Dagblaðið Vísir - DV - 12.05.2017, Page 10
10 Helgarblað 12.–15. maí 2017fréttir
L
andhelgisgæsla Íslands er á
engan hátt í stakk búin til að
bregðast við ef alvarlegt slys
verður í skemmtiferðaskipi í
íslenskri lögsögu. Komi upp
eldur þar sem rýma þarf skemmti-
ferðaskip, það siglir á ís og sekkur eða
tekur niðri og strandar geta í verstu
tilfellum liðið allt að 48 klukkustund-
ir þar til varðskip kemst á staðinn.
Líftími fólks sem þarf að yfirgefa slíkt
skip og kemst í gúmbjörgunarbáta
er hins vegar að meðaltali aðeins 24
klukkustundir. Gæslan á tæki og tól
til að bregðast við en skortir sárlega
mannskap og rekstrarfé.
Aldrei fleiri skemmtiferðskip á
leiðinni
Útlit er fyrir komu metfjölda
skemmtiferðaskipa til landsins í ár
og er til að mynda búist við að 155
skip leggi að í Sundahöfn í sumar.
Um borð verða fast að 130 þúsund
farþegar og eru þá ótalin önnur skip
sem hafa viðdvöl annars staðar en í
Reykjavík. Þetta er umtalsverð fjölg-
un frá fyrra ári, sem var metár. Þá
lögðust 113 skip að bakka í Sunda-
höfn með um 100 þúsund farþega.
Komum skemmtiferðaskipa hef-
ur fjölgað jafnt og þétt síðustu ár og
umferð þeirra um íslenska lögsögu
hefur aukist verulega. Á sama tíma
eru íslenskir björgunaraðilar sárlega
vanbúnir til að takast á við alvarleg
óhöpp sem kunna að koma upp í
skipunum.
Gæslan algjörlega vanbúin
Auðunn Kristinsson, verkefnastjóri
á aðgerðarsviði Landhelgisgæslu Ís-
lands, segir stöðuna mikið áhyggju-
efni. „Ef eitthvað alvarlegt kemur fyr-
ir um borð í þessum skipum, ef þau
verða fyrir áföllum og þarf að rýma
þau, höfum við verulegar áhyggjur
af því. Það er alveg ljóst að ef stærri
skemmtiferðaskip lenda í einhverj-
um áföllum, þá ráðum við ekkert
við að rýma þannig skip. Það ræður
engin þjóð á norðurslóðum við slíkt
verkefni ein. Að eiga við slíkt verkefni
myndi alltaf byggja á samstarfi ríkj-
anna. Við höfum verið að samræma
okkur með nágrannaþjóðum okkar
um það hvernig bregðast eigi við at-
vikum af þessu tagi og höfum verið
að styrkja samstarfið þannig að við
eigum möguleika á að kalla eftir að-
stoð þegar á reynir. Við höfum líka ít-
rekað bent stjórnvöldum hér á landi
á að við séum algjörlega vanbúnir í
þetta.“
Þyrlur duga ekki til
Fyrir dyrum stendur að endurnýja
þyrluflota Gæslunnar en Auðunn
segir að verkefni af þessu tagi verði
ekki leyst með þyrlum, þótt þær séu
mikilvægar í björgunar- og sjúkra-
flugi, svo og þegar koma þarf mann-
skap út í skipin. Þegar eitthvað komi
upp á í skemmtiferðaskipum er
stærðargráðan af slíkum skala að
einungis öflug björgunarskip geti
bjargað fólki sem þurfi að yfirgefa
þau. Ísland er einangrað úti í hafi og
næstu nágrannar okkar eru Græn-
lendingar og Færeyingar. Þótt þær
þjóðir séu fámennari en Íslendingar
er ekki þar með sagt að þær geti ekki
orðið að liði. „Í Færeyjum eru alltaf
tvö varðskip til taks, á meðan að við
höfum bara eitt tiltækt á hverjum
tíma. Það er yfirleitt danskt varðskip
þar líka. Svo eru alltaf þrjú til fjögur
dönsk varðskip við Grænland. Það
tekur hins vegar þessi skip einn til
fjóra sólarhringa að komast að Ís-
landsströndum, allt eftir veðri.“
Þyrftu þrjú skip á sjó
Viðbragðstími Gæslunnar í dag, með
eitt varðskip á sjó í 300 daga á ári, get-
ur verið allt að 48 klukkustundir inn-
an efnahagslögsögunnar, frá því út-
kall kemur og þar til skipin komast á
staðinn. „Við höfum bent stjórnvöld-
um á, og kynnt þeim áætlanir, um að
værum við með þrjú skip á sjó næð-
um við hámarksviðbragðstíma nið-
ur í 18 klukkustundir. Miðað við fjár-
málaáætlun til næstu fimm ára þá er
það ekki að fara að gerast, því er nú
verr og miður. Þannig að við sitjum
uppi með allt að 48 klukkustunda
viðbragðstíma á meðan að nýjustu
rannsóknir sýna að líftími fólks sem
þarf að yfirgefa svona farþegaskip og
fara í gúmbjörgunarbát er í kringum
sólarhringur. Þarna munar í verstu
tilfellum kannski 24 klukkutímum
á viðbragðstíma og líklegum líftíma
þeirra sem þurfa björgunar við. Fólk
sem þarf að fara í björgunarbát er
orðið mjög slæpt og komið að dauða
eftir sólarhring, þótt það sé auðvit-
að misjafnt eftir hverjum og einum,“
segir Auðunn og bendir jafnframt á
að í mjög mörgum tilfellum séu far-
þegar á skemmtiferðaskipum eldra
fólk sem oft sé ekki vel á sig kom-
ið líkamlega. Auðunn bendir einnig
á að þótt hér sé rætt um skemmti-
ferðaskip gildi hið sama auðvitað um
þann fjölda fiskiskipa og fraktskipa
sem séu á sjó hér við land.
