Skírnir - 01.04.2011, Page 46
44
JÓHANN PÁLL ÁRNASON
SKÍRNIR
vegna í nánum kynnum við öfl og atburðarásir sem ekki verða
sveigð undir mannleg áform né vilja. Athafnasemi, hreyfanleiki og
næm vitund um takmörk mannlegs sjálfræðis, svo og fallvaltleik
mannlegrar velgengni, virðast fara saman. Ef svo er má líta á ör-
lagatrúna sem svar við tilvistarlegri þverstæðu frekar en spegilmynd
ákveðinna lífshátta.
En hvers vegna er örlagatrúnni lýst sem skynsemistrú víkinga-
aldar? Halldór útskýrir það ekki, og leiða verður getum að rök-
semdunum sem styðja þessa nafngift. I fyrsta lagi ber að undirstrika
þá staðhæfingu að örlagatrúin sé ólík guðatrúnni: hún er m.ö.o.
mótstraumur innan norræns heiðindóms, og kemur skýrast fram á
síðasta skeiði hans. Túlkun Halldórs á Völuspá er sú að þar séu ör-
lögin sett ofar guðunum. Skyldleikinn við skynsemistrúna væri þá
fólginn í byrjandi efasemdum um guðatrúna, eða í það minnsta end-
urmati á henni. Við það má bæta að ópersónuleg skipan hluta og
atburða getur talizt standa nær skynsemishyggju en hugmyndir um
guðlega stjórnun eða íhlutun. Þriðja atriðið er langsóttara en hin
tvö, en virðist þó skipta miklu máli fyrir Halldór. Það tengist sam-
bandinu milli skynsemi og sjálfræðis, sem verið hefur til stöðugrar
umræðu í nútímaheimspeki, og þar með þverstæðunni sem áður var
nefnd. Hæsta stigi örlagatrúarinnar er náð með ímynd „þess mann-
dóms sem engin ósigur fær snortið og er sterkastur í sjálfum
dauðanum".12 Þannig rísa menn „yfir örlög sín“, og í því siðferðis-
mynztri felst engin afneitun eigin vilja né eigin skilnings. Til þess að
rísa yfir örlög sín þarf sjálfræði sem ekki samrýmist undirgefni
undir guðlega forsjón eða forákvörðun.
Allt þetta færir örlagatrúna — í skilningi Halldórs — nær skyn-
semistrú, en vekur jafnframt spurningar um áhrif Spenglers og mót-
vægi við þeim. Ef Halldór túlkar norrænan heiðindóm — og
söguleg afrek hans — í anda Spenglers, eins og rakið var hér að
framan, verða hugleiðingarnar um örlagatrúna að skoðast í því ljósi
og með tilliti til myndarinnar sem dregin var upp af norrænni frum-
útgáfu fástískrar menningar. Orlagahugmyndin sem andstæða or-
sakalögmálsins er lykilatriði í söguskoðun Spenglers. Af þessum
12 Halldór Laxness 1946a: 365.