eða þýði samanstendur einungis af körlum.14,25-27 Í þessum
rannsóknum var CK-hækkun kynja ekki borin saman. Tævönsk
rannsókn á 225 framhaldsskólanemum sýndi engan mun á nýgengi
og engan mun á CK-hækkun milli kynja11 og var enginn munur á
æfingafyrirkomulagi ungmenna sem fengu rákvöðvarof og þeirra
sem fengu það ekki. Aðrar rannsóknir þar sem borin er saman CK-
hækkun meðal karla og kvenna fundust ekki. Þó sást ekki munur
milli kynja í rannsókn sem bar saman stoðkerfiseinkenni hjá körl-
um og konum eftir miklar styrktaræfingar.28 Því virðist ekki vera
teljandi munur milli kynja hvað CK-hækkun varðar þrátt fyrir að
áreynslurákvöðvarof greinist oftar hjá körlum. Gæti skýringin
á þessu verið að í almennu þýði séu karlar líklegri til að stunda
áreynslufrekar íþróttir og/eða að leita sér aðstoðar. Rákvöðvarof
af öllum orsökum sást hjá 433 körlum og 215 konum á rannsóknar-
tímabilinu í okkar rannsókn. Líkamleg áreynsla var orsökin í 8,3%
tilfella hjá körlum og 8,4% hjá konum. Til samanburðar var hlut-
fallið 40% hjá körlum og 19% hjá konum í bandarískri rannsókn.14
Ungur aldur er einkennandi fyrir rannsóknir á áreynslurák-
vöðvarofi, til dæmis rannsóknir á unglingum eftir styrktaræf-
ingar í tengslum við tómstundaiðju.11,27 Tvö bandarísk rannsókn-
arþýði höfðu lægri meðalaldur en okkar. Þær samanstóðu af 35
tilfellum með meðalaldur 24,4 ár og 63 tilfellum með meðalaldur
23,3 ár.14,26 Samanburður á CK-hækkun mismunandi aldurshópa
eftir áreynslurákvöðvarof fannst ekki í öðrum rannsóknum.
Er það líklega vegna þess að oftast eru rannsóknarþýði einsleit
hvað aldur varðar en rannsóknir sýna að áreynslurákvöðvarof
sé algengast meðal ungra einstaklinga og þá helst ungra karl-
manna.14,21,29 Ástæða þess gæti verið að yngri aldurshópar stunda
oftar áreynslufreka líkamsrækt en þeir eldri.
Sjúkleikahlutfall var lágt í okkar rannsókn þrátt fyrir að CK-
hækkun væri mikil. Rannsóknir hafa sýnt að CK mælist almennt
mjög hátt eftir áreynslurákvöðvarof en spítaladvöl er oftast stutt
og bráður nýrnaskaði er óalgengur.4,11,14 Í tævönsku rannsókninni
sem minnst var á hér að ofan var meðalhækkun á CK um 41.500
IU/L. Í henni fékk enginn bráðan nýrnaskaða en ólíkt okkar rann-
sókn var þar um að ræða hóp unglinga sem fóru í sama íþróttatím-
ann.11 Í rannsókn Sinert og samstarfsaðila voru 35 karlkyns fangar
með áreynslurákvöðvarof með CK-meðalgildi um 40.000 IU/L en
enginn fékk bráðan nýrnaskaða. Þessir sjúklingar lágu lengur inni
á spítala en sjúklingar í okkar rannsókn, eða 6,7 daga að meðal-
tali.26 Aðrar rannsóknir sýna þó hærri tíðni alvarlegra fylgikvilla.
Alpers og félagar rannsökuðu 63 hermenn á sömu herstöðinni.
