Morgunblaðið - 01.11.2017, Blaðsíða 82
82 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 1. NÓVEMBER 2017
„Við búumst nú við á hverri stundu
alt öðru en kyrlátu og rólegu lífi. Eg
fer í skotgrafirnar í kveld,“ skrifaði
Vestur-Íslendingurinn Kolskeggur
Thorsteinsson frá vígvelli fyrri
heimsstyrjaldar til móður sinnar
haustið 1915.
Vesturferðir Íslendinga frá föð-
urlandinu höfðu hafist fyrir alvöru
1873 en þá fluttu rúmlega 300 Íslend-
ingar til Bandaríkjanna og Kanada.
Líklega fluttu 16.400 Íslendingar
vestur á árunum 1870 til 1914 en þá
lauk þessum fjöldaflutningum – á
sama tíma og fyrri heimsstyrjöldin
hófst. Talið er að 1.300-1.400 Vestur-
Íslendingar hafi gegnt herþjónustu á
stríðsárunum, langflestir í kanadíska
hernum en rúmlega 200 í þeim
bandaríska. Um 400 af þessum her-
mönnum höfðu fæðst á Íslandi. Og
þeir litu flestir á sig sem Íslendinga.
Það kemur berlega í ljós í bréfum
þeirra. Þeim var tamt að tala um
landa sína Íslendinga á vígvellinum
og voru stoltir af því að gamla föður-
landið ætti fulltrúa í stríðinu. Á sama
tíma vildu þeir sýna og sanna að
Vestur-Íslendingar væru sannir
Kanadabúar. Því gengu þeir í herinn
þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út
og Kanadamenn ákváðu að taka þátt
í stríðinu við hlið Breta.
Í bókinni er íslensku piltunum
fylgt eftir með hjálp bréfa, frásagna
og blaðagreina frá þjálfunarbúðum í
Kanada yfir Atlantshafið og til her-
stöðva á Bretlandi og loks í skotgraf-
irnar í Frakklandi. Áberandi er hve
mikill hugur er í þeim í byrjun, tónn-
inn í bréfunum er léttur og vígreifur.
En svo líður og bíður, alvaran tekur
við og tónninn þyngist. Bréfin lýsa
lífinu í skotgröfunum, hryllingnum
og mannfallinu, gasárásum og stór-
skotahríð, vist á sjúkrahúsum og
skemmtunum í leyfum frá vígvell-
inum, og sumir sem féllu í hendur
Þjóðverja lýsa lífinu í fangabúðum.
Og þegar stríðinu lýkur loks lýsa pilt-
arnir leiðinni heim.
Vesturíslensku dagblöðin tvö,
Heimskringla og Lögberg, eru mik-
ilvægar heimildir frá þessum tíma, en
í þeim má oft finna bréf og frásagnir
hermanna. Hér skrifar Hallur Eng-
ilbert Magnússon sem var fæddur
1876 og hafði flutt til Vesturheims frá
Búðareyri, Seyðisfjarðarhreppi 1904.
„Frakklandi, 20. maí 1917.
Herra ritstjóri Heimskringlu. Það
var þriðjudaginn 10. apríl, að nokkrir
nýliðar, sendir frá Englandi, samein-
uðust herdeildinni, the 16th Canadi-
an Schottich, er þá hafði aðsetur sitt í
einni af aftari skotgröfum Breta á
vestur svæðinu. Eg var einn af þess-
um nýliðum. Við vorum fegnir, þegar
okkur var sagt að stanza, því við vor-
um þreyttir eftir margra mílna
göngu með allan okkar farangur á
bakinu og þar að auki 120 kúlur og
riffilinn. Við settumst niður á barm-
inum á skotgröfunum meðan fyrirlið-
inn, sem með okkur var, fór að leita
sér upplýsinga um hvar og hvernig
ætti að skifta okkur niður í fylkingar
herdeildarinnar. Eftir að hafa losað
okkur við byrðarnar, fórum við að líta
í kring um okkur. Skotgröfin, sem við
vorum hjá, náði til hægri og vinstri
handar svo langt sem augað eygði, og
svo var hver fram af annari með á að
gizka 200 faðma millibili; en út við
sjóndeildarhringinn. Í austurátt var
hár hryggur á að gizka tvær mílur í
burtu. Hvar sem litið var, var alt á
hreyfingu og iði; tugir þúsunda af
mönnum, hestum, mótorvögnum og
öðrum ferða og flutnings áhöldum
gengu hér með ákafa að starfi. Háir
hvellir með þungum drunum á eftir
heyrðust jafnt og þétt með stuttu
millibili; hingað og þangað út um loft-
ið sveimuðu flugdrekar, stundum
tóku þeir langar og djúpar dýfur,
stundum hurfu þeir að skýja baki,
stundum gáfu þeir merki með skot-
um eða með því að kasta út ljósum af
ýmsum litum, sem liðu hægt til jarð-
ar. Alt í einu reis sú spurning í huga
mínum: Skyldi nokkur af íslending-
unum vera lifandi? Þeir voru sendir
fyrir tveimur mánuðum síðan yfir til
Frakklands, til þessarar sömu her-
deildar, sem við nú tilheyrum. Meðan
eg var að velta þessu fyrir mér með
ýmsum spurningum og spám,
gleymdi eg öllu, sem var að gerast í
kring um mig. Eg horfði beint ofan í
skotgröfina fyrir framan mig. Með
ljúfri endurminningu mintist eg
þeirra allra, þeir voru sannir íslend-
ingar og sómi þjóðar vorrar, hvort
sem þeir voru nú lifandi eða dauðir.
