Skírnir - 01.04.2011, Side 6
Frá ritstjóra
„En það má segja, að ekki hefir á öllum árum dymmt eins að hretviðrum yfír
frelsi og fjöri þjóðanna, eins og á umliðnu ári, og mátti stundum eigi fyrir sjá
hvörnin af mundi reiða, færðust þær leiðíngar svo lángt norður að kalla mátti
þær væru komnar á vit hólma vors, en smámsaman birti svo upp aptur að vart
eru meiri líkindi enn áður til þess að upp dragi að nýu. Þetta verður nú að
sönnu ekki sagt um öll lönd álfu vorrar, því í syðri hluta hennar, og einkum í
Portúgal og á Spáni, má enn ekki fyrirsjá hvör endir verður," skrifaði Jón Sig-
urðsson í Skírni árið 1837 um veturinn á undan, líkt og hann væri að skrifa um
þróun fjármálakreppu nútímans. Jón var umsjónarmaður þessa árgangs Skírnis
ásamt Magnúsi Hákonarsyni og lét sér ávallt annt um ritið, kom því meðal
annars til leiðar að farið var að greiða ritlaun til höfunda. Raunar var Jón alla
tíð nátengdur Hinu íslenzka bókmenntafélagi, hafði líklega gengið í það árið
áður en hann skrifaði greinina sem hér er vitnað til. Hann hlaut sem kunnugt
er nafnbótina forseti af því að hann var svo lengi forseti Hafnardeildar Bók-
menntafélagsins — um það og fleira má lesa í merkri grein Björns M. Ólsens,
„Jón Sigurðsson og Bókmenntafélagið", sem birtist í Skírni fyrir nákvæmlega
hundrað árum. Því er ekki nema eðlilegt að spurt sé af hverju Jóns sé ekki
minnst í þessu hefti sem kemur út þegar 200 ár eru liðin frá fæðingu hans. Því
er til að svara að það hefur orðið að ráði að Bókmenntafélagið gefi út sérstaka
bók um Jón Sigurðsson og hugmyndaheim hans sem verði fylgirit með haust-
hefti Skírnis og vonandi bæði félaginu og tímaritinu til sóma.
Vorheftið geymir fjölbreytt efni og mætti segja að það endurspegli marg-
vísleg áhugamál Jóns Sigurðssonar: Hér er skrifað um Islandssögu (Gunnar
Karlsson andmælir kenningum Páls Theódórssonar um landnám íslands), um
fornleifafræði (Orri Vésteinsson birtir óvenjulega lýsingu á Gásum), um
menntamál (Atli Harðarson um íslenska stúdentsprófið), um stjórnskipan Is-
lands (Salvör Nordal um stjórnlagaráð), auk þess sem birtar eru margvíslegar
greinar um bókmenntir. Myndlist kemur líka við sögu í grein Æsu Sigurjóns-
dóttur um Björk, og loks minnist Sigurður Pálsson skáldbróður síns, Thors
Vilhjálmssonar, sem lést fyrr á þessu ári. Þannig leyfir Skírnir sér að andæfa sér-
hæfingu og niðurhólfun tímarita, og heldur áfram að birta vandaðar greinar
handa upplýstum almenningi, í anda þeirra hugsjóna nítjándu aldar sem Jón for-
seti aðhylltist sjálfur.
Góða skemmtun!
Halldór Guðmundsson