Meðalhækkun á CK var þar um 32.500 IU/L og fengu 19,1% bráðan
nýrnaskaða. Legulengd sjúklinga var 3,29 dagar að meðaltali
(spönn 1,8-4,8 dagar).14 Í annarri rannsókn á 50 nemendum í lög-
regluskóla með rákvöðvarof eftir líkamsþjálfun fengu 18% bráðan
nýrnaskaða. Sex þurftu blóðskilunarmeðferð vegna nýrnaskaðans
og einn lést af veikindum sínum.30
Ekki hafa fundist rannsóknir þar sem áverkasvæði er skráð á
sambærilegan hátt og í okkar rannsókn. Ef áverkasvæði er skráð
er oftast um að ræða afmarkaðan hóp þar sem allir voru að þjálfa
sömu vöðvahópana. Í bandarískri rannsókn á ungmennum í am-
erískum fótbolta fengu 22 einstaklingar (51% hópsins) rákvöðva-
rof í þríhöfða upphandleggja. Styrktaræfingarnar í þessu tilviki
reyndu nánast einungis á þessa vöðva.27 Í áðurnefndri tævanskri
rannsókn á nemendum með rákvöðvarof eftir íþróttatíma fólust
styrktaræfingarnar að mestu í hnébeygjum. Því kom rákvöðvarof
aðeins fram í neðri útlimum.11 Það má ætla að staðsetning rák-
vöðvarofsins sé háð þeirri æfingu sem er framkvæmd hverju sinni.
Ekki fundust rannsóknir þar sem þær athafnir og íþróttir sem
stuðla oftast að áreynslurákvöðvarofi eru rannsakaðar og bornar
saman. Oftast er þeim lýst í skýrslum um sjúkratilfelli31-34 eða í
rannsóknum á hópi einstaklinga sem iðka sömu íþrótt.11,14 Þó er
talið að helstu athafnir sem leiða til rákvöðvarofs séu herþjálfun,
langhlaup og vaxtarrækt.30,35 Þrátt fyrir heilsuræktarbylgju á Ís-
landi er ekki vitað um áreynsluástundun kynjanna.
Ef CK-gildi er meira en 15.000 IU/L eftir áreynslurákvöðvarof
eru auknar líkur á alvarlegum aukaverkunum.15 Þá er mikilvægt
að gefa ríkulega vökva í æð til að fyrirbyggja bráðan nýrnaskaða.
Niðurstöður okkar benda til þess að þeir sem fá vökva í æð sem
meðferð við áreynslurákvöðvarofi séu almennt með mun hærri
CK-gildi en aðrir. Þrátt fyrir það voru 7 tilfelli með CK-gildi yfir
15.000 IU/L sem fengu ekki vökva í æð. Rannsakendur mæla með
því að miða við CK-gildi sem jafngildir 15.000 IU/L þegar ákvarða
á hvort eigi að gefa vökva í æð eða ekki. Ef sjúklingur mælist með
CK hærra en viðmiðunargildið skal alltaf gefa vökva í æð. Ef CK
mælist lægra skal þó ekki útiloka vökvagjöf í æð heldur ákvarða
meðferð út frá einkennum og þeim tíma sem hefur liðið frá því
líkamlega áreynslan fór fram.
Meðal styrkleika okkar rannsóknar er heildarúttekt á öllum
sem voru með CK-gildi hærra en 1.000 IU/L, voru með líkamlega
áreynslu sem orsakavald og komu til meðferðar á Landspítala.
Sjúkraskrárkerfi Landspítala innihélt oftast aðgengilegar upplýs-
ingar um sjúklingana. Áreynslurákvöðvarof hefur ekki áður verið
rannsakað hérlendis og auka þessar niðurstöður við þekkingu á
því á Íslandi. Helstu vankantar rannsóknarinnar eru að hún var
afturskyggn og þýðið reyndist ekki stórt. Rannsóknin náði ein-
ungis til tilfella sem komu til meðferðar á Landspítala en ekki til-
fella í heilsugæslu eða öðrum heilbrigðisstofnunum.
Ályktanir
Áreynslurákvöðvarof er óalgengt en oftast er um ungt fólk að
ræða. Ekki er vitað um íþrótta- eða líkamsræktarástundun kvenna
eða karla en ekki var munur á CK-gildum kynjanna, milli aldurs-
flokka eða rákvöðvasvæða. CK-hækkun í sermi var oftast mikil
en bráður nýrnaskaði óalgengur. Skortur er á rannsóknum um
áreynslurákvöðvarof úr almennu þýði.
Þakkir
Við þökkum Ingibjörgu Richter fyrir öflun gagna úr upplýsinga-
kerfum Landspítala og Sigrúnu Helgu Lund fyrir tölfræðiaðstoð.