Skírnir - 01.04.2011, Side 50
48
JÓHANN PÁLL ÁRNASON
SKÍRNIR
tengsl, og ástæðan til þess er auðfundin. í Alþýðubókinni er sagt um
Spengler, í gagnrýnum tón, að hann komist við „yfir fyrirbrigðum
heimssögunnar einsog skáld yfir blómum".16 Þess háttar skynjun á
veraldarsögunni (sem að áiiti Halldórs truflar réttlætisvitund Speng-
lers) felur í sér þá estetíseringu valdsins sem harðast er deilt á í
Gerplu. Söguspeki Spenglers er þannig, að því er bezt verður séð, af-
skrifuð í sömu andrá og kommúnisminn, og af náskyldum ástæðum.
Eftir miðja tuttugustu öld lét Halldór oft í ljós andúð á hug-
myndafræðilegum kerfum, af hvaða stofni sem þau voru sprottin
(í texta skrifuðum á ensku segist hann hafa viðbjóð á sjálfu orðinu
„ideology", þótt hann verði stundum að nota það). Þetta er þó ekki
sagan öll. Á yngri árum hafði hann laðazt að straumum og stefnum
í háþróuðum hugmyndafræðilegum búningi — fyrst kaþólsku,
síðan sósíalisma, þótt fræðileg hlið hins síðarnefnda væri honum
aldrei eins mikið áhugamál og kaþólsk guðfræði hafði um eitt skeið
verið. Til þessara hugmyndastrauma verður einnig að telja sögu-
speki Spenglers, sem að vísu mótaði ekki opinber sjónarmið Hall-
dórs í sama mæli og áðurnefnd tvö kenningakerfi, svo og þá lífseigu
vísindatrú sem áberandi var í skrifum hans eftir miðjan þriðja ára-
tuginn og allan þann fjórða, en skýtur líka upp kollinum alllöngu
eftir sinnaskiptin miklu í kjölfar Gerplu. Hvað sem einstökum
dæmum líður er heildarmyndin skýr: tímamót urðu í hugmynda- og
höfundarheimi Halldórs þegar hann fjarlægðist kommúnismann og
sagði um leið skilið við almennari hugsunarmáta sem „hörundslaus
tröllskessan Byltíng“17 hafði endanlega afhelgað. Hvað varð eftir, og
hvað tók við? Halldór Guðmundsson telur ritverk Halldórs Laxness
öðru fremur snúast um „andstæðurnar milli loftsýnar og jarðlífs",
og bætir því við að þessar andstæður hafi fundið sér „nýja næringu
í mannlífi 20. aldar sem sagnfræðingar hafa kallað öld öfganna".18
Þetta er sannfærandi túlkun, og skiptir þá ekki öllu máli hve mikið
við viljum gera úr vitruninni í Laxnesi. Kjarninn í „loftsýninni" er
fegurðardýrkun með dulspekilegu ívafi. Fegurðin er „sjálfstæð
höfuðskepna“, eins og Halldór orðaði það síðar, og öll mannleg
16 Halldór Laxness 1955: 109.
17 Halldór Laxness 1968: 118.
18 Halldór Guðmundsson 2004: 12.