Skírnir - 01.04.2011, Page 49
SKÍRNIR
HALLDÓR LAXNESS OG ...
47
og þess menningarheims sem hann lýsti svo eftirminnilega um
miðjan fimmta áratuginn. Ef reynt er að staðsetja þessi þáttaskil í
skrifum Halldórs, hlýtur Gerpla að verða fyrst fyrir. Það er kunnara
en frá þurfi að segja að í þeirri bók gerði hann upp sakir við alræðis-
stefnur og valddýrkendur tuttugustu aldarinnar; áherzlan (og af-
hjúpunin) á „estetíseringu“ valdsins beinist fyrst og fremst að
fasískum hreyfingum og valdhöfum, en enginn efast nú um að
dómur var einnig kveðinn upp yfir stefnunni sem Halldór hafði um
alllangt skeið verið handgenginn. Þess var aldrei að vænta að hann
mundi skrifa skáldsögu um kommúnismann sem hreyfingu og
heimssýn, eins og ýmsir aðrir vonsviknir rithöfundar (frá Manes
Sperber til Milans Kundera) hafa gert. Frá hans sjónarmiði lá króka-
leiðin yfir víkingaöldina og bókmenntalegan eftirleik hennar beinna
við. Leið Halldórs út á vinstri væng heimsstjórnmálanna var um
margt mjög frábrugðin því sem annars gerðist meðal róttækra evr-
ópskra menntamanna, og er því ekki að undra að uppgjörið skyldi
vera með sérstæðum hætti. „Séra Jósef heitinn Rússakeisari“, eins og
Halldór síðar kallaði Stalín, er tekinn til krufningar undir dulnefni,
og niðurstaðan kemur smám saman í ljós í skrifum Halldórs á sjötta
og sjöunda áratugnum. I því samhengi sem hér er til umræðu skiptir
það höfuðmáli að norræn miðaldamenning varð ekki söm í augum
Halldórs eftir hlutverkið sem henni var ætlað í Gerpln. Sagan setur
ekki fram nýja túlkun á viðfangsefni „Minnisgreina um fornsögur",
en hún stuðlar óumdeilanlega að allsherjar endurmati í neikvæðum
anda. Fornsögurnar og aðrar greinar íslenzkra miðaldabókmennta
eru Halldóri eftir sem áður hugstæðar og verðmætar, en heiminn á
bak við þær getur hann ekki lengur séð í þeim hillingum sem áður
höfðu mótað skilning hans á þessum kafla í evrópskri menningar-
sögu. Af því leiðir að sambandið milli bókmenntasköpunar og
sögulegra aðstæðna verður torræðara, og Halldór reynir ýmsar
leiðir til að skýra það. Þeim verður nánar lýst hér að neðan. En áður
en þar að kemur ber að nefna enn eina hlið uppgjörsins í Gerplu. Hér
hefur verið reynt að sýna fram á að Halldór hafi tekið mið af
Spengler miklu lengur en beinar tilvitnanir gefa til kynna (ég held
reyndar að þessara áhrifa gæti líka í Sjálfstœðu fólki, en út í það
verður ekki farið að sinni). Gerpla virðist hafa bundið enda á þessi