Morgunblaðið - Sunnudagur - 18.02.2018, Qupperneq 14
VIÐTAL
14 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 18.2. 2018
H
ann er með þeim fyrstu sem
skírðir eru þessu glóandi nafni.
Eldur Ólafsson er 32 ára fram-
kvæmdastjóri Alopex Gold,
sem fer brátt að grafa upp gull
úr námum á Grænlandi. Hann segir foreldra
sína sjálfsagt hafa verið hippa að velja slíkt
nafn, en það passi vel við hann, jarðfræðinginn.
Kannski er hann líka eldhugi, að ráðast í slíkt
stórverkefni eins og gullnámuvinnslu. En allt á
sér aðdraganda og yfir kaffibolla í miðbænum
segir hann blaðamanni hvernig það kom til að
hann varð gullleitarmaðurinn Eldur.
Þau urðu systkini manns
Hann er sveitadrengur úr Biskupstungum, al-
inn upp á líflegu og stóru heimili.
„Foreldrar mínir, Ólafur Einarsson og Drífa
Kristjánsdóttir, ráku meðferðarheimili á Torfa-
stöðum en þegar Breiðavík hætti varð þetta
meðferðarheimili til. Afi minn, Kristján, stofn-
aði unglingameðferðarheimili ríkisins,“ segir
hann.
„Pabbi hafði alltaf átt þann draum að verða
bóndi en hann er mikill ræktunarmaður, bæði á
fé, hesta og tún,“ segir hann en foreldrarnir
voru með bú samhliða meðferðarheimilinu. „Ég
fékk mjög gott uppeldi og átti gott heimili, en á
meðan ég var að alast upp voru að jafnaði sex
fósturbörn á heimilinu. Þau voru yfirleitt hjá
okkur í tvö ár hvert, en þetta var langtímameð-
ferðarheimili. Það þurfti oft að kenna þeim inn á
daglegt líf, sýna traust, ást og umhyggju. Flest
börnin kláruðu samræmd próf eða fóru til vinnu
og það gengur vel hjá þeim flestum í dag,“ segir
Eldur og segir hann mikið fjör hafa verið á
heimilinu.
„Við vorum alltaf um níu krakkarnir, og allt
að fimmtán manns við matarborðið. Við þekkt-
um ekkert annað og börnin urðu strax eins og
systkini manns. Það mynduðust sterkar teng-
ingar á milli okkar og það var erfitt að skilja við
þau þegar þau fóru eftir dvölina.“
Gildin í uppeldinu skipta öllu
Eldur er fjölskyldumaður; á tvær ungar dætur,
þær Grímheiði og Íseyju en hann er kvæntur
Guðrúnu Helgu Kristjánsdóttur fatahönnuði.
„Við erum eitt teymi og kona mín á jafn mikinn
þátt í því sem við gerum og ég. Hún er rosalega
hæfileikarík, hjartahlý og með góða dómgreind
og ég tel að hún muni ná mjög langt á sínu
sviði,“ segir hann og talar um mikilvægi þess að
innræta góð gildi í börnum.
„Það er mikil misskipting í heiminum og mik-
ið talað um misskiptingu gæða sem er áhyggju-
efni. En fyrir mína parta verður einnig til mis-
skipting milli fólks vegna þeirra gilda sem það
fær í uppeldinu. Hvort barn fær umhyggju og
hvernig lífsreglur það lærir á fyrstu stigum lífs-
ins getur skipt sköpum fyrir framtíðina. Sögur
krakkanna sem bjuggu hjá okkur voru oft
hræðilegar og því er það í raun magnað hvað
mörg þeirra hafa náð langt. Þau hafa þurft að
fara miklu erfiðari leið en við hin. Það er gott
dæmi um sigur mannsandans að sjá hvernig er
hægt að snúa börnum inn á rétta braut með góð-
um gildum og almennilegu atlæti,“ segir hann.
„Ég og þú erum í forréttindahópi. Við fengum
ást, umhyggju, hlýju og eðlileg gildi í okkar
uppeldi, og það tekur maður með sér út í lífið.
Þetta er það sem breytir öllu,“ segir hann og
nefnir að foreldrar hans hafi lagt mikla áherslu
á að það ríkti algjört traust á milli þeirra og
barnanna.
„Þau kenndu þeim að sigra. Að klára verkin.
Hvort sem það var að moka flórinn eða að klára
samræmdu prófin.“
Heimsins besti körfuboltamaður
Þessi góðu gildi hefur Eldur tekið með sér út í
lífið. Hann er einn af þremur systkinum sem öll
hafa látið til sín taka á fullorðinsárum. Bróðir
hans heitir Fannar Ólafsson, fyrrverandi lands-
liðsmaður í körfubolta, en vinnur í dag í ferða-
þjónustu og öðrum verkefnum. Systir hans er
Björt Ólafsdóttir, stjórnmálamaður og fyrrver-
andi umhverfisráðherra.
