Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 01.03.2016, Blaðsíða 50

Læknablaðið - 01.03.2016, Blaðsíða 50
158 LÆKNAblaðið 2016/102 Félag íslenskra gigtarlækna Gigtarlækningar: Vaxandi sérgrein á tímum gífurlegra framfara Gerður Gröndal gerdurgr@landspitali.is lyf- og gigtarlæknir, klínískur dósent formaður Félags íslenskra gigtarlækna forseti Félags gigtarlækna á Norðurlöndunum (Scandinavian Society of Rheumatology) Árið 1782 kom út merkileg bók eftir ís- lenskan lækni, Jón Pétursson (1733-1801), þar sem hann lýsir gigtarsjúkdómum, sér- staklega liðagigt. Hann virðist reyndar hafa verið með liðagigt sjálfur og lýsir því að sjúkdómurinn sé algengari meðal kvenna en karla, sem á við enn í dag. Einnig mælir hann með því að gigtarsjúklingar hreyfi sig sem mest, passi upp á meltinguna og noti heit böð til verkjastillingar. Sérgreinin gigtarlækningar þróaðist undir forystu Jóns Þorsteinssonar prófess- ors, sem varð fyrstur yfirlæknir á gigtar- deild hérlendis, árið 1969 á Landspítala. Nokkrum árum síðar hófu tveir aðrir gigtarsérfræðingar störf og sinntu bæði gigtarlækningum og endurhæfingu. Smám saman óx deildin og dafnaði og fleiri sér- menntaðir gigtarlæknar komu til starfa. Nú er gigtardeildin hluti af lyflækningasviði Landspítala, sem og dagdeild gigtar og göngudeild gigtar. Samtals starfa hérlendis 14 gigtarsér- fræðingar (fjórar konur og 10 karlar), sex starfa einungis á Landspítala, tveir starfa á spítalanum og á stofu, fjórir starfa alfarið á stofu, einn á FSA og einn starfrækir endur- hæfingarstöð fyrir vefjagigtarsjúklinga. Þeir gigtarlæknar sem starfa á sjúkrahúsum sinna bæði lyflækningum og gigtarlækn- ingum. Tveir ónæmissérfræðingar á Land- spítala starfa töluvert að gigtarlækningum og einn barnagigtarlæknir starfar á Barna- spítala Hringsins. Gigtarlæknar eru mennt- aðir á Norðurlöndunum, Bretlandi og Bandaríkjunum, á viðurkenndum háskóla- sjúkrahúsum. Síðustu árin hefur nýliðun gengið vel og áhugi verið á sérgreininni. Í dag eru 6 læknar í sérnámi eða hafa nýlokið því, í Svíþjóð og Noregi. Einn starfar í Eng- landi en mun flytjast til Íslands í haust, tveir starfa í Bandaríkjunum og einn er yfirlæknir í Noregi. Einn barnagigtarlæknir starfar í Svíþjóð. Sérgreinin gigtarlækningar tilheyrir lyflækningum og flestir gigtarlæknar sinna fyrst og fremst greiningu og með- ferð svokallaðra bólgugigtarsjúkdóma. Þeir sem starfa á einkastofum sinna einnig fjölmörgum sjúklingum með slitgigt, vefjagigt og aðra stoðkerfiskvilla. Því miður hefur eftirspurn eftir tímum hjá gigtarlæknum verið meiri en framboðið undanfarin ár, biðlistar eru langir og hætta á að greining tefjist vegna þess. Það hefur einnig verið bent á það að sjúklingar með bólgugigtarsjúkdóma gangi fyrir á kostnað þeirra sem hafa aðra sjúkdóma í stoðkerfi. Nýlega stóð Félag gigtarlækna fyrir mál- þingi á Læknadögum þar sem málefni sjúklinga með stoðkerfiseinkenni önnur en bólgusjúkdóma (medical orthopedics) voru kynnt. Rætt var að meðferð þeirra eigi að vera á vegum heilsugæslu með hjálp bæklunarlækna, endurhæfingarlækna og gigtarlækna. Ýmis úrræði eru í boði en því miður eru biðlistar langir, heildarsýn, skipulag og