Gerðir kirkjuþings - 01.01.2015, Blaðsíða 19
19
Ávarp biskups Íslands, Agnesar M. Sigurðardóttur
Forsætisráðherra, forseti kirkjuþings, kirkjuþingsfulltrúar, vígslubiskupar, góðir gestir.
Ég vil byrja á því að þakka forsætisráðherra fyrir að vera með okkur hér í dag í forföllum
innanríkisráðherra. Einnig vil ég þakka þeim sem undirbúið hafa kirkjuþingið, kirkjuráði,
starfsfólki Biskupsstofu, forsætisnefnd og þingfulltrúum. Einnig þeim er flytja okkur ljúfa
tóna hér í dag sem og sóknarpresti og sóknarnefnd Grensáskirkju fyrir afnotin af kirkju
og safnaðarheimili.
Í ár hefur 200 ára afmælis Hins íslenska biblíufélags verið minnst með margvíslegum
hætti. Félagið var stofnað þann 10. júlí árið 1815 að frumkvæði Skotans Ebenezers
Henderson. Það er í dag ekki bara elsta félag landsins, heldur eitt af elstu Biblíufélögum
í heiminum. Félagið hefur haft að markmiði að vinna að útgáfu og útbreiðslu Biblíunnar
á Íslandi og stuðla að lestri og almennri notkun hennar. Þess má geta að Íslendingar
voru á meðal 20 fyrstu þjóða heims sem fengu Biblíuna alla á eigin þjóðtungu. Það
var menningarlegt afrek Odds Gottskálkssonar og Guðbrands Þorlákssonar og hafði
ómetanlegt gildi fyrir okkur sem þjóð.
Það er merkilegt að lesa rit Biblíunnar. Þó þau séu ævagömul þá eru umfjöllunarefnin
í raun þau sömu og við erum að fjalla um í dag í almennri umræðu sem og umræðu um
líf mannsins hér á jörð og í samfélagi manna. Í hinum kristna heimi er fyrirmyndina og
leiðtogann að finna í ritum Nýja- testamentisins í barninu og manninum Jesú, sem er
einnig Guð okkar kristinna manna. Ráð Drottins er hið sama til allra kynslóða eða eins
og segir í Davíðssálmi 33:11 „en ráð Drottins stendur stöðugt um aldur, áform hjarta hans
frá kyni til kyns“.
Fjármál eru mikið í almennri umræðu og þar leggur Biblían orð í belg. Ef til vill væri
betur komið fyrir þjóðinni ef hagfræði Gamla-testamentisins hefði verið í hávegum
höfð, en hún gengur út á það að í góðæri sé lagt fyrir til mögru áranna. Þarna er vísað til
Jósefssögunnar í 1. Mósebók, 41. kafla.
Þekking á táknmáli Biblíunnar hjálpar hverjum þeim er lifir í landi sem kennir sig
við Krist að skilja samfélagið og náungann. Biskup Íslands hefur verið forseti félagsins
frá upphafi og í stjórn þess sitja bæði leikir og lærðir fulltrúar nokkurra kirkjudeilda.
Síðustu áratugina, einkum frá lokum síðari heimsstyrjaldar hafa menn áttað sig á því að
samstaða er nauðsynleg til að efla mannlíf og bæta lífsskilyrði. Íslenska Þjóðkirkjan á sæti
í Alkirkjuráðinu sem eru samtök margra kirkjudeilda og í lúterska heimssambandinu.
Einnig er þjóðkirkjan í sambandi evrópskra kirkna og er þátttakandi í samstarfi lúterskra
kirkna á Norðurlöndunum, Eystrasaltslöndunum og víðar og anglíkönsku kirkjunnar,
sem kennt er við Porvoo. Allar þessar kirkjur og samtök láta sig heimsmálin varða og
boða kærleika Krists í orði og í verki. Íslenska Þjóðkirkjan er því ekki eyland. Hún byggir
á guðfræði sem á uppruna sinn í helgri bók og kenningum sem Marteinn Lúter mótaði.
Þess vegna verður að líta til þess grundvallar þegar fjallað er um kirkjuleg mál. Kirkjan er
ekki fyrirtæki og ekki venjuleg stofnun. Hún er fjöldahreyfing.
Þjóðkirkjan er kirkja fólksins. Sem slík nýtur hún trausts í nærsamfélaginu. Það er líka
sóst eftir áliti kirkjunnar um mikilvæg mál sem til umræðu eru í þjóðfélaginu. Undanfarið