Morgunblaðið - 05.10.2017, Síða 80
80 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 5. OKTÓBER 2017
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
„Það er stórkostlegt að fá að vera
ólíkindatól, því maður fær það ekki á
hverjum degi,“ segir Jón Svavar
Jósefsson barítón sem fer með hlut-
verk ólíkindatóls í tónleikhúsverkinu
Annarleikur eftir Atla Ingólfsson
sem flutt verður í Hafnarborg bæði
laugardag og sunnudag um komandi
helgi kl. 18 báða daga. Jón Svavar
túlkaði sama hlutverk þegar verkið
var frumflutt fyrir fimm árum hjá
Cinnober-leikhúsinu í Gautaborg í
leikstjórn Svante Aulis Löwenborg,
sem er dramatúrg íslensku upp-
færslunnar. Þá var verkið flutt á
sænsku og hlutverk Jóns Svavars
nefnt „vocalist“ eða raddlistamaður,
en varð að ólíkindatóli í íslenskri
þýðingu Atla á textanum, sem
norska leikskáldið Finn Iunker
samdi.
Syngur aríu með munninn
fullan af vatni
Að sögn Jóns Svavars gefst hon-
um í hlutverki ólíkindatólsins tæki-
færi til að framkalla allt annars kon-
ar hljóð en sem óperusöngvari. „Á
einum kafla er ég kontrabassi, á öðr-
um stað syng ég í falsettu, ég blístra,
jóðla og syng óperuaríu með munn-
inn fullan af vatni,“ segir Jón Svavar
og tekur fram að hann þurfti að
gæta þess vandlega að svelgjast ekki
á í þeim söng. „Það er ótrúlega gam-
an að taka þátt í þessu verki, sem er
ekki bara skemmtilegt heldur líka
einstaklega fallegt. Það hvernig Atli
skrifar fyrir barnakórinn er unaður
og við hlökkum til að flytja verkið á
Íslandi og vonumst til að sjá sem
flesta tónlistarunnendur,“ segir Jón
Svavar. Með honum stíga á svið leik-
ararnir Álfrún Helga Örnólfsdóttir
og Arnar Dan Kristjánsson, hljóð-
færaleikaranir Anna Petrini á blokk-
flautu, Kristín Þóra Haraldsdóttir á
víólu, Frank Aarnink á slagverk og
Katie Buckley á hörpu og Stúlkna-
kór Reykjavíkur sem Margrét
Pálmadóttir stofnaði en Sigríður
Soffía Hafliðadóttir og Guðrún Árný
Guðmundsdóttir stjórna.
Börn fordómalaus gagnvart
tónleikhúsforminu
„Þegar ég kynntist Jóni Svavari
uppgötvaði ég hvers lags hljóðfæri
hann er. Hann var allur af vilja gerð-
ur að gera allt sem ég þurfti fyrir
hlutverkið,“ segir tónskáldið Atli
Ingólfsson og tekur fram að rödd
Jóns Svavars fái einnig að njóta sín á
sviðinu sem venjuleg óperusöngrödd
í einum eða tveimur númerum. Sýn-
ingin er rétt rúmur klukkutími í
flutningi án hlés og hugsuð fyrir alla
frá sjö ára aldri og upp úr.
„Við viljum mjög gjarnan fá börn
á sýninguna, því þau eru svo opin
fyrir tónleikhúsforminu. Þau þurfa
ekki rökréttan texta með línulegri
frásögn. Þau þurfa bara form, eitt-
hvað sem geislar út frá sér. Börnin
hafa enga fordóma um hvað sé hefð-
bundið form og hvað ekki,“ segir Atli
og bendir á að Finn Iunker noti
persneska dæmisögu til að fjalla
m.a. um hagkerfið og vatn sem auð-
lind. Segir hann leikskáldið reyna að
fá fólk til að hugsa með því að varpa
fram óteljandi spurningum án þess
með neinum hætti að predika yfir
áhorfendum.
Snýst um að stoppa tímann
Spurður nánar um tónleikhús-
formið tekur Atli fram að það sé ekki
það sama og ópera. „Orðið tónleik-
hús felur ekki í sér eitt ákveðið form.