Eg hrökk við. Það var einhver sem
kallaði: „Helló, Magnússon!“ Mér
fanst Íslenzkur hreimur í röddinni,
en vissi, að það var enginn íslend-
ingur í þessum nýliðahópi, sem var í
kring um mig. Eg leit upp, og sá mér
til mikillar gleði, þrjá íslendinga, sem
eg þekti strax. Þeir komu á fjórum
fótum hver á eftir öðrum upp úr jarð-
húsi, sem var niður í skotgröfinni fáa
faðma frá mér. Eg stökk á fætur.
Þetta voru þeir Ingi Thordarson frá
Gimli, G.R. Goodman og L. Thorleifs-
son.“
Kanada var í byrjun 20. aldar skil-
greint sem samfélag landnema og
átti þar af leiðandi margt sameig-
inlegt með „gömlu Evrópu“ og því
sem þar gerðist. Margir íbúar í Kan-
ada eftir aldamótin 1900 litu fyrst og
fremst á sig sem Evrópumenn. En
hermennirnir fóru líka í stríðið sem
íbúar hina mörgu fylkja og bæja í
Kanada, sem synir, eiginmenn, feður
og bræður, sem kaþólikkar eða mót-
mælendur, sem bændur eða launa-
fólk. Að þessu leyti áttu þeir margt
sameiginlegt bæði með þeim sem
þeir börðust með og þeim sem þeir
börðust á móti.
Í eftirfarandi bréfi lýsir Hermann
Davíðsson (Davidson) gufuvélstjóri
sem fæddist á Flatey í Skjálfandafóa
og hafði flutt vestur með fjölskyldu
sinni 1881, þá á fyrsta ári, bardaga í
Flæmingjalandi og veruleika stríðs-
ins:
„Elsku mamma mín! Eg skrifa þér
á íslenzku og vonast til þú fáir þessar
línur. Mér líður eftir vonum. Við höf-
um haft það býsna hart um tíma. Þú
hefir heyrt um þenna stóra bardaga,
sem við lentum í; það var voðaleg
sjón, að sjá okkar beztu menn hrynja
niður eins og strá. Við vorum í
fremstu línu og máttum til að standa
á móti þessari miklu skothríð í 4
sólarhringa. Eg veit ekki, hvernig eg
komst í gegnum það alt, án þess að
vera meiddur, því það voru ekki
margir eftir, þegar skothríðin hætti.
Við vorum þá bæði svangir og afar
þreyttir, því þá var ekki hægt að færa
okkur neitt. En það dugði ekki að
hugsa um það; menn lágu særðir og
við máttum til að hugsa um þá. Við
bárum þá til fyrstu lækningastöðvar,
sem var eina mílu í burtu, og þú getur
nærri, hvort við höfum ekki verið
orðnir þreyttir, þegar búið var að
hjálpa þeim. Eg var svo þreyttur að
eg gat ekki hreyft mig, því það veit
guð, að eg vann hart að því að hjálpa
þeim, sem særðir voru. Það var Ís-
lendingur með okkur, Kjartan Good-
man, frá Winnipeg; hann var særður
og eg reyndi að hjálpa honum, en það
var ekki hægt að komast til hans á
þeim tíma, því þá stóð bardaginn sem
hæst; en næsta dag voru allir teknir,
sem særðir voru, og eg held að hann
hafi verið með þeim; eg hefi ekki
heyrt annað en að hann sé í hospítal-
inu. Eg hafði aldrei gjört mér hug-
mynd um, að það væri eins voðalegt
eins og það er; en eg er nú orðinn því
svo vanur, að mér finst ekkert til um
það. Ef eg kemst í gegn um þetta alt,
sem eg vonast til, þá hefi eg gjört
skyldu mína. Eg held að eg hafi ekki
meira að segja þér í fréttum í þetta
sinn. Þú skalt ekki vera hrædd um
mig; eg skal passa mig. Eg fékk bréf
frá Boggu og mér þótti ósköp vænt
um það, og segðu henni, að eg þakki
henni fyrir það og Hert fyrir hans
bréf. Eg skrifa þeim bráðum. Eg má
til að hætta núna, því það er orðið
dimt. Vertu svo blessuð og sæl,
mamma mín! H. Davidson“
Bréfin sýna að mönnum gekk mis-
vel að sætta sig við hlutskipti sitt og
suma lék það grátt, aðrir þrifust bet-
ur. Þá verður að hafa í huga að her-
mönnunum gæti hafa fundist að þeir
þyrftu að réttlæta fyrir sér og þeim
sem lesa bréfin af hverju þeir væru í
stríðinu.
