Morgunblaðið - 13.10.2017, Blaðsíða 31

Morgunblaðið - 13.10.2017, Blaðsíða 31
MINNINGAR 31 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 13. OKTÓBER 2017 og aftur hversu vænt Sigurgeiri þótti um Nesið sitt og hvað það skipti hann miklu máli að hugsað væri til framtíðar þess. Ég færi fjölskyldu Sigurgeirs innilegar samúðarkveðjur á sorg- arstundu. Blessuð sé minning mæts manns. Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri. Ég átti vin. Vináttan hafði staðið í rúma hálfa öld. Ungir fluttum við með fjölskyldur okkar í lítið, fámennt og fátækt hreppsfélag. Fengum notið þess sameiginlega að sjá það sveitarfélag vaxa og eflast og í dag er það eitt sterkasta og blómlegasta bæjarfélag landsins. Fljótt stefndum við að lægstu opinberum álögum á einstak- lingana. Láta þá sem teknanna afla hafa sem mest fyrir sig og sína á kostnað bæjarsjóðs. Að setja einstaklingana ávallt í önd- vegi. Þetta vildi fólkið, enda Sjálfstæðisflokkurinn haft hér óslitinn meirihluta í meira en sex- tíu ár. Slíkt hefur engum öðrum flokki á Íslandi tekist. Bærinn okkar tók að blómgast, Sigurgeir hélt aðdáunarlega vel um tekjur bæjarfélagsins og það svo að hann vildi helst aldrei taka lán. Eiga helst ávallt fyrir fram- kvæmdum. Sjálfur átti hann setu í bæjarstjórn og sem bæjarstjóri lengst allra manna sem gegnt hafa slíkum störfum, eða í tæp fjörutíu ár. Það voru forréttindi að fá að starfa með honum. Í dag hefur hann kvatt, en störf hans og verk munu lifa svo lengi sem byggð heldur. Sjálfur sagði Sigurgeir að hann vissi ekki til að hann ætti óvini eftir þessi löngu störf á pólitískum vett- vangi. í mótun bæjarfélagsins vorum við ekki alltaf sammála um málefni, en einlæg vinátta brást aldrei og styrktist með ár- unum. Nú er hann horfinn, meira að starfa Guðs um geim. Ég sakna hans sárt en kveð hann í þeirri bjargföstu vissu að vinir muni hittast að nýju. Meistarinn mikli sagði: „Ég lifi og þér munuð lifa.“ Í þeirri vissu bið ég að mínum einstaka góða vini verði hvíldin vær. Magnús Erlendsson. Ég sat með Sigurgeiri í stjórn Sambands íslenskra sveitarfé- laga frá 1986-1990, en þá hafði hann setið í stjórninni frá 1978. Örlögin höguðu því þannig að ég tók við formennsku þar haustið 1990. Á næstu 16 árum í því starfi var samstarf okkar Sigurgeirs náið. Hann gegndi áfram trúnað- arstörfum fyrir sambandið og á þessum tíma átti ég ávallt gott samstarf við Sigurgeir. Ég leitaði oft ráða hjá honum, sem reyndust mér vel. Allt sem hann gerði og ráðlagði öðrum var unnið af full- um heilindum. Sigurgeir var sveitarstjóri og síðar bæjarstjóri á Seltjarnarnesi í 37 ár, lengur en nokkur annar hefur gegnt sambærilegu starfi. Hann stýrði sveitarfélagi sínu af festu, einurð og heiðarleika þann- ig að eftir var tekið. Sigurgeir hafði góða lund, var ávallt glaður og jákvæður og í návist hans leið mér vel. Það var gott að eiga Sigurgeir að vini. Þegar pólitíkinni svokall- aðri sleppti og við ræddum allt önnur mál var hann einstaklega gjafmildur á skoðanir sínar og viðhorf til margra mála. Mér fannst í raun Sigurgeir aldrei vera sérstaklega upptekinn af því að vera stjórnmálamaður. Hann var fyrst og fremst góður maður, vinur vina sinna, hjálpsamur og vildi ávallt gera þeim sem leituðu til hans gott eitt. Skipti þá ekki máli í hvaða stjórnmálaflokki við- komandi var. Hann lét gott af sér leiða og var hreinn og beinn í samskiptum við samferðamenn sína. Eiginkona Sigurgeirs, Sigríð- ur Gyða Sigurðardóttir myndlist- arkona, sem lést árið 2002, var stoð hans og stytta í lífi og starfi. Missir hans var því mikill þegar hún lést. Að leiðarlokum