Tónleikhúsformið snýst, eins og
óperan, um það að stoppa tímann og
leika sér með hann. Það myndi hins
vegar vekja falskar vonir að kalla
tónleikhúsverk óperu. Tónleik-
húsverk innihalda eins konar aríur,
en það er langt í frá að allur textinn
sé sunginn. Í Annarleik er stór hluti
textans talaður, en hann er alltaf í
samtali við músík, af því það er mús-
ík í kring, músík með og hann breyt-
ist í músík. Tónleikhúsið reiðir sig
ekki eingöngu á textann. Formið
verður til úr samspili texta, tónlistar
og sviðsetningar og þess vegna
finnst mér mikilvægt að textinn sé
ekki of auðskilinn eða línulegur. Það
verður að vera texti sem þolir viðbót
frá öðrum elementum,“ segir Atli og
rifjar upp að hann hafi skrifað grein
um óperu- og tónleikhúsformið sem
birtist í tímaritinu Skírni í fyrra.
Margar fleiri hugmyndir
Á morgun kl. 12.45 heldur Atli op-
inn fyrirlestur í stofu 633 í húsnæði
Listaháskóla Íslands í Skipholti 31
þar sem hann kynnir tónleikhús-
formið og fjallar um hvernig hann
byggði Annarleik upp, en Atli er
prófessor í tónsmíðum við tónlistar-
deild Listaháskólans.
„Ég kann enga einfalda skýringu
á því,“ segir Atli þegar hann er
spurður hvers vegna ekkert tónleik-
húsverk hans hafi ratað á svið hér-
lendis á íslensku þar til nú. Bendir
hann á að það sé fjárhagslega dýrt
að setja slík verk upp. „Það reyndist
okkur sem stöndum að sýningunni
ofviða fjárhagslega að setja Annar-
leik upp í leikhúsi með fullum ljósum
og sviðsmynd. Í Hafnarborg setjum
við verkið upp eins og torgleikhús.
Stjórnendur Hafnarborgar, lista-
safns Hafnarfjarðar, hafa sýnt okk-
ur mikinn stuðning og koma að upp-
setningunni sem samstarfsaðilar,“
segir Atli og bendir á að uppfærslan
sé einnig unnin í samstarfi við
Cinnober-leikhúsið sem leggi t.d. til
búningana úr upphaflegu uppfærsl-
unni.
Cinnober-leikhúsið hefur á síð-
ustu árum sett upp þrjú tónleikhús-
verk Atla. Spurður hvort hann sé
með fleiri slík verk í smíðum svarar
Atli: „Ég er með margar hugmyndir
að fleiri verkum og er alls ekki hætt-
ur að semja tónleikhúsverk. Greinin
í Skírni í fyrra er stefnuyfirlýsing
mín sem tónskáld og gefur til kynna
að mig langar að halda áfram að
semja tónleikhúsverk ef aðstæður
leyfa. Ég hef hins vegar ekki efni á
að semja fyrir skúffuna,“ segir Atli
sem semur hljómsveitartónlist sam-
hliða störfum sínum sem prófessor
við Listaháskólann.
Þess má að lokum geta að miðar
eru seldir á tix.is og við innganginn.
Aðeins verða þessar tvær sýningar.
„Stórkostlegt að vera ólíkindatól“
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Sköpun Atli og Jón Svavar fremstir fyrir miðju ásamt Stúlknakór Reykjavíkur, leikurum og hljóðfæraleikurum.
Tónleikhúsverkið Annarleikur eftir
Atla Ingólfsson sýnt í Hafnarborg
MyndlistarmaðurinnTouko Laaksonen, bet-ur þekktur sem Tom ofFinland, var einhver
mesti áhrifavaldur í menningu sam-
kynhneigðra sem uppi hefur verið.
Teikningar hans sýna oftast nær ít-
urvaxna karlmenn (sem eru hvað ít-
urvaxnastir neðan beltis), íklædda
leðurklæðnaði eða einkennisbún-
ingum, í eggjandi stellingum eða
kynlífsathöfnum. Myndir hans voru
einkar mótandi í tísku og klæða-
burði, sér í lagi innan blætismenn-
ingar, og fullyrða má að hann beri að
miklu leyti ábyrgð á ímynd þekktra
listamanna eins og Village People og
Freddie Mercury.
