Skírnir - 01.04.2011, Page 63
SKÍRNIR
HALLDÓR LAXNESS OG ...
61
á íslendingasögum. Hann kallar Egil Skallagrímsson þórsfígúru og
Snorra goða óðinsfígúru, án þess þó að útskýra nánar í hverju eftir-
líkingin sé fólgin. Fleiri dæmi mætti nefna ef rúm væri til.
Hér hefur aðeins verið drepið á nokkur meginatriði í fjögra ára-
tuga skrifum um flókið og umdeilt viðfangsefni. Allt það sem hér
hefur verið rætt mætti setja í víðara samhengi, með tilliti til verka
Halldórs og hliðsjón af áframhaldandi akademískri umræðu. I þá
átt verður ekki lengra farið að sinni. Rétt er þó að ljúka þessu máli
með stuttu yfirliti yfir vegaskil og valkosti í textunum sem teknir
voru til nánari athugunar. Eins og fram kom að ofan varð Halldór
afhuga kenningunni um heiðinn anda íslenzkra fornbókmennta, og
sú endurskoðun fyrri hugmynda er nátengd umfangsmeiri breyt-
ingum á heimsmynd og frásagnarlist hans. En hún var einnig í sam-
ræmi við almennari þróun fræðilegrar umræðu. Lýsing Halldórs á
andkristinni norrænni menningu og síðasta þroskaskeiði hennar á Is-
landi er ekki óskyld þeim eldri túlkunum sem mesta áherzlu lögðu
á norræna sérstöðu, þótt mikið beri á milli í einstökum atriðum.
Kunnasta dæmið er líklega kenning — eða tilgáta — Toynbees um
skandinavíska siðmenningu sem yfirbuguð var af vestrænum kristin-
dómi áður en hún náði fullum þroska, en varð þó bæði frjórri og líf-
seigari á Islandi en annars staðar. Telja má að á síðari hluta tuttug-
ustu aldar hafi sagnfræðirannsóknir á norrænum miðöldum endan-
lega grafið undan þess háttar fortíðarmyndum, og forsendur því
skort fyrir ný tilbrigði við „Minnisgreinar um fornsögur", jafnvel
þótt Halldór hefði viljað reyna þá leið. Viðhorf fræðimanna breytt-
ust fyrst og fremst vegna betri skilnings á áhrifum kristni og af-
leiðingum siðaskiptanna. Halldór tók í þann streng, á sinn hátt að
vísu og í samræmi við persónulega enduruppgötvun kristindómsins
frá nýjum hliðum. Þegar hann leiddi hugann að sérstæðum
tengslum kirkju og mennta á íslandi, nálgaðist hann — eins og áður
var getið — þá túlkunarleið sem nú virðist vænlegust til skilnings á
íslenzkum hámiðöldum. Hún gerir ráð fyrir „fornvakningu" undir
evrópskum áhrifum en í ólíku menningarsögulegu samhengi. Þetta
ferli felur í sér viðleitni til að virkja eldri menningarerfðir og taka þær
saman í heildarmynd, og verður því ekki lagt að jöfnu við einbera
aðlögun að kristnum mynztrum.