er mér efst í huga vinátta og þakklæti fyrir samfylgd okkar í fjölmörgum baráttumálum fyrir sveitarfélög- in í landinu. Ég þakka honum samstarfið á mikilvægum tímum í sögu Sam- bands íslenskra sveitarfélaga og fyrir hans framlag á þeim vett- vangi. Við Guðrún sendum fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Sigurgeir Sigurðsson var lit- ríkur félagsmálamaður og fór ekki ævinlega alfaraleiðir í stjórnmálum. Samstarf minni- og meirihluta í bæjarstjórn gat orðið storma- samt. Eitt sinn bar það við að harðar deilur urðu milli meiri- hluta bæjarstjórnar og félags- málaráðs vegna hækkunar leik- skólagjalda. Óskuðum við eftir að fá að hljóðrita umræðurnar á bæjarstjórnarfundi og veitti varaforseti okkur heimild til þess þar sem ekki náðist í forseta bæj- arstjórnarinnar. Þegar umræðan hófst rétti ég upp lítinn hljóðrita og var snar- lega gert hlé á fundinum. Spurði forseti hvort ég væri að hljóðrita í heimildarleysi, en ég sagði sem var og staðfesti varaforseti orð mín. Var svo fundi haldið áfram um sinn. En skyndilega stöðvaði for- seti fundinn og tilkynnti að hætti ég ekki þessum hljóðritunum yrði hann að vísa mér af fundi. Stóð ég þegar upp og gekk á dyr. Talsverð eftirmál urðu af þess- um atburði og kenndi ég Sigur- geiri um allt saman. Þremur árum síðar gengum við Elín Árnadóttir í hjónaband. Þar sem við Sigurgeir töluðumst ekki við sendi hann foreldrum hennar heillaóskaskeyti vegna giftingar dóttur þeirra og tengdasonar. Skömmu síðar hittumst við í háloftunum, hann á leið á fund í Portúgal og við Elín á fund í Madríd. Tókum við tal saman og urðum góðir kunningjar upp frá því. Sagði Sigurgeir mér síðar að hann hefði varað forseta við brottrekstrinum en hann ekki hlítt ráðum sínum. Sigurgeir var mikill sagna- maður og fór stundum frjálslega með staðreyndir ef honum þóttu þær skemmtilegri en veruleikinn. Einu sinni spurði ég hann hvaðan hann hefði þá fásinnu að Bæjar- félag Seltjarnarness hefði mis- notað aðstöðu sína til þess að funda í skólum bæjarins. Ekki stóð á svarinu: „Nú, þú sagðir mér þetta sjálfur!“ Sigurgeir var margfróður, ræðinn og skemmtilegur. Kynnt- ist ég því þegar þrír fulltrúar bæjarstjórnar fóru á vináttu- bæjaþing í Finnlandi. Talaði hann við alla og breytti norrænu máli sínu svo að flestir skildu. Síðasta kvöldið reyndum við að útskýra fyrir Finna nokkrum sem talaði afar litla ensku hvern- ig stjórnmálum væri háttað á Nesinu. „I am in the right party and he is on the left,“ svaraði Sig- urgeir. Finninn brosti innilega og hrópaði: „So you are on the right side!“ „Yes, I am always right and he is always wrong,“ svaraði Sigur- geir og hlógu menn að. Sigurgeir iðkaði opna stjórn- sýslu og hafði ævinlega opið inn á skrifstofu sína. Veitti hann öllum viðtal sem eftir því sóttust. Árið 2006 gerði ég útvarps- þáttinn 40 ára farsæld þar sem fjallað var um ævi og störf Sig- urgeirs. Vildi hann að samherjar sínir og andstæðingar fengju að segja kost og löst á sér og sam- þykkti ég það. Frásögn Sigur- geirs var hins vegar svo sérstök og vel flutt að ég baðst undan því að fá samherja og andstæðinga hans til að leggja mat á lífshlaup- ið. Féllst hann á það. Þáttinn finna menn á heima- síðunni hljod.blog.is. Við hjónin vottum fjölskyldu Sigurgeirs einlæga samúð okkar og þökkum jafnframt farsæla samferð. Arnþór Helgason. Góður félagi og traustur sam- herji, Sigurgeir Sigurðsson, er fallinn frá. Ég átti því láni að fagna að kynnast þeim heiðurs- manni fyrir rúmum þremur ára- tugum, þegar leiðir okkar lágu saman á vettvangi sveitarstjórn- armála. Þar vorum við nánir sam- verkamenn