Morgunblaðið - 21.09.2017, Blaðsíða 28
28 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 21. SEPTEMBER 2017
SVIÐSLJÓS
Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Í dag, 21. september, eru liðin ná-
kvæmlega 40 ár síðan Ísland lék
landsleik í knattspyrnu gegn Norð-
ur-Írum í Belfast. Írarnir voru
miklu betri í þessum leik og unnu
2:0. En leikurinn var fyrst og fremst
sögulegur fyrir þær sakir að þetta
var síðasti landsleikurinn sem goð-
sögnin George Best lék fyrir
Norður-Írland. Hann hafði ekki
spilað landsleik í Belfast í sjö ár og
því var leikurinn helsta fréttaefnið á
Norður-Írlandi þessa vikuna. Best
var fæddur í Belfast og eftirlæti
borgarbúa og reyndar þjóðarinnar
allrar.
Greinarhöfundur fór til Belfast
fyrir hönd Morgunblaðsins til þess
að skrifa um leikinn. Það sem stend-
ur upp úr í minningunni, auk George
Best að sjálfsögðu, er stríðsástandið
sem ríkti í borginni. Deilur sam-
bandssinna og sjálfstæðissinna
þekkja allir og ástandið var sérstak-
lega viðkvæmt þetta haust 1977.
Hluti borgarinnar var í rúst og her-
menn með alvæpni á hverju strái.
Hvergi annars staðar hef ég upp-
lifað það að gista á hóteli þar sem
hermenn með vélbyssur stóðu vörð í
anddyrinu.
Leikurinn fór fram á aðal-
leikvangi Belfast, Windsor Park.
Áhorfendur voru 17 þúsund talsins,
helmingi fleiri en búist var við.
Þarna gerði nærvera George Best
gæfumuninn. Í hvert skipti sem
hann fékk boltann var því fagnað
gríðarlega.
„Einstefna í Belfast“
Fyrirsögnin á frétt greinarhöf-
undar í Morgunblaðinu daginn eftir
sagði allt sem segja þurfti: Ein-
stefna í Belfast. Góð frammistaða
varnarleikmanna kom í veg fyrir að
N-Írar skoruðu nema tvö mörk.
Fyrir leikinn var landsliðsþjálf-
arinn Tony Knapp í vanda. Sjö leik-
menn vantaði frá síðasta leik á und-
an, þar á meðal okkar langbesta
mann, Ásgeir Sigurvinsson, og
Knapp þurfti að leggja áherslu á
varnarleik. Norður-Írarnir sóttu
grimmt og íslenska liðið komst
sjaldan fram fyrir miðju. Þegar það
gerðist hækkaði Hermann Gunn-
arsson róminn, en hann lýsti leikn-
um í Ríkisútvarpinu. Þetta þótti
írsku blaðamönnunum athyglisvert.
„Ekki leikur á tveimur tungum að
Jóhannes Eðvaldsson var áberandi
besti leikmaður íslenska liðsins, ef
ekki besti maður vallarins,“ sagði í
lýsingu blaðamanns í Morgun-
blaðinu. Þá fengu Sigurður Dagsson
og Jón Gunnlaugsson einnig hrós.
Var það skoðun blaðamanns að Jón
ætti betur heima á vellinum en vara-
mannabekknum.
Auk George Best voru nokkrir
þekktir kappar í liði Norður-Íra. Má
þar nefna Pat Jennings markvörð
Arsenal/Tottenham, Martin O’Neill
hjá Notthingam Forest og leikmenn
Manchester United, þá Jimmy Nich-
oll, Chris McCrath og Sammy
McIlroy. Þeir tveir síðarnefndu
skoruðu mörkin tvö í leiknum.
Eftir leikinn fengu blaðamenn að
hitta leikmenn í búningsklefunum.
(Þetta var áður en nútímavalla-
stjórar tóku völdin.) Ég tók stutt
spjall við Best, sem var afar við-
kunnanlegur og án allra stjörnu-
stæla. Hann var ánægður með írska
liðið sem hefði átt að skora fleiri
mörk en kvaðst sjálfur ekki vera í
nógu góðu formi. Best hrósaði ís-
lensku vörninni og sérstaklega Jó-
hannesi Eðvaldssyni, sem hefði ver-
ið algjör klettur í vörninni. „Ég vissi
fyrirfram að það yrði erfitt að kom-
ast framhjá honum,“ sagði Best eftir
leikinn.
George Best er frægasti knatt-
spyrnumaður Norður-Írlands. Hann
var lykilmaður í liði Manchester
United og lék stórt hlutverk í sigri
liðsins í Evrópukeppni meistaraliða
árið 1968 þegar United varð Evr-
ópumeistari fyrst enskra liða. Í kjöl-
farið var hann kjörinn knattspyrnu-
maður ársins í Evrópu, 22 ára
gamall. Best lék með United frá
1963 til 1974 og varð enskur meistari
1965 og aftur tveimur árum síðar.
