Gerðir kirkjuþings - 01.01.2015, Page 102
102 103
Fjöldi atkvæðisbærra manna miðast við þá sem eru skráðir í þjóðkirkjuna í prestakallinu
samkvæmt þjóðskrá þann dag sem auglýsing um embættið birtist. Lista yfir atkvæðisbæra
skal biskupsstofa afla þann dag sem auglýsing birtist. Atkvæðisbærir eru þeir sem náð hafa
16 ára aldri þann dag sem auglýsing birtist. Ef ágreiningur rís um hvort almenn kosning
eigi að fara fram eða um framkvæmd kosningarinnar að öðru leyti, úrskurðar yfirkjörstjórn
þjóðkirkjunnar þar um, sbr. starfsreglur um kjör til kirkjuþings og þingsköp. Að öðru leyti
gilda ákvæði um kjörstjórn í starfsreglum um kjör til kirkjuþings nr. 301/2013, eins og við
getur átt.
14. gr.
Kjörstjórn við almennar prestskosningar.
Jafnskjótt og biskup hefur fengið í hendur óskir frá lögboðnum fjölda atkvæðisbærra manna
í prestakallinu um almenna kosningu skal hann tilkynna kjörstjórn um framkomnar óskir.
Biskupsstofu er heimilt að gera kröfu um rafræna skrá ásamt undirskriftum. Kjörstjórn
við kirkjuþingskjör, sbr. starfsreglur um kjör til kirkjuþings og þingsköp, er jafnframt
kjörstjórn við almennar prestskosningar. Kjörstjórn er heimilt að fela prófasti eða öðrum
starfsmönnum þjóðkirkjunnar að annast undirbúning og framkvæmd kosningar á ábyrgð
kjörstjórnar. Biskupsstofa lætur kjörstjórn í té nauðsynlega aðstöðu og þjónustu svo
kjörstjórn geti rækt starfa sinn.
15. gr.
Störf kjörstjórnar.
Kjörstjórn ákveður hvenær kosning skuli fara fram og skal hún auglýst með minnst fjögurra
vikna fyrirvara. Kjörstjórn annast prentun kjörseðla. Kjörseðlar skulu vera úr pappír sem
prent eða skrift sést ekki í gegnum. Á þá skal prenta nöfn umsækjenda í stafrófsröð.
Kjörstjórn auglýsir á heimasíðu þjóðkirkjunnar og með öðrum tíðkanlegum hætti,
hvernig, hvenær og hvar kosning skuli fara fram og hverjir séu í kjöri. Kjörstjórn er heimilt
að ákveða að hafa fleiri en eina kjördeild ef aðstæður í prestakalli þykja gefa tilefni til þess.
Kjörstjórn er heimilt að ákveða að kosning verði rafræn og fer þá um framkvæmd
hennar samkvæmt starfsreglum um kjör til kirkjuþings nr. 301/2013.
16. gr.
Kjörskrá.
Kjörstjórn annast gerð kjörskrár í hverri sókn, á grundvelli gagna frá Þjóðskrá Íslands.
Á kjörskrá skal taka þá sem skráðir eru í íslensku þjóðkirkjuna, eiga lögheimili í
prestakallinu og hafa náð 16 ára aldri á þeim degi sem kosning fer fram.
Þegar kjörskrá hefur verið samin skal hún staðfest á fundi kjörstjórnar og undirrituð
af formanni kjörnefndar. Kjörskrá skal liggja frammi á aðgangsstýrðum vef eigi síðar en
þremur vikum fyrir kjördag, þar sem kjósandi getur flett upp hvort hann sé á kjörskrá. Við
aðgangsstýringuna er notuð almenn innskráningarþjónusta s.s. Íslykill Þjóðskrár Íslands.