Skírnir - 01.04.2011, Page 7
RITGERÐIR
GUNNAR KARLSSON
Upphaf mannaferða á íslandi
Á undanförnum árum hefur Páll Theodórsson eðlisfræðingur
skrifað hverja greinina af annarri til að færa rök að því að landnám
hafi hafist á Islandi löngu fyrr en sagt er á bókum, fornum og
nýjum. Árið 1997 talaði hann fyrir því á grundvelli geislakolsmæl-
inga að byggð hefði hafist í Vestmannaeyjum og Reykjavík í upp-
hafi áttundu aldar.1 Síðan hefur hann fært sig heldur upp á skaftið
og gert ráð fyrir að þessir staðir hafi verið byggðir ekki síðar en um
670 eða tveimur öldum fyrir þann tíma sem lengi hefur verið talinn
marka upphaf landnámsaldar.2 Þorsteinn Vilhjálmsson eðlisfræð-
ingur og vísindasagnfræðingur brást við kenningu Páls í vorhefti
Skírnis 2010 og vefengdi niðurstöðu hans meðal annars og einkum
með þeim rökum að stakar komur manna til Islands, sem geisla-
kolsmælingar kunna að vitna um, geti ekki kallast byggð í landinu
og marki því ekki upphaf landnámsaldar.3
Eg fellst gersamlega á málflutning Þorsteins svo langt sem hann
nær. Að frátalinni ströngustu einsögu fjallar sagnfræðileg saga um
samfélög manna, og þau verða ekki til á einum stað nema hópar
fólks séu þar til að hafa samskipti sín á milli, skipti með sér verkum,
skiptist á verðmætum, beiti hegðunarreglum og brjóti þær, dæmi,
refsi, pari sig, elskist, geti börn og svo framvegis. Saga Islendinga
fer ekki að gerast þó að nokkrir sæfarar haldi sig um tíma í Vest-
mannaeyjum eða Reykjavík, kannski allir af sama kyni, jafnvel
munkar. Af því verður Island ekki byggt land fremur en Suður-
skautslandið telst byggt þó að fólk sé sífellt að flækjast þar. Við
teljum Hvannalindir líka hiklaust til óbyggða um aldir þótt húsa-
1 Páll Theodórsson 1997: 95, 108.
2 Páll Theodórsson 2009: 271, 277; Páll Theodórsson 2010: 518-519.
3 Þorsteinn Vilhjálmsson 2010: 5-9, 19, 21.
Skírnir, 185. ár (vor 2011)