Takmarkaðar bjargir
Landhelgisgæslan á tilbúnar áætl-
anir og er undirbúin fyrir hvers kyns
atvik í farþegaskipum á sjó, upp að
því marki sem þeirra bjargir leyfa.
Gallinn er bara sá að þær bjargir
eru verulega takmarkaðar. „En svo
við málum þetta nú ekki allt í svört-
um litum er rétt að benda á að mjög
mörg þessara skipa eru vel búin og
vel mönnuð. Við höfum þannig auk-
ið samstarf við útgerðir skemmti-
ferðaskipanna, til að átta okkur á
hvernig þau eru búin og hvaða áætl-
anir séu til þar til að bregðast við vá.
Við höfum verið að reyna að byggja
upp samband við þau þannig að þau
láti vita tímanlega áður en í óefni er
komið, ef eitthvað bjátar á. Þetta hef-
ur gengið mjög vel. Við erum í sam-
bandi við samtök útgerða skemmti-
ferðaskipa á norðurslóðum (AECO),
það eru reyndar útgerðir minni
skemmtiferðaskipa. Við höfum með-
al annars haldið tvær svokallaðar
skrifborðsæfingar með þessum aðil-
um. Þegar hins vegar eitthvað alvar-
legt kemur upp á erum við bara mjög
illa sett.“
Eldur á rúmsjó alltaf
hættulegur
Eldsvoði í skipum á rúmsjó er það
sem Gæslan óttast mest. Skipverjar
sjálfir geta upp að einhverju marki
barist við eld en breiðist hann út er
ekkert annað að gera en að rýma
skipin. „Það sem við höfum verið
að gera í þessum efnum er að auka
samstarf við Slökkvilið höfuðborgar-
svæðisins sem er okkur innan hand-
ar. Í tilfelli eldsvoða myndum við
flytja þeirra mannskap út í skipin,
einkum til reykköfunar, til að hægt sé
að rýma skipin. Við forðumst auðvit-
að út í rauðan dauðann að þurfa að
rýma skip en þegar eldsvoði verður
er oft ekkert annað að gera. Við erum
ekki komnir nógu langt hvað varð-
ar þetta slökkvistarf í skipum, því
miður, og það strandar bara á fjár-
veitingum,“ segir Auðunn og bætir
því við að Gæslan sé í samstarfi við
björgunaraðila nágrannaþjóðanna
um viðbrögð við eldsvoðum, sem og
önnur björgunarstörf. Það eru Dan-
ir, Norðmenn, Færeyingar og upp á
síðkastið einnig Bandaríkjamenn og
Kanadabúar sem þar eru atkvæða-
mestir.
Skemmtiferðaskipin getur þá
einnig tekið niðri og þau strand-
að, þau geta sömuleiðis siglt á ís og
það getur valdið verulegri hættu.
Auðunn segir að á undanförnum
árum hafi komið upp dæmi um að
skip hafi siglt á ís og það valdið tjóni
en þó án þess að skaði hafi hlotist af.
Hann minnir á að árið 1989 sigldi
sovéska farþegaskipið Maxim Gorky
á borgarísjaka í Grænlandshafi. Það
hafi orðið til happs að norska varð-
skipið Senja var skammt undan og
bjargaði um eitt þúsund farþegum
úr skipinu, sem síðan var siglt með
til Svalbarða.