Svo hljóðar eitt bréf, eftir Sigurð
Johnsen, sem birt er í bókinni:
„France 21. May 1918
... Elsku mamma! Blessuð heita
sólin skín hjá þjér líka móðir mín....
Jeg er í vandræðum hvað jeg á að
skrifa þjér í frjéttum, það eina sem
jeg get sagt þjér er eitthvað viðvíkj-
andi stríðinu og það er sannarlega
ekki skemmtilegt að vera alltaf að
skrifa um þau efni ... Jeg ætla að
breyta efninu og segja þjér einsog er.
Jeg varð að leggja frá mjér blýantinn
til þess að leita mjér lúsa. Því mjér
klæaði svo mikið undir höndunum, og
jeg fann fjórar smá lýs þær bíta
mann einna verst. Jeg leita mjér lúsa
á hverjum degi og það dugar ekkert,
þær lifna jafn óðum.
Það er oft á nóttunni að jeg get
ekki sofið fyrir kláða, og svo er mjér
oft kalt. Jeg hefi ekki nema eina bóm-
ullar skyrtu að vera í, engar nær-
buksur, þeim var stolið hjér um dag-
inn, svo jeg hefi ekkert annað að mjér
á nóttunum en yfirfrakkan minn sem
jeg hefi fyrir undir sæng, og svo eitt
teppi sem jeg hefi ofan á mjér, treyj-
una mína hefi jeg undir höfðinu og
svo frakkan minn. Þetta er[u] nú öll
rúm fóðrin sem jeg hefi, við getum
ekki fengið meira, herlögin leifa það
ekki. Við verðum að sætta okkur það
sem okkur er úthlutað, við verðum að
venja okkur við ýmislegt, þetta er allt
gjört til þess að gjöra okkur harða,
gjöra okkur að hermönnum, hermað-
urinn má ekki eiga gott, hann má
ekki fá góðan mat, hann á að fá lítin
mat, og óbreyttan, sama matinn dag
eftir dag. Það er þunglyndið, enn
maður verður að sætta sig við það,
maður verður að taka því sem manni
er gefið.
Það er ekki til neins að segja að
maður vilji fá meira, maður fær sinn
skammt, og þar við situr. Jeg gæti oft
borðað meira, maginn heimtar það,
enn þetta er allt gjört til þess að
gjöra okkur að betri hermönnum,
gjöra okkur hrausta, til þess að við
þolum betur kulda og illa meðferð,
vosbúð og [tíðar áningar?] taka úr
okkur alla mannúð, gjöra okkur að
betri hermönnum, seta í mann grimd
og heift, hatur, drepa allar sóma til-
finningar, drepa og deifa allar bestu
tilfinningar, drepa þær ef hægt væri.
Þetta allt hjálpar til þess að gjöra
mann að góðum hermanni.
Fyrirgefðu mjér elsku mamma
mín, guð gefur að jeg fæ að sjá þig og
ykkur öll áður langtum líður. Þinn
einl. sonur, Siggi.“
Ljóst er að um það bil 140 Vestur-
Íslendingar létust í stríðinu, ýmist í
orrustu eða af sárum sínum, auk þess
sem spánska veikin dró marga til
dauða og nokkrir hurfu sporlaust á
vígvellinum. Sumar heimildir telja
það hlutfallslega meira mannfall en
hjá nokkurri annarri þjóð í kanadíska
hernum. Rúmlega 200 særðust eða
þjáðust eftir gasárásir en áttu aftur-
kvæmt, margir illa særðir.
„Skyldi nokkur
af íslendingunum
vera lifandi?“
Í bókinni Mamma, ég er á lífi eftir Jakob Þór
Kristjánsson, sem bókaforlagið Sögur gefur út, er
að finna bréf og frásagnir vesturíslenskra pilta
sem tóku þátt í hildarleik fyrri heimsstyrjaldar.
Sigurðssynir Á forsíðu Lögbergs frá 19. október 1916 er mynd af Árna,
Hjálmari og Sigursteini Sigurðssonum og sagt frá örlögum þeirra í texta
með myndinni. Á forsíðu blaðsins kemur fram að líklega séu fjórtán Íslend-
ingar fallnir. Fimm séu fangar Þjóðverja og tuttugu særðir.
Stríð 29. herfylki Kanada sækir fram yfir einskismannsland í gegnum
gaddavír og stórskotahríð í orrustunni við Vimy-ás í apríl 1917.
Bankastræti 6 – sími 551 8588 – gullbudin.is
Unicorn
Armband 6.900-
Hálsmen frá 5.400-
Eyrnalokkar frá 8.900-