Eftir góða æsku fór Eldur sextán ára gamall
úr sveitinni beint í menntaskóla. Dreymdi hann
þá um að verða heimsins besti körfuboltamaður.
„Ég fæddist með klumbufót þannig að hreyfi-
getan á vinstri fæti við ökkla er mjög lítil. En ég
æfði og æfði með mörgum flokkum til átján ára
aldurs, og hafði kannski ekki mikla körfubolta-
hæfileika en það var meira einurðin að verða
góður,“ segir Eldur og brosir.
Álagsmeiðsli í ökklanum komu í veg fyrir
heimsfrægð á körfuboltasviðinu en þá sneri
Eldur sér að jarðfræðinni.
„Áhugi á jarðfræði byrjaði um tólf ára aldur.
Það var þannig að foreldrar mínir tóku aldrei
frí; fríin okkar voru þannig að tvisvar á sumri
fórum við í hestaferðir með fóstursystkinunum
mínum. Fyrst fórum við í stutta ferð, tvo, þrjá
daga en seinni ferðin var tíu daga ferð. Svaka-
legt ævintýri og rosalega gaman. Ég hef oft
sagt að besta leiðin til að skoða landið sé á hest-
baki, en ekki lokaður inni í bíl,“ segir Eldur sem
naut náttúrunnar í þessum ferðum.
„Svo þegar ég var tólf ára fór ég í fyrsta sinn í
göngur og fór þá alla leið upp á Hveravelli og
það var smalað milli Hofsjökuls og Langjökuls.
Þetta var vikuferð og það gerði kannski út-
slagið.“ Jarðfræðiáhuginn var kviknaður.
Hagnýt jarðfræði
Eftir stúdentspróf lá leiðin í Háskóla Íslands í
jarðfræði. „Þetta var um 2004 og það fannst
mörgum þetta skrítið val. Það var verið að
benda mér á að fara í fjármálaverkfræði, fólk
sagði að bankarnir væru málið. Ég var kallaður
Moldi,“ segir Eldur og brosir.
Hann segir að þetta fag hafi ekki þótt töff, en
hann lét það ekki stoppa sig.
„Ég myndi samt ekki líta á mig í dag sem al-
vöru jarðfræðing. Ég hef áhuga á þessu frá hag-
nýtum sjónarmiðum, það verður að viðurkenn-
ast,“ segir hann.
„Ég kláraði jarðfræðina 2007 og skrifaði rit-
gerðina um nýtni varma í rótum jarðhitasvæða.
Á þessum tíma var verið að fara af stað með
djúpborunarverkefni, sem sagt í stað þess að
bora þrjá kílómetra, átti að bora fimm. Í rit-
gerðinni vorum við að meta kosti og galla þessa
verkefnis og vorum við þá að horfa á Reykja-
nesið, Hellisheiði og Kröflu. Niðurstaðan varð í
raun sú að tæknilega væri mögulegt að bora
allavega eina af þessum holum en ólíklegt væri
að holan myndi skila afli. Til að gera langa sögu
stutta var ég í kjölfarið ráðinn til Geysir Green
Energy,“ segir Eldur sem var sendur víða um
heim til að meta og skoða jarðhitaleyfi.
Vann í skurðum í Kína
„Fljótlega fór ég til Kína að til að taka þátt í
uppbyggingunni á hitaveitunni þar. Mitt hlut-
verk var að fara þangað með þekkingu og vaxt-
arplön. Verkefnið átti ekki bara að vera í einni
borg heldur þremur, en fókusinn var að byggja
hitaveitur,“ útskýrir Eldur.
„Á meðan ég var að vinna þarna varð efna-
hagshrunið á Íslandi. Og þarna vorum við í sam-
starfi við kínverskt fyrirtæki, en okkur tókst að
stækka veituna með þeirra hjálp,“ segir Eldur
sem flutti frá Kína til Danmerkur árið 2010.
„Ég fór þar í fjármálanám en við Guðrún
Helga áttum þá von á okkar fyrsta barni. Made
in China,“ segir hann og hlær.
„Þarna stofnaði ég, ásamt Valgarði Má Val-
garðssyni, Justinas Matucevisous og öðrum,
fyrirtæki sem heitir Orka Energy. Hugmyndin
var þá að kaupa út verkefnin sem Geysir var
með í Kína, þar sem ég hafði unnið síðustu ár.
Ég hafði unnið mikið með Kínverjum í við-
skiptaþróun og áætlanagerð en þegar ég byrj-
aði í Kína var ég sjálfur í skurðunum að kenna
starfsmönnum þar að sjóða saman rör. Þetta
þurfti að vera svona „hands on“ vinna því að
rörin voru þriðjungur af fjárfestingu okkar,“ út-
skýrir hann.
