Morgunblaðið - 18.05.2018, Blaðsíða 17

Morgunblaðið - 18.05.2018, Blaðsíða 17
FRÉTTIR 17Erlent MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 18. MAÍ 2018 Bogi Þór Arason bogi@mbl.is Nefnd áhrifamikilla ráðherra breska Íhaldsflokksins hefur samþykkt að Bretland geti verið tímabundið áfram í tollabandalagi Evrópusambandsins eftir útgöngu landsins úr sambandinu, brexit, og hugsanlega eftir nær tveggja ára aðlögunartímabil þar á eftir, að sögn breska dagblaðsins The Telegraph í gær. Mikill ágreiningur er um málið í Íhaldsflokknum. Bretland á að ganga formlega úr Evrópusambandinu 29. mars á næsta ári en samið hefur verið um aðlögunartímabil sem á að ljúka 31. desember 2020. Nota á þann tíma til að semja um framtíðartengsl Bret- lands og ESB. Ríkisstjórn Theresu May, forsætis- ráðherra Bretlands, hefur lofað að landið gangi úr tollabandalagi ESB en vill einnig tryggja að útgangan valdi eins litlum viðskiptahindrunum og mögulegt er. Mikill ágreiningur í ríkis- stjórninni hefur orðið til þess að hún hefur ekki enn komið sér saman um hvers konar samningi hún vill ná í við- ræðunum við Evrópusambandið, þrátt fyrir að niðurstaða þeirra hafi mikla þýðingu fyrir bresk framleiðslufyrir- tæki. Þó eru tæp tvö ár liðin frá því Bretar samþykktu útgönguna í þjóðaratkvæðagreiðslu og aðeins eru tíu mánuðir í að hún verði formlega að veruleika. Nái ríkisstjórnin samkomulagi í tollamálinu er björninn ekki unninn því að staða hennar á þinginu er svo veik að ekki er víst að það samþykki niðurstöðu hennar. Komist stjórnin yf- ir þá hindrun bætist önnur við því að ekki er öruggt að Evrópusambandið fallist á kröfur Breta. Ósamrýmanleg loforð? Simon Nixon, fréttaskýrandi The Wall Street Journal, segir að May hafi haldið lífi í ríkisstjórninni og komið í veg fyrir klofning í flokknum með því að víkja sér undan því að taka erfiðar ákvarðanir eða neita því að hún standi frammi fyrir erfiðum kostum. Þótt hún hafi greitt atkvæði með aðild Bretlands að ESB í þjóðaratkvæðinu hafi hún tileinkað sér „draumóra“ brexit-sinna um að útgangan yrði auð- veld, að Bretland gæti hætt að greiða í sjóði Evrópusambandsins, stöðvað frjálst flæði vinnuafls frá ESB-lönd- um, losað sig við reglur innri mark- aðar ESB og gert viðskiptasamninga við önnur lönd en haldið samt öllum ávinningnum af núverandi tengslum við sambandið. May sé nú í vanda vegna þess að hún hafi gefið loforð sem virðist vera ósamrýmanleg: „Hún hefur lofað hörðum brexit-sinnum að Bretland fari úr tollabandalaginu og innri markaðnum til að landið fái vald til að ákveða eigin tolla og reglur sem þarf til að gera eigin fríverslunar- samninga; samt hefur hún einnig lofað því að halda núningslausum viðskipt- um milli Norður-Írlands og Írlands án eftirlitsstöðva við landamærin; og hún hefur lofað Lýðræðislega Ulster- flokknum á Norður-Írlandi, sem hefur séð henni fyrir nauðsynlegum stuðn- ingi á þinginu, að ekkert landamæra- eftirlit verði milli Norður-Írlands og annarra landsvæða Bretlands.“ Nixon telur að May þurfi nú að ákveða hvert þessara loforða hún ætli að svíkja. Boða tækni sem ekki er til Í viðræðunum við ESB hefur May samþykkt með semingi að Norður-Ír- land verði áfram hluti af tollabanda- lagi sambandsins ef ekki næst sam- komulag um aðra lausn, að sögn fréttaveitunnar AFP. May hefur þó einnig sagt að ekki komi til greina að Norður-Írland lúti öðrum reglum en önnur svæði Bretlands. May hefur verið hlynnt því að vand- inn verði leystur með því að Bretar innheimti tolla fyrir hönd ESB á vörur sem eiga að fara til aðildarlanda sam- bandsins og leggi eigin tolla á vörur sem eiga að fara á breska markaðinn. Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands, hefur sagt að þessi hug- mynd sé „fáránleg“. Brexit-sinnar í Íhaldsflokknum vilja að tekin verði upp tæknileg tollgæsla sem feli í sér að ekki verði þörf á eftir- litsstöðvum við landamæri Norður-Ír- lands og Írlands. Sá hængur er á að tæknin sem þarf til að koma á slíkri tollgæslu er ekki til og embættismenn ESB hafa lýst henni sem „vísinda- skáldskap“. The Telegraph segir að breska stjórnin ætli að segja samningamönn- um ESB í Brussel að hún ljái máls á því að Bretland verði áfram hluti af tollabandalaginu tímabundið eftir að aðlögunartímabilinu lýkur í desember 2020 ef ekki næst samkomulag um annað. Nefnd áhrifamikilla ráðherra í stjórninni hafi samþykkt að Bretland verði áfram í tollabandalaginu ef tæknilegt eftirlit verður ekki mögu- legt fyrir þann tíma. Embættismenn ríkisstjórnarinnar hafa sagt að toll- gæslutæknin komist líklega ekki í gagnið fyrr en árið 2023. Boris Johnson utanríkisráðherra og Michael Gove umhverfisráðherra voru andvígir þessu í byrjun en lutu í lægra haldi í rimmunni og þeir féllust á áformin með semingi, að sögn The Telegraph. Um 60 af 316 þingmönnum Íhalds- flokksins hafa verið algerlega andvígir því að aðild Bretlands að tollabanda- lagi ESB verði framlengd. The Tele- graph hefur eftir leiðtoga þeirra, Jacob Rees-Mogg, að þeir óttist að þetta leiði til þess að Bretland verði í tollabandalaginu til frambúðar. „Fólk- ið greiddi atkvæði með útgöngu, ekki með eilífðarbið í hreinsunareldi.“ Brexit-sinnarnir óttast að ef stjórn- in óskar eftir tímabundinni framleng- ingu leiði það til þess að Bretland verði varanlega í tollabandalaginu því að Evrópusambandið hafi þá ekki lengur neina þörf fyrir að semja um aðra lausn. Þessir þingmenn eru í minnihluta og aðrir þingmenn Íhaldsflokksins hafa beitt sér fyrir því að Bretland verði áfram í tollabandalaginu til að tryggja hagsmuni breskra fyrirtækja. Þeir telja að með stuðningi þingmanna í öðrum flokkum hafi þeir nægan styrk á þinginu til að knýja forsætisráð- herrann til að fallast á áframhaldandi aðild að tollabandalaginu. Bretar áfram í tollabandalaginu?  Stjórn May sögð ljá máls á því að Bretland verði tímabundið áfram í tollabandalagi ESB eftir aðlög- unartímabil  Brexit-sinnar óttast að það leiði til þess að landið verði í tollabandalaginu til frambúðar AFP Í vanda Theresa May, forsætisráð- herra Bretlands, á breska þinginu. Tollabandalag ESB » Í tollabandalagi Evrópusam- bandsins felst að engir tollar eru í viðskiptum milli aðildar- ríkjanna, vöruflæði milli þeirra er frjálst og tollgæsla á sér ekki stað á innri landamærum. » Ytri tollar, þ.e. á vörur frá löndum utan ESB, eru þeir sömu í aðildarlöndum banda- lagsins og viðskiptastefna gagnvart öðrum ríkjum er sam- eiginleg. Ertu að gera upp gamalt hús ? VIÐ BYGGJUM Á LANGRI HEFÐ Líttu við – sjón er sögu ríkari Eigum úrval af alls kyns járnvöru. Hurðahúnar, glugga- og hurðalamir, stormjárn, læsingar, útiljós, bátasaumur og spíkerar allar stærðir o.fl. Laugavegi 29 • sími 552 4320 www.brynja.is • verslun@brynja.is Opið virka daga frá 9-18 og laugardaga frá 10-16 Ný vefverslun brynja.is

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.