stefnu vantar af hálfu heil- brigðisyfirvalda. Sömuleiðis þarf að bjóða upp á frekari menntun, til dæmis bráða- og heimilislækna í þessu fagi, til þess að efla kunnáttu og koma í veg fyrir óþarfa þjáningar, vinnutap og jafnvel örorku. Ljóst er að flestir gigtarlæknar munu áfram sinna bólgugigtarsjúkdómum aðallega, en vilja gjarnan koma að skipulagningu og menntun, samanber ofangreint. Gífurlegar framfarir hafa orðið í meðferð bólgugigtarsjúkdóma síðastliðna áratugi. Rannsóknir hafa sýnt að þétt eftirlit er afar mikilvægt og fram hafa komið kröftug ný lyf, fyrst metótrexat og síðan líftæknilyf sem gerbreyta horfum þessara sjúklinga. Líftæknilyfin virka flest á sjálfa bólguna með því að hemja einn afmarkaðan lykil- þátt í bólguferlinu, svo sem TNF-alfa þátt- inn. Þrátt fyrir niðurskurð í heilbrigðis- kerfinu og efnahagshrunið hefur tekist að tryggja að hérlendis er jafnt aðgengi að þessum dýru lyfjum og á Norðurlönd- unum. Í dag eru um 800 gigtarsjúklingar á líftæknilyfjum, 50% þeirra eru með iktsýki, 20% með hrygggikt, 20% með sóragigt og afgangurinn með aðra bólgugigtar- sjúkdóma. Til að tryggja öryggi og gæði meðferðarinnar eru sjúklingar skráðir í sérhæft stafrænt skráningarkerfi, ICEBIO, sem hefur hlotið mjög jákvæða athygli. Félag íslenskra gigtarlækna hefur verið starfrækt síðan 1976. Stjórnin skipuleggur reglubundna félagsfundi þar sem aðal- áherslan er á fræðslu en einnig gefst tæki- færi til að ræða hagsmunamál og fleira. Félagið hefur eigin heimasíðu, fig.is, og stendur nú í ströngu við að skipuleggja 36. skandinavíska gigtarþingið sem verður haldið í Hörpu 1.-3. september, sjá scr2016.is. Árið 2012 gaf félagið út bók um lið- bólgusjúkdóma til þess að fræða heilbrigð- isstarfsmenn um það nýjasta í greiningu og meðferð. Félagið hefur einnig starfað með Gigtarfélagi Íslands og fagfélagi gigtar- hjúkrunarfræðinga. Á þessu ári hefst svo NORDSTAR-rannsóknin sem er samnorræn meðferðarannsókn á iktsýki sem er skipu- lögð af norrænum félögum gigtarlækna. Margir gigtarlæknar sinna rannsóknum meðfram öðrum störfum sínum, í hópnum er meirihlutinn með doktorspróf, þrír eru prófessorar og þrír eru dósentar (þá eru meðtaldar akademískar nafnbætur). Rann- sóknarstofa í gigtarsjúkdómum var sett á stofn 1996 og að því stóðu Gigtarfélag Íslands, Landspítali og læknadeild Há- skóla Íslands, með stuðningi Lionshreyf- ingarinnar. Þar er unnið að rannsóknum á fjölmörgum gigtarsjúkdómum. Einnig hafa gigtarlæknar verið í samvinnu við Íslenska erfðagreiningu, Hjartavernd, Rannsóknar- stofu í ónæmisfræði og ýmsar erlendar rannsóknastofnanir. Framtíðin er björt fyrir gigtarlækningar á Íslandi, en ljóst að gera þarf átak í skipu- lagningu, til dæmis flæðis sjúklinga, til þess að nýta sem best sérfræðiþekkingu gigtarlækna og margra annarra heilbrigðis- stétta sem vinna þurfa saman að velferð þessara sjúklinga. Fyrsti örvinn við einkennum ofvirkrar þvagblöðruß - 3 Heimildir: 1. Khullar et al. European Urology 63;(2013):283–295. 2. Nitti et al. J Urol 2013;189:1388–1395. Munnþurrkur sambærilegur ly�eysu1,2 Það er hægt að lifa við ofvirka þvagblöðru á annan hátt

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.