Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 01.03.2016, Blaðsíða 44

Læknablaðið - 01.03.2016, Blaðsíða 44
152 LÆKNAblaðið 2016/102 Eins og í nágrannalöndum okkar er unnið markvisst að því að stuðla að skynsam- legri lyfjanotkun í landinu. Í lögum um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007 er kafli um eftirlit með ávísunum lyfja þar sem lögð er áhersla á eftirlit með ávana- og fíknilyfjum og eftirlit með ávísunum lækna á ávanabindandi lyf til eigin nota. Einnig er eftir föngum fylgst með notkun lyfja almennt í samanburði við önnur lönd. Allt er þetta gert með almannaheill og velferð sjúklinga að leiðarljósi. Hjá Embætti landlæknis (EL) starfar sérstakt lyfjateymi sem ber ábyrgð á þessum þætti starfseminnar. Við þessi störf er notaður lyfjagagnagrunnur EL sem er öflugt tæki til eftirlits og rannsókna. Áherslur og aðferðir Við þetta eftirlit er aðaláherslan á ávana- bindandi lyf en einnig á þunglyndislyf og flogaveikilyf. Tvö flogaveikilyf (pregabalín og gabapentín) eru misnotuð af fíklum, sennilega mest til að fá „betri“ vímu af öðrum fíknilyfjum. Það er því miður staðreynd að talsvert magn ávanabindandi lyfja er á svörtum markaði (lyfjadóp) og einhver hluti þeirra ávanabindandi lyfja sem ávísað er ratar á þennan markað. Þegar sjúklingur fær óvenjulega stóra skammta eða mikið magn á stuttum tíma af ávanabindandi lyfi getur það vakið grunsemdir um misferli. Eitt af því sem lyfjateymið skoðar reglulega er hverjir eru að fá stærstu skammtana af til- teknu lyfi eða lyfjaflokki og í framhaldinu er haft samband við viðkomandi lækna, þeim gert viðvart eða þeir beðnir um skýringar. Lyfjateymið hefur samband við lækna með ýmsum aðferðum og má helst nefna síma, bréf, tölvupóst, dreifibréf, pistla í Læknablaðinu og vefsíðu EL. Oftast er einungis verið að miðla upplýsingum til lækna en stundum er beðið um svör. Sjálfsávísanir lækna á ávanabindandi lyf Með reglulegu millibili eru skoðaðar ávís- anir lækna á sjálfa sig með ávanabindandi lyfjum. Vitað er að sum þessara lyfja geta skert dómgreind, auk annarra vandræða sem þau geta skapað. Það er þess vegna talið æskilegt að þegar læknir þarf á slíkum lyfjum að halda feli hann kollega að sjá um og stjórna meðferðinni. Þeim læknum sem ávísa mestu á sig sjálfa er gert viðvart bréfleiðis og bent á að slíkar lyfjaávísanir séu óheppilegar. Allt er þetta gert af umhyggju fyrir viðkomandi læknum og sjúklingum þeirra. Samstarf Mest og mikilvægast er samstarf lyfja- teymis við lækna og er það samstarf nær undantekningarlaust gott. Læknar eru almennt þakklátir fyrir þær ábendingar sem þeir fá frá lyfjateyminu, gera sér grein fyrir hvað við gerum og hvers vegna, og að við störfum saman að því sameiginlega markmiði að lyfjameðferð sjúklinga sé eins áhrifarík og örugg og kostur er. Einn- ig að við vinnum saman gegn ofnotkun og misnotkun lyfja. Auk þess er lyfjateymi EL í góðu samstarfi við Lyfjastofnun, Sjúkratryggingar Íslands, ADHD-teymi Landspítala, SÁÁ og marga fleiri. Ábendingar Lyfjateymið fær talsvert af ábendingum, oftast um eitthvað sem betur mætti fara, frá læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki, lyfjafræðingum og ýmsum fleiri aðilum. Reynt er að meta gildi slíkra ábendinga hverju sinni og vinna úr þeim á við- eigandi hátt. Umfangið Árið 2014 fengu um 247.000 einstaklingar ávísað lyfjum að minnsta kosti einu sinni, þar af voru tæplega 70.000 manns sem fengu ávísað ávanabindandi lyfjum. Flestir fá ávísað aðeins litlu magni af ávanabind- andi lyfjum en ríflega 2400 manns fengu ávísað yfir 1000 dagsskömmtum (DDD) árið 2014. Þetta ár fengu 242 einstaklingar ávísað ávanabindandi lyfjum frá 10 eða fleiri læknum. Eðlilegar skýringar geta legið að baki stórum skömmtum og ávís- unum frá mörgum læknum en iðulega eru gerðar athugasemdir við ávísanir af þessu tagi. Aðgerðir embættisins Embættið er í sambandi við fjölda lækna vegna lyfjaávísana til einstaklinga, í flestum tilfellum til að miðla upplýsingum en stundum til að fá skýringar, oftast vegna stórra lyfjaskammta. Sérstakt eftirlit er með sjálfsávísunum sem eru skoðaðar reglulega. Mikilvægt er að læknar bregðist við erindum er varða lyfjaávísanir. Land- læknir getur beint tilmælum til lækna um úrbætur í lyfjaávísunum til sjúklinga. Verði læknir ekki við tilmælum eða ef það er mat landlæknis að læknir ávísi lyfjum þannig að óhæfilegt megi teljast, er hann áminntur. Komi áminning ekki að haldi getur landlæknir ákveðið að svipta við- komandi lækni leyfi til að ávísa lyfjum, öllum eða einstökum flokkum, enda þyki ekki ástæða til að svipta hann starfsleyfi. Starfsemi lyfjateymis landlæknis – áherslur og aðferðir Magnús Jóhannsson læknir magnus@landlaeknir.is Anna Björg Aradóttir sviðsstjóri Anna María Káradóttir lögfræðingur Lárus Guðmundsson lyfjafræðingur Ólafur Einarsson verkefnisstjóri F R Á E M B Æ T T I L A N D L Æ K N I S 1 2 . P I S T I L L

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.