og var bæði uppörv- andi og lærdómsríkt að stíga fyrstu sporin með reynsluboltan- um í röðum bæjarstjóra. Sigurgeir kom víða við í störf- um sínum, hafði mörg járn í eldi og hamraði þau af einurð og list. Hann varði miklum tíma til starfa í annarra þágu og áttu störf hans á þeim vettvangi djúpar rætur í umhyggjusemi, sem var svo rík í fari hans og setti raunar einnig sterkt svipmót á öll hans störf. Návist hans var í senn til gagns og ánægju. Þess fengu margir að njóta og þess er og verður mörg- um ljúft að þakka og minnast. Störf á vettvangi stjórnmál- anna geta verið viðsjárverð eins og dæmin sanna. Þeir sem gefa sig til slíkra verka gera það gjarnan af hugsjón, telja sig geta haft gott fram að færa og eru jafnan tilbúnir til þess að leggja allan kraft í að fylgja hugsjónum sínum eftir – samferðamönnum og samfélaginu til hagsbóta. Þeir sem veljast svo til forystu þurfa þar að auki að geta sameinað krafta samherjanna. Þar var Sig- urgeir á heimavelli og þekki ég fáa sem sloppið hafa jafnvel við brunasár úr eldi stjórnmálanna. Sigurgeir helgaði sig verkefn- um á vettvangi sveitarfélaga lengstan hluta starfsævinnar. Auk starfa sinna hjá Seltjarnar- nesbæ um tæplega fjörutíu ára skeið var hann í framvarðarsveit Sambands íslenskra sveitarfé- laga og í forystu þess um árabil. Á þeim tíma gengu sveitarfélögin í gegnum eitt mesta umbótaskeið í sögu sveitarstjórna á Íslandi, þegar umfangsmiklar breytingar voru gerðar á tekjustofnum sveitarfélaga og verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Þar átti Sigurgeir stóran þátt og hafði forystu um að fylgja hags- munum sveitarfélaganna eftir af festu og sanngirni. Hann setti sannarlega svip á sína samtíð, vinnusamur og heilsteyptur hæfi- leikamaður, sem lagði alúð við hvert sinna smæstu verka. Sannfæringarkraftur og sam- skiptahæfni Sigurgeirs voru ein- stök. Hann náði góðu sambandi við alla þá sem með honum unnu; félaga sína í röðum sveitarstjórn- armanna, viðsemjendur sína í verkalýðshreyfingunni, embætt- ismenn í stjórnsýslunni og stjórnmálamenn. Hann kom sjónarmiðum sínum vel til skila og var hlýleiki í viðmóti áberandi eiginleiki í dagfari og umgengni hans við hvern og einn. Sigurgeir gat verið fastur á sínu en jafn- framt var hann óvenjulunkinn við að semja til sátta. Hann hafði góða nærveru, var þeirrar gerðar að geta laðað saman ólíkar stefn- ur og hugmyndir og fann ávallt það mið, sem var flestum fyrir bestu. Þess vegna átti hann virð- ingu og traust þeirra sem honum kynntust, sama hvar í flokk þeir skipuðu sér. Ekki verður Sigurgeirs minnst án þess að minnst verði eigin- konu hans, Sigríðar Gyðu Sigurð- ardóttur, sem lést um aldur fram fyrir um fimmtán árum. Nú á kveðjustund leita á hugann fjöl- margar minningar um ánægjuleg samskipti og skemmtilegar sam- verustundir með þeim heiðurs- hjónum. Við leiðarlok þakka ég Sigur- geiri traust og gott samstarf, ómetanlega viðkynningu og ein- læga vináttu. Samúðarkveðjur færi ég fjölskyldu hans með ósk um farsæld um ókomin ár. Minn- ingin um gott og farsælt æviskeið mun lengi lifa. Ingimundur Sigurpálsson. Sigurgeir Sigurðsson, fyrrver- andi bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, er fallinn frá. Sigurgeir var kos- inn í hreppsnefnd Seltjarnarness árið 1962 og síðan ráðinn sveit- arstjóri árið 1965. Árið 1974 fékk Seltjarnarneshreppur kaupstað- arréttindi og varð Sigurgeir þá bæjarstjóri og gegndi því emb- ætti til ársins 2002. Hann var far- sæll í starfi og vinsæll af sveit- ungum sínum. Við Sigurgeir áttum langt og farsælt samstarf í bæjarstjórn, þótt ekki værum við