Þyrfti að fljúga með sjúka úr
landi
Þrátt fyrir að Gæslan fari með yfir-
stjórn leitar og björgunar á sjó er
unnið í nánu samstarfi við Almanna-
varnir og björgunarsveitir sökum
þess hversu umfangsmiklar aðgerð-
ir væri um að ræða. „Gefum okk-
ur að svona stórt skemmtiferðaskip
strandi í Jökulfjörðum. Við þyrft-
um þá að koma tvö til þrjú þúsund
manns inn á Ísafjörð þar sem al-
mannavarnir myndu síðan taka við
og koma fólki í skjól eða frá staðn-
um, jafnvel undir læknishendur í
Reykjavík. Í því samhengi má nefna
að verði hópslys á skemmtiferða-
skipi, til að mynda eldsvoði þar sem
margir slasast, brenna eða fá reyk-
eitrun, þá myndu spítalar á Íslandi
mjög fljótt yfirfyllast. Við slíkar að-
stæður yrðu sjúklingar fluttir til ná-
grannaríkjanna. „Það eru samningar
þar um, að tekið yrði við sjúklingum.
Það er tiltölulega fljótlegt að koma
upp loftbrú og í það yrðu bara teknar
farþegaflugvélar.“
Öll skip hluti af viðbúnaðar-
keðjunni
Tugir, ef ekki hundruð, skipa eru á sjó
í kringum landið daglega, bæði fiski-
skip og kaupskip. Þau eru að sögn
Auðuns mikilvægur hlekkur í við-
búnaði gegn vá á sjó. „Á því er hins
vegar sá galli að þau skip eru auðvit-
að ekki búin fyrir þetta. Gefum okkur
að lítið farþegaskip, kannski með 500
farþega, sigli á ísjaka á Grænlandss-
undi. Það er kannski einhver kalda-
skítur í veðrinu og svona. Að flytja
500 manns úr skemmtiferðaskipi og
yfir í togara tekur óratíma og er mjög
flókin aðgerð. Stór hluti farþeganna
er mjög líklega gamalmenni og ekki
vön að standa í neinu af þessu tagi.
Um borð í togurum er vanalega bara
einn svona maður-fyrir-borð-bát-
ur, sem tekur kannski fimm til sex
farþega. Allt þetta tekur því langan
tíma og því algjört lykilatriði að við
komumst á staðinn í varðskipum
sem allra, allra fyrst.“
Tækin til, fjármunirnir ekki
Gæslan býr yfir tækjum og tólum,
þekkingu og áætlunum sem dugað
gætu til að gera stöðuna ásættanlega.
Hins vegar leyfa fjárveitingar ekki að
viðbúnaður sé fullnægjandi, fjarri
því. „Við þyrftum, ef vel ætti að vera,
að vera með öll þessi þrjú varðskip
sem við eigum í fullum rekstri. Það er
ekki flóknara en það, við eigum þrjú
skip en það vantar fjárveitingar fyrir
mannskap og rekstri. Við erum því
að öllu jöfnu ekki með nema eitt skip
á sjó. Hvað varðar flug og björgun
úr lofti, þá erum við með þrjár þyrl-
ur. Samkvæmt alþjóðlegum vinnu-
stöðlum sem tíðkast við leit og björg-
un á hafi þá þyrftum við alltaf að hafa
tvær þyrlur til taks til leitar og björg-
unar á sjó. En við erum bara með
tvær þyrlur til taks hálft árið, því okk-
ur vantar áhafnir. Þetta er bara eins
og með skipin, okkur vantar fjár-
muni í rekstur. Tækin eru til. Þetta er
bara staðan, það vantar mannskap.“
Hættan er raunveruleg
Auðunn segir að enn sem komið er
hafi skemmtiferðaskip ekki orðið
fyrir stórfelldu óhappi við Íslands-
strendur. Sú hætta sé hins vegar
raunveruleg, til staðar, og með tíðari
komum slíkra skipa aukist hún.
„Þetta er okkar helsta martröð, það
er bara þannig.“ n
Landhelgisgæsluna vantar fjármagn til að geta tekist á við slys í skemmtiferðaskipum„Við erum ekki
komnir nógu langt
hvað varðar þetta slökkvi-
starf í skipum, því mið-
ur, og það strandar bara á
fjárveitingum
Gæslan vanbúin Lendi skemmtiferðaskip í alvarlegum óhöppum ræður Landhelgis-
gæslan ekki ein við björgunaraðgerðir. Til þess skortir hana fjármuni og mannafla, þótt tæki
og tól séu til. DV SiGTryGGur Ari
Hafís gæti valdið háska Komi til þess að rýma þurfi skemmtiferðaskip eftir árekstur
við borgarísjaka getur viðbragðstími varðskipa verið allt að 48 klukkustundir. Meðal líftími
þeirra sem þurfa að fara í gúmbjörgunarbáta er um 24 klukkustundir. MynD LHG
Þyrfti þrjú skip á sjó Ef vel ætti að vera þyrftu öll þrjú
varðskip Gæslunnar að vera á sjó. Sú er ekki raunin þar eð
ekki fæst fjármagn frá ríkinu til rekstrar. DV SiGTryGGur Ari
„Okkar
helsta
martröð“
Freyr rögnvaldsson
freyr@dv.is