Lokaleikur hans með félaginu var á
nýársdag 1974 en eftir það var hann
látinn fara vegna óreglu. Hann spil-
aði næstu árin með mörgum liðum í
Englandi, Írlandi, Skotlandi og
Bandaríkjunum án þess að festa
rætur. Alls lék hann 604 leiki og
skoraði 239 mörk. Hann lék aðeins
39 landsleiki og skoraði níu mörk.
Best þótti sannkallað undrabarn í
knattspyrnunni og er talinn einhver
leiknasti fótboltamaður sögunnar.
Líf hans var ávallt markað af óhóf-
legri áfengisneyslu og vandamálum
sem henni tengdust. Hann lést 25.
nóvember 2005 eftir langvarandi
veikindi. Hann var 59 ára gamall.
„Stórkostlegur leikmaður“
„Hann var stórkostlegur leik-
maður, einn sá allra besti fyrr og síð-
ar. Hann var líka yndisleg persóna í
alla staði,“ sagði sir Alex Ferguson,
knattspyrnustjóri Manchester Unit-
ed, eftir að Best féll frá.
Árið 1982 kom George Best
til Íslands í boði knatt-
spyrnudeildar Vals að frum-
kvæði Halldórs Einarssonar í
Henson og Baldvins Jóns-
sonar. Hann lék hér
tvo leiki, með Val
og KA, á móti liði
fyrrverandi fé-
lags síns Man-
chester Unit-
ed.
Kveðjuleikur George Best
Í dag eru nákvæmlega 40 ár síðan George Best spilaði sinn síðasta landsleik, gegn Íslandi í Belfast
Einn mesti snillingur knattspyrnusögunnar Líf hans var markað af óhóflegri áfengisneyslu
AP símamynd
Landsleikurinn Sigurður Dagsson bjargar meistaralega í leiknum í Belfast, einu sinni sem oftar. Trevor Anderson
(Swindon) sækir að markinu og lengst til vinstri er Jóhannes Eðvaldsson. Þetta var síðasti landsleikur Sigurðar.
George Best Einn þekktasti knattspyrnumaður sögunnar. Bæði fyrir leikni
sína á vellinum og villt líferni. Hann var og er þjóðhetja á Norður-Írlandi.
Landslið Íslands
» Sigurður Dagsson, Viðar
Halldórsson, Janus Guðlaugs-
son, Jón Gunnlaugsson, Mar-
teinn Geirsson, Jóhannes Eð-
valdsson, Guðgeir Leifsson,
Atli Eðvaldsson, Matthías Hall-
grímsson, Ásgeir Elíasson, Árni
Sveinsson, Kristinn Björnsson
(varamaður) og Ólafur Dani-
valsson (varamaður).
„Þessi leikur var auðvitað mikil
upplifun fyrir mig því ég hef
alltaf verið United-maður og
George Best var átrúnaðargoð
hjá mér,“ segir Skagamaðurinn
Jón Gunnlaugsson þegar hann
rifjar upp þennan leik.
„Menn voru auðvitað spennt-
ir að spila gegn þessum heims-
fræga leikmanni og jafnframt
urðum við kannski fyrir von-
brigðum með getuna. Hann var
greinilega ekki í góðu formi og
ekkert sérstakur í leiknum,“
segir Jón.
Um leikinn sjálfan í Belfast
segir Jón: „Þetta var týp-
ískur leikur eins og þeir
voru á þessum árum.
Áherslan var lögð á að
vörnin héldi og sókn-
arleikurinn var tilvilj-
anakenndur. Það má
ekki gleyma því
að Norður-Írar
voru með frá-
bært lið á
þessum árum.“
Spenntir að
mæta Best
JÓN GUNNLAUGSSON
Jón Gunnlaugsson
NICOTINELL LYFJATYGGIGÚMMÍ
Ertu að hætta að reykja?
Veistu hvaða bragðtegund hentar þér?
Nicotinell Classic/Mint/Fruit/Lakrids/IceMint/Spearmint lyfjatyggigúmmí, Nicotinell Mint munnsogstöflur, Nicotinell forðaplástur. Inniheldur nikótín. Til meðferðar á tóbaksfíkn. Lesið vandlega upplýsingar á umbúðum og fylgiseðli fyrir notkun lyfsins. Leitið til læknis
eða lyfjafræðings sé þörf á frekari upplýsingum um áhættu og aukaverkanir. Sjá nánari upplýsingar um lyfið á www.serlyfjaskra.is.