„Þarna var ég 25 ára gamall, og við fórum til
Íslandsbanka og gerðum kauptilboð. Þeim
fannst við fullungir og trúðu okkur ekki alveg til
að byrja með en við enduðum með að finna
„partner“ sem heitir Kalan Capital en Haukur
Harðarson er eigandi þess. Kalan sá um að
finna fjármagn og við héldum áfram að reka
veituna. Seinna vorum við keyptir út af Kalan
Capital.“
Auðlindir í norðurskautinu
„Í kjölfarið settum við allt okkar undir við stofn-
un fyrirtækisins Arctic Resources. Fókusinn
var á jarðhita, olíu og málma. Við bjuggum til
mismunandi verkefni með mismunandi aðilum á
þessu sviði. Eitt af fyrstu verkefnum okkar var
stofnun Iceland Petroleum. Ólíkt jarðhita var
hér lítil þekking í olíuleit og því fórum við í sam-
starf við Faroe Petroleum og byggðum upp
teymi innan Iceland Petroleum sem var staðsett
í Skotlandi. Við sóttum svo um leyfi til olíuleitar
á Drekasvæðinu sem við fengum. Þar sem þetta
voru upphafsrannsóknir þá voru þessi leyfi eðli
máls samkvæmt áhættusöm en áhugaverð engu
að síður. Við stunduðum rannsóknir á Dreka-
svæðinu í tvö ár og út frá þeim mælingum kom-
umst við að því að það væri of mikil áhætta að
halda áfram af tæknilegum ástæðum. Við vor-
um fyrsti hópurinn sem hætti leitinni en það var
árið 2014. Annar leggur í Arctic Resources voru
málmar og horfðum við þá bara til Grænlands
enda af nógu að taka þar,“ segir hann.
„Þetta kann að hljóma eins og við höfum verið
úti um allt, en það er alls ekki tilfellið, við vorum
bara í jarðhita, olíu og námuvinnslu,“ útskýrir
Eldur, en þessi verkefni voru á mismunandi
stigum og því misáhættusöm.
„Við fórum að skoða Grænland og fengum
SRK, sjálfstætt starfandi námurannsókn-
arfélag, til ráðgjafar, þar sem ekki er eiginleg
námuþekking á Íslandi. Hins vegar höfum við
Íslendingar góð tök á því að vinna í umhverfi
eins og er á Grænlandi. Við þekkjum samfélags-
gerðina en bæði Ísland og Grænland eru auð-
lindadrifin samfélög og svo hafa íslenskir aðilar
unnið þar að innviðaverkefnum síðustu ár. Það
hafa verið byggðar vatnsaflvirkjanir og hafnir
en einnig erum við farin að þjónusta grænlensk
fyrirtæki í meira mæli. Síðan námulöggjöfin
breyttist í byrjun aldarinnar hafa íslensk fyr-
irtæki ekki tekið þátt að neinu marki í þeim
geira þar, fyrr en nú,“ segir Eldur.
Halda áætlun og minnka kostnað
Þeir félagar lögðust í mikla rannsóknarvinnu og
skoðuðu Grænland út frá mörgum þáttum; sögu
námuvinnslu, helstu námum sem starfræktar
höfðu verið á síðustu hundrað árum, könnuðu
lagakerfið, og verkefni sem nú þegar eru á full-
um dampi.
„Á sama tíma vorum við að reyna að átta
okkur á því hvaða málma við vildum einblína á
og staðsetninguna,“ segir hann en upp úr
þeirri vinnu varð til viðskiptaáætlun.
„Við vildum leita að og vinna málma sem
væru með hátt hlutfall fyrir hvert tonn sem
unnið væri. Við vildum að innviðir væru til stað-
ar eða í nálægð við verkefnin. Við vildum að
jarðfræðin gæfi möguleika á því að við gætum
fundið stórar námur og við ákváðum fljótlega að
einblína á gull og sink,“ segir hann.
„Svo ætlum við að leggja áherslu á að verða
bestir í því sem við gerum, hvort sem það er
rannsóknarvinna eða að byggja upp hafnir og
vegi. Við viljum vera bestir í því og með minnst-
um kostnaði. Grænland er suðupunktur af öll-
um málmum sem þú getur hugsað þér. Það sem
Nafnið passar vel við þennan unga mann; hann er jarðfræðingur með brennandi áhuga á
auðlindum og viðskiptum. Eldur Ólafsson er alinn upp við góð gildi á sveitabæ í Biskups-
tungum þar sem heimilið var einnig meðferðarheimili fyrir ungmenni í vanda. Hann lærði
snemma að klára það sem byrjað væri á, og leggja metnað í hvert verk. Eftir jarðhitavinnu í
Kína beinir Eldur nú sjónum að Grænlandi. Þar er fókusinn á gullgreftri.
Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is
„Svo ætlum við að leggja áherslu á að
verða bestir í því sem við gerum, hvort
sem það er rannsóknarvinna eða að
byggja upp hafnir og vegi. Við viljum vera
bestir í því og með minnstum kostnaði.
Grænland er suðupunktur af öllum málm-
um sem þú getur hugsað þér,“ segir Eldur
Ólafsson, gullleitarmaður á Grænlandi.
„Ég var kallaður Moldi“