flokksbræð- ur, en samstarf okkar stóð í 16 ár. Milli okkar, sem og annarra bæj- arfulltrúa, ríkti traust og vinátta sem gerði okkur kleift að starfa saman að framfaramálum, þótt tekist væri á um mál þegar það átti við. Til dæmis treysti Sigur- geir mér fyrir uppsetningu fjár- hagsáætlana bæjarins af þeirri einföldu ástæðu að milli okkar ríkti traust og ég kunni að nota excel á undan öðrum. Sigurgeir missti mikið þegar eiginkona hans, Sigríður Gyða, féll frá langt fyrir aldur fram og sá missir var ekki aðeins hans heldur okkar allra, því Sigríður Gyða var dáður listamaður og myndir hennar skreyta mörg heimili á Seltjarnarnesi og víðar. Á þeim árum sem Sigurgeir var fyrst sveitarstjóri og síðan bæjarstjóri fjölgaði íbúum úr 1.790 í 4.620 (þeim hefur síðan ekki fjölgað umfram það). Sigur- geir var ekki óumdeildur, enda fylgdi hann málum vel eftir. Var það jafnvel haft á orði að lagið „My Way“, sem Frank Sinatra gerði vinsælt, ætti vel við um hann. Með Sigurgeiri er farinn leið- togi sem vann af miklum dugnaði að eflingu bæjarfélagsins á Sel- tjarnarnesi og við sem eftir lifum söknum hans. Við Dóra sendum börnum hans og fjölskyldum okkar inni- legustu samúðarkveðjur. Far þú í Guðs friði. Guðmundur Einarsson. Stjórn Sjálfstæðisfélags Sel- tirninga vill þakka sínum farsæla bæjarstjóra og oddvita flokksins til fjörutíu ára samstarfið öll þau ár. Sigurgeir var góðum gáfum gæddur, hann var ósérhlífinn og gekk ætíð hreint til verks. Sigurgeir studdi vel við Sjálf- stæðisfélagið, skrifaði margar greinar í blað sjálfstæðismanna, Seltirning, og átti mikinn þátt í að skipuleggja starf félagsins, kosningabaráttu þess í gegnum árin og hvetja fólk til að taka þátt í starfi flokksins. Hann átti auðvelt með að fá fólk til að vinna með sér og fylgja eftir stefnumálum flokksins. Á fundum félagsins kom oft fram hinn mikli baráttuhugur hans fyrir bættu samfélagi á Nesinu. Sá baráttuhugur hélst alla tíð og var aðdáunarverður. Hann sinnti ýmsum trúnaðar- störfum fyrir Sjálfstæðisflokk- inn. Hann sat í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga um 12 ára skeið. Sigurgeir var sæmdur ridd- arakrossi hinnar íslensku fálka- orðu fyrir framlag sitt til sveit- arstjórnarmála árið 2000. Stjórn Sjálfstæðisfélags Sel- tirninga þakkar fv. oddvita sínum farsælt samstarf þau fjörutíu ár sem hann var bæjarstjóri og vott- ar fjölskyldu hans innilega samúð vegna skyndilegs fráfalls hans. Fyrir hönd Sjálfstæðisfélag- anna á Seltjarnarnesi, Guðmundur Jón Helgason. Sigurgeir Sigurðsson, fyrrver- andi bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, er horfinn á braut. Við sem störf- uðum með honum hvert um sig áratugum saman minnumst hans með þakklæti í huga. Sigurgeir var yfirmaður okkar og sýndi störfum allra ávallt mikinn áhuga. Hann var einstaklega traustur embættismaður, með góða yfirsýn og hélt vel um taum- ana. Öll fengum við þó bæði oln- bogarými og sjálfstæði fyrir störf okkar, hugmyndir og andrými til að þroskast og endurmenntast á góðum vinnustað. Að leiðarlokum viljum við þakka fyrir langt og gjöfult sam- starf og sendum fjölskyldu Sig- urgeirs einlægar samúðarkveðj- ur. Steinunn Árnadóttir, Einar Norðfjörð, Hrafn Jóhannsson. Það eru rúm þrjátíu ár síðan ég kynntist Sigurgeiri, elskuleg- um tengdaföður mínum, sem nú er fallinn frá eftir viðburðaríka og afkastamikla ævi. Ég var 19 ára gömul og strax tekið opnum örmum á Miðbrautinni enda voru hann og tengdamamma heitin, hún Sigríður Gyða, afar umvefj- andi og hlýjar manneskjur. Á þessum árum hef ég upplifað hversu traustur og góður bak- hjarl Sigurgeir var fjölskyldu