Skírnir - 01.04.2011, Síða 38
36
JÓHANN PÁLL ÁRNASON
SKÍRNIR
á milli mála að Halldór telur skáldfræðimennskuna geta náð lengra.
A Njálu lítur hann sem hluta af stærri heild, en um leið lykil að
henni: allar hugleiðingar um fornnorrænan menningarheim taka á
einn eða annan hátt mið af þessum hápunkti íslenskrar sagnaritunar,
en á hinn bóginn verður söguheimur Njálu ekki kannaður til hlítar
nema tekið sé tillit til þess breiða menningarsögulega samhengis sem
Laxness minnir fræðimenn á.
I „Minnisgreinum um fornsögur" er menningarsaga norræna
heimsins á ár- og hámiðöldum tekin til nánari athugunar, með sér-
stöku tilliti til eftirmálans sem skráður var á Islandi á þrettándu öld.
Mynd Halldórs af miðaldaheiminum — og stöðu Norðurlanda í
honum — virðist byggð, beint eða óbeint, á fjórum stoðum, þótt
ekki sé formlega vitnað nema í eina þeirra. Belgíski sagnfræðingur-
inn Henri Pirenne (1862-1935) er nafngreindur, og Halldór segir
hann hafa „sannað" (MF 10) kenningar um afturför, afmenntun og
afsiðun Vestur-Evrópu á fyrsta stigi miðalda. Hér mun fyrst og
fremst átt við bókina Mahomet et Charlemagne, sem gefin var út að
höfundinum látnum árið 1935, en er byggð á eldri greinum og fyrir-
lestrum. Réttara væri þó að Pirenne „sannaði“ ekkert, heldur opnaði
hann nýjar leiðir fyrir umræður miðaldafræðinga, og í þeim skiln-
ingi eru áhrif hans enn augljós; en gera má greinarmun á tveim
þáttum í túlkun hans á byrjunarskeiði miðalda. Eitt er að skoða
þróun Vestur-Evrópu í samhengi við hina tvo menningarheimana,
sem við tóku af rómverska heimsveldinu (umráða- og áhrifasvæði
Miklagarðs og íslams). Annað er að túlka útbreiðslu íslams austan,
sunnan og vestan Miðjarðarhafs sem helztu — eða jafnvel einu —
orsök samdráttar og afturfarar í Vestur-Evrópu. í fyrra tillitinu var
Pirenne brautryðjandi söguskoðunar sem nú virðist hafa unnið
fullan sigur. Sagnfræðingar hafa lagt vaxandi áherzlu á samspil
þriggja erfðamenninga (successor civilizations) sem tóku við af hinni
grísk-rómversku fornöld, skiptu með sér umdæmi hennar og
breiddust út til nærliggjandi svæða í norðri, austri og suðri. Ymsir
höfundar hafa — að mínu viti með réttu — bætt við fjórða menn-
ingarheiminum, þ.e.a.s. gyðingdómnum, sem að vísu keppti ekki
við hina um völd, en samsamaðist þeim heldur ekki. Oðru máli
gegnir um síðara sjónarmiðið. Sagnfræðingar deila enn um hvað sé