Gerðir kirkjuþings - 01.01.2015, Síða 96
96 97
11. mál kirkjuþings 2015
Flutt af löggjafarnefnd kirkjuþings
Starfsreglur um val og veitingu prestsembætta
Starfsreglur þessar birtast hér með þeim breytingum sem gerðar voru á reglunum á
seinni hluta kirkjuþings í apríl 2016. Sjá 20. mál.
1. gr.
Lagagrundvöllur.
Biskup Íslands skipar, samkvæmt 37. gr. laga nr. 78/1997, í embætti sóknarpresta,
presta, héraðspresta og sérþjónustupresta þjóðkirkjunnar. Um málsmeðferð samkvæmt
starfsreglum þessum skal fara að stjórnsýslulögum nr. 37/1993, eftir því sem við getur átt.
2. gr.
Þarfagreining á prestakalli.
Þegar prestakall losnar skal kjörnefnd taka afstöðu til þess hvort hún hyggst nýta þjónustu
matsnefndar skv. 5. og 6. gr. Matsnefnd tekur til starfa nema því aðeins að kjörnefnd skv.
7. gr. nái samstöðu um að óska ekki eftir þjónustu hennar. Hjáseta rýfur ekki samstöðu.
Biskup Íslands undirbýr auglýsingu embættis með því að kalla eftir þarfagreiningu
prestakalls og/eða héraðsnefndar. Prófastur skal sjá til þess að þarfagreining verði unnin
innan þeirra tímamarka sem biskup setur. Hún skal innihalda eftir því sem við á:
1. Lýsingu á prestakallinu og sóknum þess, ef um er að ræða embætti sóknarprests eða
prests.
2. Lýsingu á umfangi prestsþjónustunnar, starfsaðstöðu o.fl. er varðar hið kirkjulega starf.
3. Kröfur um sérstaka þekkingu, hæfni eða reynslu, sem leitað er eftir hjá nýjum presti,
s.s. í stjórnun, safnaðarstarfi og/eða sérhæfðri þjónustu.
4. Greiningu á helstu styrkleikum og veikleikum safnaðarstarfsins.
5. Helstu áherslur sóknarnefndar eða héraðsnefndar í safnaðarstarfi næstu fimm árin.
3. gr.
Auglýsing um laust prestsembætti.
Biskup Íslands auglýsir laus prestsembætti í samræmi við ákvæði 39. gr. laga nr. 78/1997.
Við undirbúning auglýsingar skal tekið tillit til þarfagreiningar samkvæmt 2. gr. Í
auglýsingu skal a.m.k. eftirtalið koma fram:
1. Lýsing á prestakallinu og sóknum þess, ef um er að ræða embætti sóknarprests eða
prests.
2. Lýsing á umfangi prestsþjónustunnar, starfsaðstöðu o.fl. er varðar hið kirkjulega starf.
3. Hvort lögð sé sérstök áhersla á hæfni umsækjenda til að sinna tilteknum þáttum
prestsþjónustunnar.
4. Hvort embættið geri kröfu um sérstaka þekkingu eða reynslu svo sem af stjórnarstörfum.