Breiðfirðingur - 01.04.1981, Page 86
Geir Sigurðsson frá Skerðingsstöðum:
Sigmundur Þorgilsson frá
Knarrarhöfn
Sigmundur Þorgilsson var fæddur í Knarrarhöfn í
Hvammssveit 30. nóvember 1893. Hann var sonur hjónanna,
Þorgilsar Friðrikssonar, bónda og oddvita í Knarrarhöfn og
Halldóru Sigmundsdóttur, konu hans.
Systkini Sigmundar voru mörg, og nánustu ættingjar hans
voru allir sérlega vel gefíð og námfúst fólk.
Sigmundur ólst upp hjá afa sínum, Sigmundi Grímssyni,
bónda á Skarfsstöðum. Átti hann þar lengi heimili fram eftir
æskuárunum. Hugur hans hneigðist snemma til náms. Hann
stundaði nám við menntaskólann í Reykjavík, tók þar
gagnfræðapróf og var þar einum vetri lengur. Þá hvarf hann frá
námi en helgaði eftir það kennarastörfum hæfni sína, þekkingu
og starfskrafta. Við þau störf var hann í átthögum sínum fram
eftir þrítugsaldri.
Haustið 1919 hvarf Sigmundur að heiman en stundaði þó
kennslustörf í fjarlægu héraði. Við það starf var hann austur
undir Eyjafjöllum fram að elliárum.
Árið 1939 gekk Sigmundur í hjónaband. Eiginkona hans var
Júlíana Björg Jónsdóttir, frá Hallgeirsey í Landeyjum.
Sigmundur stundaði búskap samhliða kennslustörfum þangað
til þau hjónin fluttu að Hellu, en þar lauk ævi Sigmundar 2. júlí
1968.