Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 01.03.2016, Blaðsíða 36

Læknablaðið - 01.03.2016, Blaðsíða 36
144 LÆKNAblaðið 2016/102 U M F J Ö L L U N O G G R E I N A R þessu ári munum við byrja með fjarlækn- ingar (virtual clinic), en yfir 20 slíkar stöðv- ar eru á vegum King Faisal sjúkrahússins vítt og breitt um landið. Við sinnum líka konungsfjölskyldunni og þeim sem henni tengjast og segja má að í innsta kjarna hennar séu um 300-400 manns. Lang- flesta sjáum við á sérstakri klín ík sem er eingöngu fyrir þennan hóp, en það kemur þó fyrir að við þurfum að fara í vitjanir í hallirnar. Yfirleitt er hringt og sagt hvenær VIP-sjúklingarnir muni koma, það kemur örsjaldan fyrir að þeir komi fyrirvaralaust. Og svo er stundum hringt og óskað eftir lækni strax og þá er betra að henda öllu frá sér og hlaupa af stað. Maður getur sagt nei en það er ekki vel séð.“ Er mikill munur á því að vinna á þessum spítala og á þeim spítölum þar sem þú hefur starfað á Vesturlöndum? „Munurinn er merkilega lítill. Sam- starfsfólk mitt er af ýmsu þjóðerni, bæði Sádar og fólk af mörgu öðru þjóðerni. Þetta er allt mjög þægilegt fólk og vinnu- menningin er að miklu leyti svipuð því sem maður hefur vanist annars staðar. Hið sama verður hins vegar ekki sagt um sádi-arabískt samfélag. Það er gerólíkt því sem við þekkjum. Við sem komum frá Vesturlöndum njótum þó mun betri aðstæðna en þeir sem koma annars staðar frá. Við höfum eins konar VIP-stöðu í þessu samfélagi og það hefur til dæmis aldrei gerst að ég hafi verið stoppaður og beðinn um skilríki á eftirlitsstöðvum sem eru víða í borginni. Slíkum stöðvum hefur fjölgað eftir að nýi kóngurinn tók við en hann er mun herskárri en sá sem fyrir var. Við búum síðan á lokuðu svæði þannig að samskipti okkar við Sádana fyrir utan vinnu eru mjög takmörkuð. Flestir þeirra sem við hjónin umgöngumst eru Vesturlandabúar, en Skandínavarnir og Íslendingarnir sem þarna eru halda talsvert mikið hópinn. Þetta heitir Palm Villa Compound og þarna var gamall döðluakur Faisal konungs. Við erum 5 íslenskir læknar sem störfum á þessum spítala, Einar Þórhallsson meltingarlæknir, Atli Eyjólfsson hjartaskurðlæknir, Halldór Benediktsson röntgenlæknir og Stefán Kristjánsson röntgenlæknir ásamt mér, allir á svipuðum aldri og með svipaða reynslu. Við erum fjögur skólasystkin úr læknadeild Háskóla Íslands sem erum í Sádi, Atli, Már Kristjánsson smit- sjúkdómalæknir sem starfar í Dammam nokkuð fyrir austan Riyadh og Sigurveig Sigurðardóttir barnalæknir sem er gift Lárusi Ásgeirssyni verkfræðingi sem stýrir risastóru kjúklingabúi Almarai í Riyadh. Eiginkonurnar dvelja venjulega hjá okkur í lengri eða skemmri tíma. Einn- ig eru nokkrir Íslendingar til viðbótar hér í Riyadh. Þetta er því töluverður hópur.“ Erfitt fyrir konur að búa þarna „Konur eiga talsvert undir högg að sækja í þessu samfélagi og vestrænar konur eiga erfitt með að sætta sig við það. Það hefur gerst að Dóra kona mín hefur fengið athugasemdir í verslunum eða á götum úti af því að hún er ekki með slæðu. Ferðafrelsi kvenna eru settar skorður með því að þær mega ekki keyra bíl eða vera á reiðhjóli, þær verða að fara allra ferða í leigubíl eða ráða sér bílstjóra ef eiginmennirnir eru ekki til staðar. Það er ekki hægt að komast hjá því. Það eru síðan ýmsir staðir í borginni sem eru vafasamir fyrir vestrænt fólk að láta sjá sig á. Þangað förum við einfaldlega ekki. Og sannleikurinn er sá að við hjónin förum alltaf úr landinu þegar ég á frí. Við eyðum ekki frídögum í Sádi. En það er ýmis- legt hægt að gera sér til dægrastyttingar, sundlaugar, líkamsrækt og tennis og svo er mjög góð aðstaða til að spila golf. Þarna eru engin leikhús, tónleikahús eða neitt af því tagi en veitingastaðir eru fjölmargir og misgóðir eins og gengur. Svo eru margir markaðir og kringlur sem gaman er að rölta um en fyrst og fremst er Sádi vinnu- staður og mjög góður sem slíkur. Fríin eru góð, en fyrir utan 54 daga á ári sem kalla má sumarfrí eru ráðstefnu- og viðskipta- ferðaleyfi en ég geri talsvert af því að sækja ráðstefnur og fundi víða um heim í nafni deildarinnar og spítalans. Spítalinn greiðir eina ferð á ári til heimalandsins en ferðalagið til Íslands tekur hátt í sólar- hring svo við höfum haft þá reglu að koma tvisvar á ári og stoppa þá lengur í hvert sinn.“ Og hvernig eru svo kjörin? „Ég skrifaði undir yfirlýsingu í upphafi um að ég myndi ekki ræða launakjör við einn eða neinn og það gerum við aldrei. Þetta er skemmtileg vinna og gaman að hafa fengið tækifæri til að gera það sem hugur minn hefur staðið til í mjög langan tíma. Einnig er gaman að reyna eitthvað framandi og nýtt. En auðvitað væri maður ekki að þessu ef launin væru ekki ásætt- anleg. Því um leið og þetta er skemmtilegt, forvitnilegt og framandi er þetta ákveðin fórn. Það er fórn að vera fjarri fjölskyldu og vinum svo eitthvað verður að koma í staðinn til að það sé þess virði. Við höfum þarna stórt og gott einbýlishús til umráða og það er fullbúið húsgögnum. Við eigum í rauninni ekkert þarna svo ef þær að- stæður kæmu upp gætum við pakkað í eina tösku og farið fyrirvaralaust. Þetta er vinnustaður, ekki heimili.“ Á fundi öldungadeildar 2. mars flytur Auðólfur Gunnarsson fyrirlestur sem hann nefnir: Magnús Eiríksson frater, frumherji í jafnréttisbaráttu kvenna, einherji sannleikans. Magnús Jónsson sagnfræðingur ræðir um Orkneyjar á fundinum í apríl. Á aðalfundinum 4. maí flytur Magnús Jóhannsson erindið Af konungum, hórum og korndrjólum. Fundir öldungadeildar eru fyrsta miðvikudag hvers mánaðar og hefjast kl. 16, en á undan fundi, kl. 15.30, er boðið upp á kaffi og vínarbrauð. Bókanir eru hafnar hjá ferðaskrifstofunni VITA í Orkneyjaferðina sem farin verður 20.-30. september. Áætlað verð er kr. 290.000. Innifalið er flug, akstur, rúta allan tímann, ferjur, leiðsögn og gisting í 9 nætur með morgunmat og kvöldverði. Silja Rún hjá Ferðaskrifstofunni VITA, Skógarhlíð 12, í síma 5704453, sér um bókanir.

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.