sinni alla tíð. Hann var alltaf til staðar, afar ráðagóður og hjálp- samur þegar til hans var leitað, vildi að öllum vegnaði vel og var afar stoltur af sínu fólki. Á sama hátt vorum við öll svo stolt af honum og öllu því sem hann af- rekaði á löngum og farsælum starfsferli. Aldrei upplifði ég mont eða hroka af hans hálfu heldur bara auðmýkt enda þótti honum svo óendanlega vænt um Seltjarnarnesið, bæinn sinn og fólkið sem hér býr. Samveru- stundirnar hafa verið margar og góðar á þessum tíma, ekki síst í Kjósinni yndislegu. Á upphafs- árum Nýhafnar (bústaðarins) voru þau Sigga afar dugleg að gróðursetja tré og rækta upp lóð- ina til að skapa skjól. Sigurgeir setti mig í sérstakt verkefni á þeim tíma, sem var að teikna upp og skrásetja hvert tré sem hann gróðursetti. Hann var hins vegar svo afkastamikill í þessu eins og öllu öðru að það var engan veginn hægt að fylgja honum eftir enda gróðursældin við bústaðinn nú engu lík. Hann pikkaði hins vegar glottandi í mig í mörg ár á eftir og fannst ég enn eiga eftir að klára trjábókhaldið. Árin liðu og Sig- urgeir fékk meiri tíma í annað eftir að skyldustörfunum sem bæjarstjóri lauk. Hann tók meðal annars að sér það verkefni að sækja Mörtu Sif og Daníel Þór, yngri börn okkar Þórs, á leikskól- ann og keyra þau heim. Alltaf fór Vaskur, hundurinn hans, með í þann bíltúr. Ég veit ekki hvort Sigurgeiri eða krökkunum þótti skemmtilegra að afi kæmi að sækja, en eitt er víst; alveg sér- stakur og fallegur strengur myndaðist á milli þeirra við þessa rútínu. Best var líklega þegar ég var ekki heima til að taka á móti þeim því þá fóru þau beint á Miðbraut- ina og fengu ís. Við fjölskyldan eigum dýrmætar minningar frá ógleymanlegum ferðum sem við fórum í með afa um Ísland nokk- ur sumur í röð. Við tókum mis- munandi landshluta fyrir, skoð- uðum margt og dekruðum við okkur í mat og drykk. Frábær upplifun og yndislegur tími sem við erum öll afar þakklát fyrir að hafa átt saman. Um leið og það hefur verið sárt að horfa upp á Sigurgeir missa sinn fyrri styrk á undanförnum misserum var dásamlegt að verða vitni að þeirri einlægu ást og umhyggju sem Þór, Siggi og Gréta sýndu pabba sínum og hversu vel þau önnuð- ust hann allt til hinstu stundar. Þau voru hans sterki bakhjarl eins og hann hafði ávallt verið þeim og fjölskyldunni sinni allri. Við söknum afa Sigurgeirs sem við kveðjum með mikilli virðingu í dag en okkur líður samt vel að vita til þess að hann og Sigga eru sameinuð á ný. Takk fyrir allt, elsku tengdapabbi, minning þín mun lifa með okkur um alla tíð. Við pössum vel upp á Vask þinn og vilt þú knúsa og passa Dag okkar. Hvíldu í friði. María Björk Óskarsdóttir Ástkæra móðir okkar, amma og langamma, ÞORBJÖRG RAGNARSDÓTTIR frá Ytra-Álandi, Þistilfirði, lést á Hrafnistu 27. september. Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu. Innilegar þakkir til allra sem sýndu okkur hlýhug og vináttu. Ásrún og Sveinn Logi Ástkær faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi, ÓLAFUR ÞÓRÐUR INGIMUNDARSON, Engihjalla 19, lést hinn 28. september. Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hins látna. Börn, tengdabörn, barnabörn og langafabörn Yndisþakkir til allra þeirra sem komu að útför okkar hjartans móður, ömmu, langömmu og langalangömmu, VALGERÐAR EIÐSDÓTTUR. Okkur langar sérstaklega að þakka starfsfólki Eirar í Grafarvogi fyrir hlýja og góða umönnun. Kærar þakkir einnig til Grafarvogskirkju og Útfararstofu Reykjavíkur fyrir allan ykkar kærleik. Ástarþakkir, með kveðju, aðstandendur Valgerðar

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.