Skírnir - 01.04.2011, Page 58
56
JÓHANN PÁLL ÁRNASON
SKÍRNIR
Þessi mynd af hinni norrænu fornvakningu er allt önnur en sú
sem gerir hana að varnarstríði heiðins anda gegn útþenslu kristin-
dómsins (síðarnefnda túlkunin á sér lengri sögu, en „Minnisgreinar
um fornsögur“ verða að teljast ein frumlegasta og tilþrifamesta
framsetning hennar). Hjá Halldóri er ekki að finna fullmótaða út-
færslu þess sjónarmiðs sem tekið var saman hér að ofan, en ótví-
ræðar vísbendingar eru í þá átt. Fyrst er minnst á tengsl milli
fornvakningar í norðri og suðri í „Minnisgreinum um fornsögur",
en um nánari umfjöllun er ekki að ræða fyrr en í ritgerðinni „Upp-
haf mannúðarstefnu", sem birtist á íslenzku 1965. Þar er uppgangur
húmanismans á hámiðöldum rakinn til tveggja orsaka: annars vegar
vaxandi menningar og auðsældar borga, hins vegar nánari kynna af
grískri og rómverskri arfleifð. Fyrra atriðið kemur augljóslega ekki
við sögu á Islandi, og hið síðara hefur takmarkaða þýðingu þegar
kemur að séreinkennum íslenzkra bókmennta. Halldór efast ekki
um að ísland hafi verið „kaþólskt land“, en eigi að síður urðu þar
til „þær frjálsar bókmentir einar sem miðaldir ólu“, og má telja
„sönnun þess að andi miðalda bjó þrátt fyrir allt yfir lífsþrótti til að
skapa menskar bókmentir hvarvetna þar sem „hundar drottins"
náðu ekki til hans“.27 Með „hundum drottins" á Halldór við rann-
sóknarréttinn, en með „anda miðalda“ verður ekki séð að hann eigi
við annað en kaþólska heims- og lífssýn. Hér væri sem sagt um
sögulega þverstæðu að ræða: bókmenntir í kaþólskum anda þrífast
bezt þar sem kaþólskar valdastofnanir eru vegna sérstakra aðstæðna
veikari en annars gerist. Þetta samrýmist tæplega því sem áður var
sagt um bókmenntir í höndum kirkjunnar. Áratug síðar rekur Hall-
dór bókmenntasögu þjóðveldistímans í lengra máli og leggur þá
megináherzlu á vaxandi sjálfstæði bókmenntasköpunar gagnvart
kirkju og kristilegum kenningum. íslendingar rakna við „úr hinu
sæla kristilega roti trúboðstímans" (F 65) og fara að stunda sagna-
gerð í veraldlegri stíl, fyrst með náinni hliðsjón af erlendum fyrir-
myndum og meiri áhuga á atburðasögu nágrannalanda en eigin
fortíð. Síðan nær „draumsjón um rismikið mannlíf til forna“ (F 65)
yfirhöndinni, á sama tíma og stjórnskipulag þjóðveldisins liðast í
27 Halldór Laxness 1965: 28-29.