Kvikmyndin Tom of Finland er
leikin mynd sem segir ævisögu
þessa merka manns. Hún hefst á
stríðsárunum þar sem Touko Laaks-
onen berst með finnska hernum
gegn Sovétmönnum. Þar gerist ým-
islegt sem hefur áhrif á hann og
myndlist hans þegar á líður. Að
stríðinu loknu hefur hann störf sem
teiknari hjá auglýsingastofu og býr
ásamt systur sinni. Það gefur auga-
leið að á þessum tíma var samkyn-
hneigð alls ekki viðurkennd og það
sem meira er, hún var harðbönnuð
með lögum og finnsk lögregla var
sérstaklega vægðarlaus gagnvart
samkynhneigðum. Touko þarf því að
fara leynt með kynhneigð sína, hann
á nafnlaus skyndikynni með karl-
mönnum í almenningsgörðum og
teiknar myndirnar sínar í skjóli næt-
ur og felur fyrir systur sinni.
En Touko vill ekki hírast (hýrast?)
í myrkrinu, hann vill lifa frjáls og að
sýna heiminum myndirnar sínar.
Hann endar því á að senda mynd-
irnar til Bandaríkjanna, undir dul-
nefninu Tom, í von um að fá þær
birtar. Þar í landi er erótískt efni
fyrir karlmenn ekki ólöglegt, teikn-
ingar Tom of Finland slá í gegn og
hann verður heimsþekktur.
Þótt kvikmyndin segi sögu Touko
Laaksonen þá segir hún líka sögu
samkynhneigðra karlmanna. Það er
sýnt hvernig lögmálin voru þegar
hann var ungur maður, þegar allt
var leynilegt og menn fengu ekki að
vera þeir sjálfir nema fyrir luktum
dyrum eða í háleynilegum heima-
boðum. Við sjáum svo hvernig málin
þróast eftir því sem á líður, hvernig
viðurkenningin verður meiri og
hvernig hún tekur svo bakslag þegar
HIV-faraldurinn brýst út. Þessari
miklu sögu er snyrtilega fléttað inn í
myndina og gefur henni aukna dýpt.
Myndin gerist á nokkrum tíma-
plönum, hún er sem sé ekki alveg í
línulegri tímaröð. Þetta gengur
ágætlega upp en endrum og sinnum
fannst mér ekki alveg nógu mjúk-
lega skipt á milli. Þá er stundum, að-
allega í byrjun myndarinnar, farið
afar hratt yfir sögu og klippingar
milli atriða harkalegar þannig að
maður varð svolítið ringlaður.
Það er sami leikarinn, Pekka
Strang, sem leikur Touko alla mynd-
ina og hann leikur hann prýðilega.
Þar sem sagan gerist yfir margra
áratuga tímabil gefur augaleið að
það þarf að sminka hann svo hann
líti út fyrir að vera ýmist yngri eða
eldri en hann er. Sminkið er svolítið
yfirdrifið og gervilegt, sérstaklega
þegar hann er orðinn gamall, en það
truflar upplifunina ekki ýkja mikið.
Tom of Finland er mynd sem seg-
ir ekki einungis sögu merks lista-
manns heldur sögu samfélags. Takt-
urinn í frásögninni er þéttur, mynd-
in er á átakanleg á köflum en fyrst
og fremst er hún bráðskemmtileg. Í
anddyri Háskólabíós stendur líka yf-
ir sýning á verkum meistarans, sem
er mjög gaman að skoða að glápinu
loknu.
List og leðurklæddir hommar
Þokkafullur Úr finnsku kvikmyndinni Tom of Finland sem rekur merkilega sögu Touko Laaksonen.
Háskólabíó
Tom of Finland bbbbn
Leikstjórn: Dome Karukoski. Handrit:
Aleksi Bardy. Kvikmyndataka: Lasse
Frank Johannessen. Klipping: Harri Ylö-
nen. Aðalhlutverk: Pekka Strang, Lauri
Tilkanen, Jessica Grabowsky, Taisto
Oksanen. 115 mín. Finnland, 2017.
Sýnd á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í
Reykjavík, RIFF.
BRYNJA
HJÁLMSDÓTTIR
KVIKMYNDIR