Gerðir kirkjuþings - 01.01.2015, Side 22
22 23
verið til nýs kirkjuþings og kirkjuráðs, frá því kirkjuþing ályktaði eins og fyrr segir, og því
að ýmsar forsendur hafa breyst á tímabilinu tel ég ekki rétt að fara fram á framlagningu
frumvarpsins á yfirstandandi þingi. Rökin fyrir því eru þau að fjárhagsleg samskipti kirkju
og ríkis eru nú til umfjöllunar, hvað varðar sóknargjöld og kirkjujarðasamninginn frá
1997.
Alvarlegar athugasemdir hafa komið fram, bæði hjá Alþingi og innanríkisráðuneytinu
um galla á frumvarpinu.
Kirkjuþing hefur sett af stað vinnu við endurskoðun þjóðkirkjulaga eins og þingheimi
er kunnugt og hefur sú vinna staðið yfir um langt árabil. Er það eðlilegt þar sem líta má á
þjóðkirkjulögin eins og stjórnarskrá kirkjunnar og því eðlilegt að varlega sé farið. Mál um
vinnu að endurskoðun þjóðkirkjulaganna er fyrir kirkjuþingi 2015.
Þá er sömuleiðis í gangi vinna við stefnumótun þjóðkirkjunnar og er áfangaskýrsla
starfshóps til umfjöllunar á þessu þingi. .
Allsendis er óljóst hvað tæki við ef frumvarpið yrði samþykkt. Engar tillögur að
starfsreglum eða almenn sýn á skipan mála hefur verið sett fram um það hvernig
fjárstjórnarvaldi kirkjuþings yrði háttað. Er því fullkomin óvissa um þau mál sem verður
að telja slæmt.
Eins og fram hefur komið eru einnig skiptar skoðanir um það hver fari með fyrirsvar
af hálfu kirkjunnar hvað varðar kirkjujarðasamninginn, þótt það sé nokkuð skýrt í
samningnum sjálfum.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því fyrra kirkjuþing samþykkti ályktunina.
Er því að mínu mati, rétt að staldrað sé við áður en áfram er haldið með svo veigamiklar
breytingar á þjóðkirkjulögum sem áðurnefnt frumvarp felur í sér.
Ég tel að niðurstaða um fjárhagsleg samskipti ríkis og kirkju verði að nást áður en
farið er að hrófla við ákvæðum laga um fjármál þjóðkirkjunnar. Ég tel, með hliðsjón
af því að endurskoðun þjóðkirkjulaga og stefnumótun þjóðkirkjunnar stendur yfir, sé
ekki ráðlegt að breyta verulega þeim atriðum sem frumvarpið gerir ráð fyrir bæði hvað
varðar fjármál en einnig grundvallaratriði í kirkjuskipan. Það góða fólk sem stendur að
endurskoðunarvinnunni með umboð kirkjuþings og ábyrgð gagnvart því, verður að fá
vinnufrið að mínu mati. Að auki er skynsamlegt að leiða til lykta og fá úr því skorið, hver
fari með fyrirsvar og ábyrgð kirkjujarðasamningsins. Ég mun því vart geta stutt framgang
þessa máls nema eitthvað það komi fram á þessu kirkjuþingi sem breytt getur stöðu mála
hvað þetta varðar.
Á síðasta ári voru kosnir nýir fulltrúar kirkjuþings í kirkjuráð. Ein af embættisskyldum
biskups Íslands er að leiða störf kirkjuráðs. Sú skipan mála er í samræmi við skipulagið í
nágrannalöndum okkar, s.s. Finnlandi, Svíþjóð og Þýskalandi, þar sem biskup er í forsæti
í kirkjuráðunum. Í Danmörku er kirkjan mun tengdari ríkisvaldinu og eru innri málefni
kirkjunnar því á höndum ríkisins. Í Noregi leiðir leikmaður kirkjuráðið þar sem biskup
á sæti og eru ýmsir meinbugir á þeim ráðahag að mati þeirra leikra og lærðra sem ég hef
rætt við um málið.
Ekki er ofsagt að samstarfið í kirkjuráði hafi verið brokkgengt það ár sem liðið er frá því
það tók til starfa. Mismunandi skilningur á hlutverki kirkjuráðs hefur einkennt starfsárið